Fótbolti

Sout­hgate hrósaði hugar­farinu og segir liðið í góðri stöðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Southgate [lengst til vinstri] og aðstoðarmenn hans.
Gareth Southgate [lengst til vinstri] og aðstoðarmenn hans. Lionel Hahn/Getty Images

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, talaði lið sitt upp eftir frekar dapra frammistöðu í markalausu jafntefli liðsins gegn Bandaríkjunum á HM í Katar. Southgate var sérstaklega sáttur með varnarleik sinna manna.

„Þetta er leikur sem þú getur tapað ef hugarfarið er ekki rétt,“ sagði Southgate að leik loknum en Engand hafði unnið Íran 6-2 í fyrsta leik sínum á HM.

„Að koma til baka eftir svona öruggan sigur er erfitt. Það er sérstaklega erfitt að spila á slíku getustigi tvo leiki í röð. Leikmennirnir eru frekar mæðulegir en það er ég ekki. Við stýrðum leiknum og miðverðirnir okkar tveir [John Stones og Harry Maguire] voru frábærir. Okkur vantaði smá kraft á síðasta þriðjung,“ bætti þjálfarinn við. Hann var gagnrýndur eftir leik fyrir að geyma Phil Foden á varamannabekknum í gær.

Southgate varði ákvörðun sína að setja Marcus Rashford og Jack Grealish inn á en ekki Phil Foden.

„Þeir náðu ekki að sýna sínar bestur hliðar en við vitum að Phil er frábær leikmaður og ef við myndum ekki skora yrðum við spurðir af hverju hann hafi ekki fengið að spila.“

„Ég er ekki ósáttur. Við þurfum að sýna nýja hlið á okkur í kvöld og ég er ánægður með hugarfarið. Markmiðið var alltaf að komast upp úr riðlinum og við höfum gert það í aðeins tveimur leikjum í síðustu tveimur mótum, það er ekki alltaf hægt.“

England mætir Wales á þriðjudaginn kemur. England þarf aðeins stig til að endanlega tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum á meðan Wales þarf óvæntan sigur ætli liðið að eiga einhvern möguleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×