Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóminn 22. nóvember síðastliðinn. Ákærða var gefið að sök að hafa þann 1. september brotið gegn lögum um ávana-og fíkniefni með því að hafa staðið að innflutningi á samtals 321,89 grömmum af kókaíni, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Maðurinn var á leið til landsins frá Palma De Mallorca og hafði falið efnin í skósólum skópars sem var í ferðatösku sem hann hafði meðferðis. Hann var stöðvaður í grænu tollhliði í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Játaði brotin og krafðist vægustu refsingar
Maðurinn játaði skýlaust fyrir dómi og krafðist vægustu refsingar. Þá var þess krafist að allur sakarkostnaður málsins yrði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnalaun skipaðs verjanda. Maðurinn hefur ekki gerst brotlegur við lög hér á landi áður og var horft til þess við ákvörðun refsingar.
Fram kemur í dómsorðum að hinsvegar verði ekki fram hjá því litið að um sé að ræða innflutning á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna, af þó nokkrum styrkleika, sem ætlað var til söludreifingar hér á landi. Var maðurinn því dæmdur til sjö mánaða fangelsisvistar.

Þá var ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar málsins í samræmi við sakarkostnaðaryfirlit, 249.532 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, 920.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 84.000 króna aksturskostnað lögmannsins.