Fótbolti

Willum Þór á far­alds­fæti um ára­mótin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Willum Þór Willumsson í baráttunni með U-21 árs landsliði Íslands á sínum tíma. 
Willum Þór Willumsson í baráttunni með U-21 árs landsliði Íslands á sínum tíma.  Getty Images

Það stefnir í að Willum Þór Willumsson skipti um lið er samningur hans við BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi rennur út um áramótin.

Hinn 23 ára gamli Willum Þór hefur átt góðu gengi að fagna á leiktíðinni. Hefur hann skorað fjögur mörk og lagt upp þrjú til viðbótar í níu deildarleikjum.

Með Willum Þór innanborðs var BATE nær ósigrandi en þessi öflugi miðjumaður hefur verið að glíma við meiðsli og á sama tíma hefur BATE hikstað. Er liðið sem stendur í 3. sæti með 24 stig en getur náð toppsætinu á nýjan leik vinni það leikinn sem það á til góða.

Willum Þór hefur verið í herbúðum BATE síðan árið 2019 en virðist vera á förum þegar samningur hans rennur út. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður leikmannsins, staðfesti í stuttu spjalli við Fótbolti.net að mál Willums Þórs væru í skoðun en það hefði þegar borist tilboð frá Hollandi.

„Hlutirnir eru í vinnslu, þetta tekur tíma,“ sagði Ólafur við Fótbolti.net.

Willum Þór hefur spilað einn A-landsleik á ferli sínum. Var hann valinn í landsliðshóp Íslands fyrir verkefnið fyrr í þessum mánuði en varð að draga sig úr hópnum vegna þessara sömu meiðsla og hafa haldið honum frá keppni í Hvíta-Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×