Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Hörður 28-25 | Stjarnan aftur á sigurbraut Þorsteinn Hjálmsson skrifar 22. október 2022 18:34 Stjarnan vann langþráðan sigur í Olís-deild karla í dag. VÍSIR/HULDA MARGRÉT Stjarnan vann sterkan þriggja marka sigur er liðið tók á móti Herði frá Ísafirði í Olís-deild karla í handbolta í dag, 28-25. Stjörnumenn höfðu ekki unnið deildarleik frá því í fyrstu umferð og var sigurinn því langþráður. Harðverjar frá Ísafirði komu af miklum krafti inn í leikinn. Leikmenn Stjörnunnar litu hins vegar út fyrir að hafa engan áhuga á að spila handbolta í byrjun leiks. Staðan 1-4 Herði í vil eftir sex mínútna leik. Patrekur Jóhannesson tók leikhlé eftir ellefu mínútna leik, í stöðunni 4-6 Ísfirðingum í vil, í von um að vekja sína menn en sóknar- og varnarleikur Stjörnunnar var ekki burðugur. Harðverjar héldu þó áfram sínu striki með Endijs Kusners í broddi fylkingar en hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik. Varnarleikur Harðar var oft á tíðum í fyrri hálfleik mjög góður og átti Stjarnan í erfiðleikum á löngum köflum með að brjóta hann á bak aftur, en varnarleikurinn hefur verið helsti akkilesarhæll Ísfirðinga það sem af er tímabili. Hörður átti möguleika á að fara með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn en Daníel Wale Adeleye klikkaði úr víti úr síðasta skoti fyrri hálfleiks. Staðan 14-15, Herði í vil. Harðverjar héldu forystunni fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik en þá jafnaði Stjarnan, staðan 17-17. Eftir það mjakaði Stjarnan sér hægt og bítandi í forystu, þá aðallega þökk sé markvörslu en markvarslan var gott sem engin hjá heimamönnum í fyrri hálfleik. Stjarnan náði að halda sér í tveggja til þriggja marka forystu það sem eftir lifði leiks, þrátt fyrir ágætis atlögu Harðverja að þeirri forystu. Lokatölur, eins og fyrr segir, 28-25 heimamönnum í vil. Af hverju vann Stjarnan? Eftir arfaslakan fyrri hálfleik náðu Stjörnumenn að koma betur gíraðir til leiks í þeim síðari. Betri vörn og markvarsla ásamt auknu frumkvæði í sóknarleiknum voru þeir þættir sem gáfu Stjörnunni yfirhöndina í leiknum. Hverjir stóðu upp úr? Starri Friðriksson, hornamaður Stjörnunnar, skoraði úr öllum sínum fimm skotum í leiknum en ásamt honum var Arnór Freyr Stefánsson, markvörður Stjörnunnar, bestu leikmenn heimamanna. Arnór Freyr byrjaði að verja vel í seinni hálfleik og endaði með 40 prósent markvörslu. Hjá Herði stóðu Endijs Kusners og Suguru Hikawa upp úr. Enduðu þeir markahæstir í liði Harðar, Endijs Kusners með sex mörk og Suguru með fimm. Hvað gekk illa? Fyrstu 25 mínútur leiksins hjá Stjörnunni voru eiginlega ekki boðlegar fyrir lið með jafn góða einstaklinga og Stjarnan hefur innanborðs. Frumkvæðið var lítið á þessum kafla hjá heimamönnum sóknarlega og vörnin hriplek og í kjölfarið engin markvarsla. Hvað gerist næst? Harðverjar fá Aftureldingu í heimsókn sunnudaginn 30. október á Ísafjörð og Stjarnan fer til Akureyrar 3. nóvember og mætir KA. Báðir þessir leikir eru leiknir í sjöundu umferð Olís-deildarinnar. Patrekur Jóhannesson: Við eigum að geta líka gert betur Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét „Maður er ánægður með tvö stig en miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá er ég ekkert rosalega ánægður. Við erum lélegir í fyrri hálfleik varnarlega, það er alveg sama hvað við erum að gera og markvarslan engin, einn bolti. En ég verð að segja Harðarmenn líka, eins og leikurinn sem ég greindi hjá þeim á móti Selfossi, þá voru þeir bara flottir og hrós á þá. Auðvitað er ég ekkert ánægður með okkar frammistöðu. Ég er ánægður með sigurinn, það er gott og auðvitað hefðum við getað farið á taugum og klúðrað þessu en við gerðum það ekki. Seinni hálfleikur töluvert betri, fáum á okkur tíu mörk, þá fáum við smá markvörslu og erum