Markahrókurinn Jónas Grani Garðarsson sem vann gullskóinn í efstu deild með Fram árið 2007 hefur búið og starfað sem sjúkraþjálfari í Katar frá árinu 2016. Hann segir að kostnaður í kringum mótið sé ýktur.
„Þegar kostnaður við HM í Katar er reiknaður, þá reiknar fólk bara með öllu sem er gert. Það er náttúrulega algjört bull og er svo sem í takt við ýmislegt annað sem við heyrum af. Menn hafa nú ekki svitnað mikið norður í Evrópu við að afla sér upplýsinga,“ segir Jónas Grani.
„Kostnaður við HM sem slíkt er svipaður og við önnur heimsmeistaramót en kostnaðurinn við að breyta Katar og Doha eins og þeir settu sér markmið um árið 1995, hann er gríðarlegur. Heimsmeistaramótið kom bara inn í það plan, það er plan sem heitir Katar 2030,“.
„HM er bara einn kafli í þeirri bók,“ segir Jónas Grani.
ILO segi Katar geta verið fordæmi
Katarar hafa sætt mikilli gagnrýni vegna mannréttindamála en Jónas segir þá gagnrýni í fjölmiðlum á köflum vera óvægna.
„Þeir viðurkenna það að ýmislegt hefur farið forgörðum en Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hefur verið með skrifstofu hérna síðan 2018. Samkvæmt því sem þeir segja, ef einhver myndi taka mark á þeim, til dæmis, þá er þeirra mat að eins og staðið er að hlutum í dag - þá verði Katar fordæmi við næstu stóru keppni.“
„En eins og staðan var 2013-15 og kannski þar á undan, var það ekki. En það þýðir að fyrsta kvörtunin til alþjóðavinnumálastofnunarinnar kom 2013 og svo var komin hingað skrifstofa 2018.“ segir Jónas Grani.
Hafi spilað spillingarleikinn líkt og aðrir
Katar er sagt hafa keypt mótið en Jónas segir það einnig eiga við um önnur heimsmeistaramót á þessari öld.
„Þeir fengu að mér finnst ósanngjarnt kastljós og hafa ekki notið vafans. Ég held það hafi bara verið ein leið til þess að fá þetta hingað og á þessum tíma. Það var bara að sannfæra menn,“
„Eins og flestir aðrir efast ekkert um það að peningar og gjafir fóru á milli, það er bara þannig sem menn fá heimsmeistaramótið, því miður. En þetta er ekki fyrsta mótið sem þú getur sagt að hafi verið keypt,“ segir Jónas Grani.
Viðtalið við Jónas Grana má sjá í spilaranum að ofan.