Fótbolti

Zlatan segir Frakka sakna sín: „Því þú ert ekki með guð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Að mati Zlatans Ibrahimovic vantar allt fútt í franska boltann eftir að hann fór.
Að mati Zlatans Ibrahimovic vantar allt fútt í franska boltann eftir að hann fór. getty/Jean Catuffe

Zlatan Ibrahimovic segir að franska úrvalsdeildin sé ekki svipur að sjón eftir að hann yfirgaf landið. Engu skipti þótt þrír af bestu sóknarmönnum heims spili með Paris Saint-Germain.

Zlatan yfirgaf PSG 2016 eftir fjögur ár hjá félaginu. Hann varð franskur meistari öll tímabil sín hjá Parísarliðinu og er þriðji markahæstur í sögu þess.

Að mati Svíans kokhrausta skildi hann eftir sig risastórt skarð í franska boltanum sem ekki hefur tekist að fylla, jafnvel þótt Lionel Messi, Neymar og Kylian Mbappé leiki með PSG um þessar mundir.

„Síðan ég fór frá Frakklandi hefur allt hrunið. Það er ekkert til að tala um lengur,“ sagði Zlatan við Canal+.

„Frakkland þarfnast mín. Ég þarf Frakkland ekki. Það hjálpar ekki að hafa Mbappé, Neymar og Messi.“

Zlatan segir einfalda ástæðu fyrir því að franska boltanum hefur hrakað. „Því þú ert ekki með guð,“ sagði sá sænski sem hefur ekki enn komið við sögu hjá AC Milan á tímabilinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×