Innlent

Kastaði flösku í höfuð manns

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan virðist hafa haft í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan virðist hafa haft í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í nótt tilkynning um hávaða og ónæði í öllum hverfum. Alls var farið í ellefu slík útköll og níu sinnum fóru lögregluþjónar að huga að fólki sökum ölvunarástands. Fimm voru vistaðir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt.

Einn maður var handtekinn í miðbænum fyrir að kasta flösku í höfuð annars. Þá var annar handtekinn grunaður um innbrot í fyrirtæki og þjófnað. Sá var í annarlegu ástandi og færður í fangaklefa vegna málsins.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að lögregluþjónar stöðvuðu þó nokkra ökumenn sem eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Einn slíkur var tekinn á 118 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.

Einn ökumaður, sem stöðvaður var í Hafnarfirði er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Hann og farþegi hans voru handteknir þar sem meint fíkniefni fundust á þeim báðum.

Ein tilkynning barst um líkamsárás í Mosfellsbæ í nótt. Þar var hinn meinti árásarmaður handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð.

Minnst tveir slösuðust á rafhlaupahjóli í gærkvöldi og í nótt. Annar þeirra er grunaður um ölvun á rafhlaupahjóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×