Ísafjarðarbær varð til árið 1996 við sameiningu sex sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Sameinað sveitarfélag er það langstærsta á Vestfjörðum með um 3.800 manns, sem er liðlega helmingur allra Vestfirðinga. Heilmikil uppbygging á sér nú stað í sveitarfélaginu.
„Það er bara uppbygging fram undan, það er bara svoleiðis. Við þurfum að vinna í því að endurskipuleggja aðalskipulagið okkar og klára það á þessu kjörtímabili. Við þurfum að skipuleggja lóðir, fara í deiliskipulag og endurskoða deiliskipulög, þannig að það er mjög mikil skipulagsvinna fram undan, bæði hér á Ísafirði og í þorpunum hér í kring,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar.
Sigríður Júlía segir að bæjaryfirvöld hafi ekki haft undan við að úthluta nýjum lóðum og nú sé komin upp sú staða að það sé að skella á lóðaskortur á Ísafirði.
„Þetta er bara mjög gaman og virkilega gott og mikil stemming í fólki, maður finnur það alveg. Það er allt á uppleið hjá okkur, ég vill meina það. Og við erum líka að byggja nemendagarða hérna, bæði á vegum Háskólasetursins, sem er staðsett hér á Ísafirði og svo er líka verið að byggja nemendagarða á Flateyri fyrir Lýðskólann,“ segir Sigríður Júlía.

Forseti bæjarstjórnar er mjög bjartsýn á framtíðina á Vestfjörðum
„Já, framtíðin er björt. Hér er fyrirtæki að vaxa og dafna, bæði í fiskeldi og þeirri starfsemi, sem styður við fiskeldið, sem og nýsköpunarfyrirtæki og allskonar hátækni, sem er að ryðja sér til rúms.“
Sigríður Júlía notar alltaf fundarhamar bæjarstjórnar þegar hún setur bæjarstjórnarfundi.
“Fundur er settur í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.“
