James-Webb er stærsti og öflugasti geimsjónaukinn til þessa og var honum skotið á loft í lok árs 2021. Hann er arftaki Hubble sjónaukans sem er öllu minni og sér dauf fyrirbæri ekki jafn skýrt og James Webb.
„Þetta er algjör bylting vegna þess að við sjáum alheiminn núna skýrari en áður í þessu tiltekna ljósi sem geimsjónaukinn sér og markar nýtt upphaf í stjarnvísindum. Þetta er sögulegur dagur.“
Þetta segir Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, rithöfundur, dagskrárgerðamaður og stjörnufræðikennari en flestir þekkja hann sem Stjörnu-Sævar. Stjarnfræðingar iða í skinninu að fá að gaumgæfa myndirnar sem berast síðdegis. Eftirvæntingin er slík að á vefsvæði bandarísku flug-og geimvísindastofnunarinnar NASA er niðurtalning.

Sævar er fullur eftirvæntingar að fá að sjá skýra mynd af Kjalarþokunni.
„Það er staður þar sem stjörnur fæðast. Í gegnum sjónauka frá jörðinni þá sjáum við þetta ótrúlega fallega geimský sem hefur framleittsumar af stærstu stjörnum sem við þekkjum og núna öðlumst við nýja sýn á þessa miklu þoku. Þar fyrir utan fáum líka upplýsingar um andrúmsloft reikistjörnu í meira en 11 hundruð ljósára fjarlægð þannig að þetta er nýtt upphaf og nýtt skeið í stjarnvísindum.“
Sævar segir að fljótlega eftir að Hubble sjónaukanum var skotið á loft þá hafi vísindamenn farið að huga að arftakanum sem í dag er James Webb sjónaukinn. Sumir vísindamannanna hafi helgað James Webb þrjátíu ár af lífi sínu. Sævar segir James Webb vera til marks um hversu ótrúlega öflugt mannkynið sé þegar það taki höndum saman með forvitnina að vopni því geimsjónaukinn er samstarfsverkefni margra þjóða.
„Þegar sjónaukinn var í þróun komust menn snemma að því að það þyrfti að hafa hann talsvert stærri en Hubble. Auk þess þyrftir spegillinn að vera gullhúðaður til þess að hann geti numið geislun sem berst frá fjarlægustu fyrirbærum alheimsins og úr varð þessi sex og hálfs metra breiði spegill sem nú er kominn á áfangastað 1,5 milljón kílómetra frá jörðu og þar starir hann út í geiminn og sýnir okkur hann í algjörlega nýju ljósi.“
Og kannski okkur sjálf um leið?
„Já, þetta snýst náttúrulega á endanum um að læra hvernig við sjálf urðum til því verið erum alltaf að horfa aftur á bak í tímann og læra betur um hvernig stjörnur verða til; hvernig vetrarbrautirnar þróast því allt hefur þetta leitt til þess að við erum hér að stara út í tómið og reyna að skilja hvernig við í ósköpunum komumst hingað.“