Það tók lögreglu aðeins fjórar mínútur að mæta á vettvang eftir að útkall barst en árásinni lauk þegar byssumaðurinn tók eigið líf með öðru skotvopnanna.
Kennsl hafa ekki verið borin á manninn en hann er sagður hafa verið á aldrinum 35 til 40 ára. Ekki er vitað hvað honum gekk til en lögregla hefur þó sagt að það hafi ekki verið tilviljun að hann lét til skarar skríða á sjúkrahúsinu.
Samkvæmt Washington Post hýsti umrædd bygging meðal annars miðstöð bæklunarlækninga.
Það hefur ekki verið gefið upp hvort látnu voru starfsmenn eða sjúklingar.
Ekki er vika liðin síðan Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti landsmenn til að sameinast nú gegn byssuvandamálinu eftir að nítján börn og tveir kennarar voru myrtir í grunnskóla í Texas.