Breiðablik var átta stigum yfir eftir 1. leikhluta, 22-30, en dæmið snerist við í 2. leikhluta sem Valur vann, 35-22.
„Mig minnir að við höfum fengið fyrstu villuna á Val þegar ellefu sekúndur voru eftir af 2. leikhluta. Annað hvort spiluðu þeir bestu vörn sem hefur verið spiluð eða það var stífla í flautunni,“ sagði Pétur við Vísi í leikslok.
„Við hittum kannski ekki nógu vel og leyfðum þeim að komast á áhlaup sem var svo erfitt að ná til baka.“
Blikar voru aldrei langt undan í seinni hálfleik en Valsmenn héngu á forskotinu og unnu á endanum nokkuð öruggan sigur.
„Við lögðum upp með að setja orku í þennan leik og leggja okkur fram. Ég get ekki kvartað neitt undan orkunni. Ef þú leggur þig hundrað prósent fram og klikkar á skotum er það bara svoleiðis. Við klikkuðum á sniðsskotum og vítum og það var dýrt í lokin,“ sagði Pétur.
„Það hefði komið okkur inn í baráttuna. Við vissum að við gætum alveg náð þeim en það tókst ekki í kvöld. Þetta eru ríkjandi Íslandsmeistarar, mjög gott lið og þeirra heimavöllur. Við erum ennþá bara Breiðablik. Við erum betri en í fyrra en ekki eins og góðir og Valur. Það er alveg klárt mál,“ sagði Pétur að lokum.