Fótbolti

Þriðji yngsti frá upp­hafi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gavi bar af í mögnuðu liði Spánar í dag.
Gavi bar af í mögnuðu liði Spánar í dag. Visionhaus/Getty Images

Spánverjinn Gavi varð í dag þriðji yngsti markaskorari í sögu HM í fótbolta. Aðeins Manuel Rosa og Pelé voru yngri þegar þeir skoruðu sín fyrstu mörk á HM.

Þegar ljóst var að Gavi myndi byrja leik Spánar og Kosta Ríka varð hann um leið yngsti landsliðsmaður Spánar á HM frá upphafi. Hann hélt svo upp á þann áfanga með því að skora eitt af sjö mörkum Spánar í ótrúlegum 7-0 sigri.

Gavi er aðeins 18 ára og 110 daga gamall og fór yfir enska framherjann fyrrverandi Michael Owen sem var í þriðja sæti listans fyrir daginn í dag. Owen var 18 ára og 190 daga gamall þegar hann skoraði frábært mark í leik Englands og Argentínu á HM 1998.

Hefði HM farið fram síðasta sumar, eins og mótið gerir vanalega, væri Gavi í 2. sæti listans en Manuel Rosas var 18 ára og 90 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Mexíkó á HM árið 1930.

Gavi er hins vegar hundgamall ef miðað er við yngsta markaskorara á HM frá upphafi. Pele var 17 ára og 239 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Brasilíu á HM 1958.

Gavi og Spánverjar þurfa að halda haus eftir ótrúlegan sigur í dag en ef liðið heldur uppteknum hætti er það til alls líklegt á HM í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×