Fótbolti

„Gesturinn“ hló að mynd af sér með Miedema

Sindri Sverrisson skrifar
Vivianne Miedema með „gestinum“ Beth Mead í París í gær. Þess má geta að búið er að laga myndatextann í myndabanka Getty svo að nú sést þar nafn Mead einnig.
Vivianne Miedema með „gestinum“ Beth Mead í París í gær. Þess má geta að búið er að laga myndatextann í myndabanka Getty svo að nú sést þar nafn Mead einnig. Getty/Marc Piasecki

Beth Mead varð markadrottning EM í fótbolta í sumar, átti flestar stoðsendingar, var valin best og varð Evrópumeistari með Englandi. Samt þekkja ekki allir hana í sjón.

Mead var að sjálfsögðu viðstödd verðlaunahófið vegna Gullboltans í gærkvöld og varð í 2. sæti í valinu á knattspyrnukonu ársins, á eftir spænska snillingnum Alexiu Putellas.

Hollenska markamaskínan Vivianne Miedema var einnig á hófinu og hefur mynd af þeim Mead, sem eru samherjar hjá enska félaginu Arsenal, vakið athygli á samfélagsmiðlum.

Myndin er úr Getty-myndabankanum og í texta með myndinni stendur að sjá megi Miedema ásamt „gesti“ á verðlaunahófinu í París í gær.

Miedema deildi sjálf myndinni og kvaðst ánægð með að hafa fengið að taka þennan gest með sér. 

Miedema er húmoristi og má geta þess að hún bauðst til að taka viðtal á íslensku þegar sá sem þetta skrifar ræddi við hana eftir 1-0 sigur Hollands gegn Íslandi í síðasta mánuði.

Sjálf virtist Mead hafa húmor fyrir meðvitundarleysi þess sem skrifaði myndatextann fyrir Getty og skrifaði „LOL“ til marks um að hún hefði hlegið upphátt.

Þær Mead og Miedema geta haldið kyrru fyrir í Frakklandi því Arsenal á fyrir höndum fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, gegn meisturum Lyon annað kvöld. Liðin leika í sama riðli og Zürich og Juventus, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, sem einnig mætast á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×