Innlent

Fangar fá námsráðgjöf í upphafi annar og vikulega fjarráðgjöf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fangelsið Kvíabryggja. Myndin er úr safni.
Fangelsið Kvíabryggja. Myndin er úr safni. Vísir/Egill

Til stendur að taka upp nýtt fyrirkomulag námsráðgjafar á Kvíabryggju í byrjun annar. Markmiðið er að nýta það fjármagn sem Fjölbrautaskólinn á Suðurlandi fær frá ríkinu betur. Þetta segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSU í samtali við Fréttablaðið.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, hefur gagnrýnt FSU harðlega fyrir að fella niður stöðu námsráðgjafa á Kvíabryggju. Hann kallar eftir heildarendurskoðun á menntamálum fanga.

Olga segir FSU fá fjármagn sem nemur einu stöðugildi námsráðgjafa fanga í fangelsum landsins. Síðust ár hafi hins vegar verið bætt í og aukið við ráðgjöfina sem nemur 10 prósentum með því að kaupa þjónustu af Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Að sögn Olgu var lítil nýting á námsráðgjafanum á Kvíabryggju á síðasta ári og þá fékkst ekki fjármagn til að reka fyrrnefnda viðbót.

Það fyrirkomulag verður nú tekið upp að fangar fá námsráðgjöf í upphafi annar og þá verða fastir vikulegir tímar í fjarráðgjöf.

Olga er sammála Guðmundi um nýja stefnumótun.

„FSu hefur fengið fjármagn til kennslu og námsráðgjafar í fangelsum í áratugi, því miður hefur það fjármagn ekki alltaf dugað okkur. Þingmenn á Suðurlandi hafa á stundum tekið málið upp á þingi en ekki hefur tekist að marka skýra stefnu um þetta mikilvæga mál.“

Ítarlega frétt um málið má finna í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×