Áshildur Friðriksdóttir, sem er rafmagnsverkfræðingur að mennt og búsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum, er stofnandi og framkvæmdastjóri sjóðsins. Hún segir við Innherja að á meðal fyrstu fjárfestinga sjóðsins hafi verið í norska fyrirtækinu Carbon Crusher sem hefur þróað umhverfisvæna lausn til að leggja vegi.
„Lausnin felst í því að endurvinna gamla vegi og binda þá saman með ligníni, sem er aukaafurð úr pappírsframleiðslu. Þessi aðferð minnkar kolefnisfótspor við framkvæmdir á vegaviðgerðum svo mikið að þær verða kolefnisneikvæðar,“ útskýrir Áshildur.
Þá segir hún að Berg Energy Ventures hafi einnig fjárfest í spunafyrirtæki frá rannsóknarteymi við bandarískan háskóla. „Teymið hefur uppgötvað nýtt anóðuefni sem gerir Lithíum rafhlöðum kleift að endurhlaðast á fáeinum mínútum, ásamt því að gera þær öruggari og endingarmeiri,“ að sögn Áshildar.
Hún segir að ekki verði leitað að öðrum utanaðkomandi fjárfestum til að koma að fjármögnun vísisjóðsins að sinni.
Silfurberg, sem var með tæplega 12 milljarða króna í eigið fé í árslok 2020, hagnaðist verulega þegar félagið seldi hlut sinn ásamt öðrum fjárfestum í lyfjafyrirtækinu Invent Farma til Apax Partners árið 2016 en kaupverðið nam um 30 milljörðum króna á þáverandi gengi. Fjárfestingafélagið hefur komið að fjármögnun magra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja á undanförnum árum en á meðal félaga í eignasafni Silfurbergs eru Lyfjaver, augnlyfjaþróunar fyrirtækið Oculis, smáþörungaframleiðandinn Vaxa Technologies, vísisfjárfestirinn Crowberry Capital og Orf Líftækni.
Áshildur, sem er dóttir Friðriks Steins og Ingibjargar, hefur verið búsett í Kaliforníu eftir að hún lauk námi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands þar sem hún hefur unnið að rannsóknarverkefnum í Caltech og UC Santa Barbara.
„Þau verkefni,“ útskýrir Áshildur, „hafa snúið að því að nýta sólarorku til að umbreyta koltvíoxíð í ný efni sem hægt að geyma sem eldsneyti og nota síðar. Að vera partur af rannsóknarteymum hefur gert mér kleift að fylgjast vel með stöðu og framvindu rannsókna á endurnýjanlegri orku. Sú reynsla hefur nýst mér til að meta fjárfestingar í þeim geira.“