þéttari og bara vorum eins og ég segi ekki nægilega góðir í fyrri hálfleik varnarlega,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik sinna manna gegn Herði. Patrekur undirbjó sig vel fyrir þennan leik líkt og aðra leiki og grunaði leikmenn sína ekki um vanmat í leiknum né í aðdraganda hans. „Bara nákvæmlega eins undirbúningur. Ég kíkti reyndar á fyrsta leikinn hjá þeim en hætti því, þar áttu þeir ekkert sérstakan leik en síðasti leikur á móti Selfoss ég fór mjög vel yfir hann og vissum alveg að þessir leikmenn fyrir utan eru bara virkilega flinkir og fljótir. Við höfum ekkert efni á einhverju vanmati. Þeir voru bara flottir, við vorum lélegir líka. Eins og ég segi við eigum að geta líka gert betur en síðan er ég náttúrulega bara ánægður með að við svona aðeins sýnum smá skap og áræðni í restina. Förum í árásirnar sem við ætluðum að gera. Sóknarlega í fyrri hálfleik þá erum við alveg að skjóta ágætlega en við erum að fleygja boltanum barnalega frá okkur sko. Hörður á hrós skilið frá mér, mér finnst þetta frábært hvað þeir eru að gera og bara gaman að þeir séu í deildinni. Þeir eiga pottþétt eftir að vinna einhverja leiki. Þeir eru með flott lið,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Markmiðin eru skýr í Garðabænum á þessu tímabili, þrátt fyrir dræmt gengi það sem af er tímabils. „Maður má ekki alltaf vera neikvæður, lífið er allt of stutt til þess. Það er bara pressa á okkur. Við ætlum okkur að vera í toppbaráttu og það er okkar markmið, við erum ekkert feimnir að segja það. Auðvitað sé ég það svona til að byrja með að Valur og ÍBV eru þéttust en við eigum alveg að geta verið þarna. Maður sér það líka ÍR-ingar frábærir á köflum, Hörður, það geta öll lið spilað handbolta. Við þurfum náttúrulega að átta okkur á því í Garðabænum að við ætlum okkur að vera, annað en mörg önnur ár, einhvers staðar að berjast um toppinn og þess vegna geri ég meiri kröfur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, að lokum. Olís-deild karla Stjarnan Hörður Handbolti
Stjarnan vann sterkan þriggja marka sigur er liðið tók á móti Herði frá Ísafirði í Olís-deild karla í handbolta í dag, 28-25. Stjörnumenn höfðu ekki unnið deildarleik frá því í fyrstu umferð og var sigurinn því langþráður. Harðverjar frá Ísafirði komu af miklum krafti inn í leikinn. Leikmenn Stjörnunnar litu hins vegar út fyrir að hafa engan áhuga á að spila handbolta í byrjun leiks. Staðan 1-4 Herði í vil eftir sex mínútna leik. Patrekur Jóhannesson tók leikhlé eftir ellefu mínútna leik, í stöðunni 4-6 Ísfirðingum í vil, í von um að vekja sína menn en sóknar- og varnarleikur Stjörnunnar var ekki burðugur. Harðverjar héldu þó áfram sínu striki með Endijs Kusners í broddi fylkingar en hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik. Varnarleikur Harðar var oft á tíðum í fyrri hálfleik mjög góður og átti Stjarnan í erfiðleikum á löngum köflum með að brjóta hann á bak aftur, en varnarleikurinn hefur verið helsti akkilesarhæll Ísfirðinga það sem af er tímabili. Hörður átti möguleika á að fara með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn en Daníel Wale Adeleye klikkaði úr víti úr síðasta skoti fyrri hálfleiks. Staðan 14-15, Herði í vil. Harðverjar héldu forystunni fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik en þá jafnaði Stjarnan, staðan 17-17. Eftir það mjakaði Stjarnan sér hægt og bítandi í forystu, þá aðallega þökk sé markvörslu en markvarslan var gott sem engin hjá heimamönnum í fyrri hálfleik. Stjarnan náði að halda sér í tveggja til þriggja marka forystu það sem eftir lifði leiks, þrátt fyrir ágætis atlögu Harðverja að þeirri forystu. Lokatölur, eins og fyrr segir, 28-25 heimamönnum í vil. Af hverju vann Stjarnan? Eftir arfaslakan fyrri hálfleik náðu Stjörnumenn að koma betur gíraðir til leiks í þeim síðari. Betri vörn og markvarsla