Fótbolti

Íslensku stelpurnar jöfnuðu gegn Ítölum á tveimur mínútum

Sindri Sverrisson skrifar
Emelía Óskarsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands í dag.
Emelía Óskarsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands í dag. INSTAGRAM/@KRISTIANSTADSDFF

Íslenska U17-landsliðið í knattspyrnu kvenna náði að knýja fram 3-3 jafntefli gegn heimakonum á Ítalíu í dag í undankeppni EM.

Ítalía komst í 2-0 í fyrri hálfleik en Emelía Óskarsdóttir, sem nýverið skoraði sitt fyrsta mark í sænsku úrvalsdeildinni fyrir Kristianstad, náði að minnka muninn fyrir Ísland á 50. mínútu.

Ítalía náði aftur tveggja marka forskoti á 70. mínútu og staðan var 3-1 þar til innan við tíu mínútur voru eftir.

Ísland náði svo að jafna metin með tveimur mörkum á tveimur mínútum. Varamaðurinn Katrín Rósa Egilsdóttir skoraði fyrra markið og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir gerði svo jöfnunarmarkið.

Þetta var fyrsti leikur Íslands en liðið á einnig eftir að mæta Frakklandi og Sviss, og fara allir leikirnir fram á Ítalíu. Þrjú efstu liðin komast áfram á næsta stig í A-deild undankeppninnar en neðsta liðið fellur í B-deild.

Leikur Íslands við Sviss er á föstudaginn og lokaleikurinn gegn Frökkum næsta mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×