Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur fordæmt árásina og lýst henni sem grimmdarlegu ódæði. Franziska Giffey, borgarstjóri Berlínar, sagði í samtali við þýska miðla að gærdagurinn væri dimmur dagur í sögu borgarinnar.
Hún bætti við að hinn grunaði, sem situr enn í gæsluvarðhaldi, glími við alvarlega geðkvilla. Þá hafi hann haft uppi ýmsar „ruglingslegar staðhæfingar.“ Fram kemur í stuttri yfirlýsingu sem lögreglan sendi frá sér í dag að hún telji verknaðinn hafa verið viljaverk og að grunur leiki á því að hinn 29 ára sakborningur eigi við andleg veikindi að stríða.
Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC en þýska lögreglan greindi frá því í gær að um væri að ræða 29 ára karlmann með þýskan og armenskan ríkisborgararétt sem búsettur væri í Berlín. Maðurinn er sagður hafa notað bifreið í eigu systur sinnar til að fremja verknaðinn.

Veikur maður sem hafi gengið berseksgang
Að sögn þýskra miðla hefur maðurinn verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Ekki eru vísbendingar um að maðurinn hafi nokkur tengsl við skipulögð hryðjuverkasamtök, að sögn saksóknara sem segir manninn sýna einkenni ofsóknargeðklofa.
Systir mannsins sagði í samtali við þýska götublaðið Bild að hann glími við „alvarleg vandamál“ og Iris Spranger innanríkisráðherra hefur sagt að gögn bendi til að „um sé að ræða andlega veikan mann sem hafi gengið berserksgang.“
Saksóknari hefur lagt það til að maðurinn verði vistaður á geðheilbrigðisstofnun fram að réttarhöldum í málinu. Spranger, sem er ráðherra dómsmála, sagði að í bílnum hafi fundist skilti þar sem maðurinn „lýsi skoðunum sínum á Tyrklandi“ en hafnaði fyrri fréttaflutningi þar sem staðhæft var að játning hafi fundist um borð.
Meðal hinna slösuðu eru nemendur frá þýska smábænum Bad Arolsen sem voru á skólaferðalagi í Berlín til að fanga próflokum. Sjö þeirra eru alvarlega slasaðir að sögn saksóknara. Konan sem lést í árásinni reyndist vera kennarinn þeirra en annar kennari úr ferðinni er sagður vera í lífshættu.