ásamt auknu frumkvæði í sóknarleiknum voru þeir þættir sem gáfu Stjörnunni yfirhöndina í leiknum. Hverjir stóðu upp úr? Starri Friðriksson, hornamaður Stjörnunnar, skoraði úr öllum sínum fimm skotum í leiknum en ásamt honum var Arnór Freyr Stefánsson, markvörður Stjörnunnar, bestu leikmenn heimamanna. Arnór Freyr byrjaði að verja vel í seinni hálfleik og endaði með 40 prósent markvörslu. Hjá Herði stóðu Endijs Kusners og Suguru Hikawa upp úr. Enduðu þeir markahæstir í liði Harðar, Endijs Kusners með sex mörk og Suguru með fimm. Hvað gekk illa? Fyrstu 25 mínútur leiksins hjá Stjörnunni voru eiginlega ekki boðlegar fyrir lið með jafn góða einstaklinga og Stjarnan hefur innanborðs. Frumkvæðið var lítið á þessum kafla hjá heimamönnum sóknarlega og vörnin hriplek og í kjölfarið engin markvarsla. Hvað gerist næst? Harðverjar fá Aftureldingu í heimsókn sunnudaginn 30. október á Ísafjörð og Stjarnan fer til Akureyrar 3. nóvember og mætir KA. Báðir þessir leikir eru leiknir í sjöundu umferð Olís-deildarinnar. Patrekur Jóhannesson: Við eigum að geta líka gert betur Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét „Maður er ánægður með tvö stig en miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá er ég ekkert rosalega ánægður. Við erum lélegir í fyrri hálfleik varnarlega, það er alveg sama hvað við erum að gera og markvarslan engin, einn bolti. En ég verð að segja Harðarmenn líka, eins og leikurinn sem ég greindi hjá þeim á móti Selfossi, þá voru þeir bara flottir og hrós á þá. Auðvitað er ég ekkert ánægður með okkar frammistöðu. Ég er ánægður með sigurinn, það er gott og auðvitað hefðum við getað farið á taugum og klúðrað þessu en við gerðum það ekki. Seinni hálfleikur töluvert betri, fáum á okkur tíu mörk, þá fáum við smá markvörslu og erum þéttari og bara vorum eins og ég segi ekki nægilega góðir í fyrri hálfleik varnarlega,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik sinna manna gegn Herði. Patrekur undirbjó sig vel fyrir þennan leik líkt og aðra leiki og grunaði leikmenn sína ekki um vanmat í leiknum né í aðdraganda hans. „Bara nákvæmlega eins undirbúningur. Ég kíkti reyndar á fyrsta leikinn hjá þeim en hætti því, þar áttu þeir ekkert sérstakan leik en síðasti leikur á móti Selfoss ég fór mjög vel yfir hann og vissum alveg að þessir leikmenn fyrir utan eru bara virkilega flinkir og fljótir. Við höfum ekkert efni á einhverju vanmati. Þeir voru bara flottir, við vorum lélegir líka. Eins og ég segi við eigum að geta líka gert betur en síðan er ég náttúrulega bara ánægður með að við svona aðeins sýnum smá skap og áræðni í restina. Förum í árásirnar sem við ætluðum að gera. Sóknarlega í fyrri hálfleik þá erum við alveg að skjóta ágætlega en við erum að fleygja boltanum barnalega frá okkur sko. Hörður á hrós skilið frá mér, mér finnst þetta frábært hvað þeir eru að gera og bara gaman að þeir séu í deildinni. Þeir eiga pottþétt eftir að vinna einhverja leiki. Þeir eru með flott lið,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Markmiðin eru skýr í Garðabænum á þessu tímabili, þrátt fyrir dræmt gengi það sem af er tímabils. „Maður má ekki alltaf vera neikvæður, lífið er allt of stutt til þess. Það er bara pressa á okkur. Við ætlum okkur að vera í toppbaráttu og það er okkar markmið, við erum ekkert feimnir að segja það. Auðvitað sé ég það svona til að byrja með að Valur og ÍBV eru þéttust en við eigum alveg að geta verið þarna. Maður sér það líka ÍR-ingar frábærir á köflum, Hörður, það geta öll lið spilað handbolta. Við þurfum náttúrulega að átta okkur á því í Garðabænum að við ætlum okkur að vera, annað en mörg önnur ár, einhvers staðar að berjast um toppinn og þess vegna geri ég meiri kröfur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, að lokum.
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti