Fótbolti

Þjálfari egypska landsliðsins rekinn eftir aðeins þrjá leiki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ehab Galal (t.h.) tekur við treyju egypska landsliðsins úr höndum forseta egypska knattspyrnusambandsins, Gamal Allam (t.v.).
Ehab Galal (t.h.) tekur við treyju egypska landsliðsins úr höndum forseta egypska knattspyrnusambandsins, Gamal Allam (t.v.). Ayman Aref/NurPhoto via Getty Images

Egypski knattspyrnuþjálfarinn Ehab Galal fékk ekki langan tíma við stjórnvölin hjá egypska landsliðinu í fótbolta, en hann var rekinn eftir að hafa stýrt liðinu í aðeins þremur leikjum.

Galal tók við af Carlos Queiroz í apríl á þessu ári eftir að Queiroz var látinn taka poka sinn þegar liðinu mistókst að vinna sér inn sæti á HM í Katar.

Undir stjórn Galal lék egypska liðið þrjá leiki, tvo í undankeppni Afríkumótsins og einn vináttulandsleik. Egyptar unnu fyrsta leikinn gegn á heimavelli gegn Gíneu fyrir tæpum tveimur vikum, en töpuðu svo óvænt fjórum dögum síðar gegn Eþíópíu, 2-0.

Þriðji leikur liðsins var svo vináttulandsleikur gegn Suður-Kóreu síðastliðinn þriðjudag þar sem liðið tapaði 4-1.

Þessi tvö töp reyndust nóg til að fylla mælinn hjá egypska knattspyrnusambandinu og Ehab Galal var látinn fara. Hazem Emam, stjórnarmeðlimur í egypska knattspyrnusambandinu, segir að sambandið muni leita út fyrir landsteinana að eftirmanni Galal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×