Kennslumyndband Votta Jehóva um samkynja hjónabönd hefur farið sem eldur í sinu um netheima sætt harðri gagnrýni.
„Fyrst langar mig nú að segja að þetta myndband sem ég er búin að sjá frá Vottum Jéhóva er ógeðslegt. Manni langar næstum að gubba yfir þetta. Þetta er viðbjóðslegt og mér finnst ömurlegt að svona boðskapur sé hafður í heiðri og honum haldið að börnum,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar-og menntamálanefndar.
Hún hefur lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um hvernig endurskoðun á lögum um sóknargjöld miðaði. Lilja Torfadóttir, fyrrverandi sóknarbarn, sagði í samtali við fréttastofu í gær að hópur fyrrverandi Votta, krefðist þess að ríkið svipti trúfélagið sóknargjöldum en hún var gerð brottræk úr söfnuðinum fyrir að vera samkynhneigð.
„Við höfum haft fréttir af því að í Noregi hafi Vottar Jehóva verið sviptir sóknargjöldum sínum og ég hef kallað eftir upplýsingum um það hverju það sætir. Ég hef rætt þetta við nokkra norska þingmenn sem kannast ekki við málið þannig að þetta hefur ekki verið nein umræða á pólitískum vettvangi heldur skilst mér að þetta sé á vettvangi embættismanna.“
Málið snúist um hvort Vottar uppfylli skilyrði laga um trúfélög.
„Mér finnst alveg ástæða til þess að við skoðum það sem þarna er en ég segi samt sem áður að við búum við trúfrelsi og sóknargjöldin eru þannig að hver og einn ræður hvert þau fara eftir því í hvaða sókn hann er skráður og trúfrelsi er auðvitað grunnurinn í okkar stjórnarskrá og ofboðslega mikilvægt þannig að það að ganga freklega inn í það er auðvitað ofboðslega mikið inngrip eins og ég hef áður sagt. En mér finnst alveg ástæða til þess að við skoðum hvað er að gerast í Noregi, mér skilst að því máli hafi verið áfrýjað og sé í einhverjum farvegi þar þannig að ég fylgist bara spennt með hvað gerist þar.“