Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Íran síðustu daga eftir að ung kúrdísk kona dó í haldi lögreglu. Hún hafði verið handtekin fyrir að vera ekki klædd í samræmi við strangar reglur klerkastjórnar Írans og lést í haldi lögreglu.
Hin 22 ára gamla Masha Jina Amini þótti ekki vera með höfuðklút sinn nógu þéttan á höfðinu og var því handtekin. Siðgæðislögreglan, sem sér um að framfylgja reglum klerkastjórnarinnar, segir hana hafa fengið hjartaáfall. Fjölskylda hennar segir hana hafa verið myrta og kveðst ekki hafa fengið að sjá lík Amini.
Yfirvöld í landinu hafa meðal annars lokað fyrir internetið í Íran og lögregla hefur beitt mikilli hörku. Fregnir hafa borist af því að öryggissveitir hafi skotið á mótmælendur og mannréttindasamtökin Amnesty International telja að fleiri tugir hafi látist.
„Tala látinna hækkar ört og sýnir glögglega hve miskunnarlaus yfirvöld eru. Stanslausar árásir á fólk í skjóli myrkurs.“ Segir Heba Morayef, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og vísar til lokunar yfirvalda á internetinu. Guardian greinir frá.
Þrátt fyrir tilraunir yfirvalda í að torvelda mótmælendum samskipti hafa myndbönd af fólki, sem sýna lögreglu beita fólk ofbeldi í mótmælunum, verið í dreifingu á samfélagsmiðlunum Instagram og Whatsapp.
Iranian women are waving their headscarves in the city of Sanandaj after one week of huge crackdown. #MahsaAmini s brutal death is becoming a turning point for Iranians to shout that load; death to dictators. # _
— Masih Alinejad (@AlinejadMasih) September 26, 2022
pic.twitter.com/ZTlHJgMnzu