Innherji

Ráðandi eigandi Íslenskra verðbréfa stækkar við hlut sinn

Hörður Ægisson skrifar
Eignir í stýringu hjá samstæðu ÍV, sem er með aðalstarfsemi sína á Akureyri, námu um 114 milljörðum í árslok 2021 og jukust um liðlega 20 milljarða á milli ára.
Eignir í stýringu hjá samstæðu ÍV, sem er með aðalstarfsemi sína á Akureyri, námu um 114 milljörðum í árslok 2021 og jukust um liðlega 20 milljarða á milli ára. vísir/tryggvi

Eignarhaldsfélagið Björg Capital, sem hefur verið langsamlega stærsti hluthafi Íslenskra verðbréfa (ÍV) með helmingshlut allt frá sameiningu ÍV og Viðskiptahússins um mitt árið 2019, hefur að undanförnu keypt út suma af minni hluthöfum verðbréfafyrirtækisins og fer núna með um 63,5 prósenta eignarhlut.

Björg Capital, sem bókfærði 50 prósenta hlut sinn í Íslenskum verðbréfum í árslok 2021 á samtals 875 milljónir króna, er í eigu Þorbjargar Stefánsdóttur, eiginkonu Jóhanns M. Ólafssonar, forstjóra ÍV og stofnanda Viðskiptahússins.

Á meðal helstu hluthafa sem hafa selt bréf sín í Íslenskum verðbréfum til Bjargar Capital eru Brú lífeyrissjóður og félagið Saffron Holding, sem er í eigu Sigurðar Arngrímssonar fjárfestis, en hluthafarnir áttu hvor um sig 4,99 prósenta hlut. Þá hefur Lífeyrissjóður Vestmannaeyja einnig selt sín bréf en sjóðurinn átti 2,5 prósenta hlut í ÍV.

Jóhann M. Ólafsson er forstjóri Íslenskra verðbréfa en félagið Björg Capital, sem er í eigu eiginkonu hans, fer núna með um 63,5 prósenta hlut í félaginu.

Umtalsverður bati varð á rekstri Íslenskra verðbréfa, sem rekur meðal annars ÍV sjóði, á síðasta ári og jukust rekstrartekjur samstæðunnar um meira en 300 milljónir og námu samtals nærri 1.030 milljónum króna. Hagnaður ÍV, sem var á meðal söluráðgjafa í útboði ríkissjóðs á hlutum í Íslandsbanka í mars síðastliðnum, nam 94 milljónum borið saman við 1,4 milljóna króna hagnað á árinu 2020.

Eignir í stýringu hjá samstæðu ÍV, sem er með aðalstarfsemi sína á Akureyri, námu um 114 milljörðum í árslok 2021 og jukust um liðlega 20 milljarða á milli ára.

Tæplega fimm prósenta hlutur Brú lífeyrissjóðs í Íslenskum verðbréfum var bókfærður á um 70 milljónir í reikningum sjóðsins í lok síðasta árs á meðan 2,5 prósenta hlutur Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja var metinn á sama tíma á rúmlega 27 milljónir í síðasta ársreikningi.

Félag Sigurðar Arngrímssonar, Saffron Holding, kom fyrst inn í hluthafahóp Íslenskra verðbréfa í árslok 2016 þegar hópur innlendra fjárfesta keypti meirihluta í félaginu af Kviku banka. Sigurður seldi einnig á liðnu ári, eins og Innherji greindi fyrst frá, rúmlega sex prósenta eignarhlut sinn í Bláa lóninu til félags í eigu fjórtán lífeyrissjóða fyrir um 25 milljónir evra, jafnvirði 3,8 milljarða króna á þáverandi gengi.

Fyrir utan Björg Capital, sem hagnaðist um 345 milljónir króna í fyrra og var með um 2.070 milljónir í eigið fé í árslok, eru aðrir helstu hluthafar ÍV – hver um sig með 4,99 prósenta hlut – Kaldbakur, sem er í eigu Samherja, fjárfestingafélagið Kjálkanes, næst stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar, fjárfestingafélagið KEA, Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar og Stapi lífeyrissjóður.

Þá hafa einnig orðið nokkrar breytingar á stjórn Íslenskra verðbréfa en Sigurður Atli Jónsson, fyrrverandi forstjóri Kviku og stjórnarformaður ÍV á síðustu árum, hverfur úr stjórninni og við stjórnarformennskunni tekur Laufey María Jóhannsdóttir. Davíð Guðmundsson lögmaður kemur nýr inn í stjórn félagsins en fyrir var þar einnig Ingólfur V. Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×