Fótbolti

Segist vilja sýna Katar „virðingu“ frekar en að nota regnbogalitina

Sindri Sverrisson skrifar
Hugo Lloris er markvörður og fyrirliði Frakklands og hann vill ekki vera að hrófla við neinu í Katar.
Hugo Lloris er markvörður og fyrirliði Frakklands og hann vill ekki vera að hrófla við neinu í Katar. Getty/Aurelien Meunier

Fyrirliði franska landsliðsins í fótbolta, Hugo Lloris, virðist ekki hafa í hyggju að vera með fyrirliðaband í regnbogalitum á HM í Katar, öfugt við suma aðra fyrirliða á mótinu.

Reglur FIFA banna sérhönnuð fyrirliðabönd en samt ætla fyrirliðar sumra liða, til að mynda Harry Kane hjá Englandi, að brjóta reglurnar og senda skilaboð til Katara og annarra sem horfa á HM um að hann styðji LGBTQ+ fólk. Í Katar, þar sem samkynhneigð er bönnuð, eru réttindi þessa fólks fótum troðin.

„Áður en að við gerum nokkuð þá þurfum við samþykki FIFA og samþykki [franska] sambandsins. Ég er auðvitað með mína skoðun á þessu málefni. Hún er nokkuð lík afstöðu formannsins [hjá franska sambandinu],“ sagði Lloris á blaðamannafundi í vikunni.

Formaður franska knattspyrnusambandsins, Noel Le Graet, sagði að hann myndi frekar vilja að Lloris væri ekki með fyrirliðaband í regnbogalitum, þar sem að hann teldi að Frakkar ættu ekki að vera að segja öðrum þjóðum hvernig þær ættu að haga sér.

Lloris hélt áfram: „Þegar við erum í Frakklandi, og tökum á móti útlendingum, þá viljum við oft að þeir fari eftir okkar reglum og virði okkar menningu. Ég mun gera það sama í Katar, svo einfalt er það. Ég get verið sammála eða ósammála þeirra hugmyndum en ég verð að sýna virðingu,“ sagði Lloris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×