Áttatíu umsóknir aðstoð vegna fjárhagsvanda bárust umboðsmanni skuldara í október. Þær hafa ekki verið fleiri í einum mánuði á þessu ári og hafa raunar ekki verið fleiri í eitt og hálft ár.
Verulegt áhyggjuefni
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir samtökin finna vel fyrir því að aukin greiðslubyrgði vegna vaxtahækkana bitni illa á félagsmönnum. Í samtali við fréttastofu segir hann vísbendingar um að yfirdráttarlán heimilanna séu að aukast.
„Það er verulegt áhyggjuefni. Sér í lagi í aðdraganda jólaverslunarinnar. Því yfirdráttarlán eru ákveðin mælikvarði á stöðu heimilanna. Þar að segja, heimilin eru að taka yfirdráttarlán fyrir neyslu og það getur verið vísbending um að veturinn eigi eftir að verða mörgum harður,“ segir Breki.
Auknar tilkynningar til Neytendasamtakanna
Að sögn Breka hafa Neytendasamtökunum borist auknar tilkynningar frá félagsmönnum varðandi þessi málefni undanfarið.
„Bæði félagsmenn og aðrir hafa haft samband við neytendasamtökin og bent okkur á hækkandi vexti og vandræði í kringum það. Þar að segja, margir hverjir eiga í vandræðum með að ná endum saman.“
Samkvæmt síðustu hagvísum Seðlabanka Íslands jukust yfirdráttarlán heimilanna lítilega milli ársfjórðunga. Þau voru 2,59 prósent af vergri landsframleiðslu en voru 2,63 prósent í byrjun sumars.