Félagið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þetta kemur fram. Tilefnið eru fréttir af bjórkvöldi menntaskólanema í veislusal sem var leigður af íþróttafélaginu Gróttu og lögregla leysti upp í gærkvöldi.
Elfa Antonsdóttir, formaður foreldrafélagsins, segir í samtali við Vísi að foreldrafélagið vilji ekki að íþróttafélag barna þeirra sé bendlað við samkvæmi sem þessi. Hún vill ekki ræða málið frekar en vísar í yfirlýsingu foreldrafélagsins sem hún birti í kvöld.

„Við höfum ítrekað heyrt af sambærilegum bjórkvöldum framhaldsskólanema í sölum Gróttu. Til að mynda var eitt slíkt haldið um síðustu helgi þar sem fyrrum Valhýsingar voru meðal gesta,“ segir í yfirlýsingu foreldrafélagsins.
„Fulltrúar foreldrafélagsins hafa síðan í mars sl. barist fyrir því á öllum vígstöðvum að Grótta hætti að leigja sali sína fyrir viðburði þar sem drykkja barna undir lögaldri fer fram. Við höfum fundað bæði með núverandi og fyrrverandi bæjarstjóra, fræðslufulltrúa bæjarins og málið hefur verið tekið upp hjá skólanefnd bæjarins. Þetta er því ekki nýtt vandamál eða einstakt atvik.“

Grótta segist hafa verið blekkt
Íþróttafélagið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem það segist hafa verið gabbað af þeim sem leigði salinn undir gærkvöldið. Sá hafi verið 23 ára gamall og lofað Gróttu því að allir gestir í samkvæminu yrðu tvítugir eða eldri.
„Miðað við fréttir dagsins hefur það reynst rangt og hefur leigjandinn gerst sekur um að brjóta skilmála samningsins,“ segir í yfirlýsingu Gróttu.
„Nú leitast félagið við að styrkja og breyta verklagi til þess að fyrirbyggja að svona atvik komi upp. Nú þegar hefur verið ákveðið að starfsmaður félagsins gangi úr skugga um að ekki séu ungmenni að koma til samkvæmisins þegar það hefst og stöðva þá veisluna áður en hún fer af stað.“
Niðurskurður í æskulýðsmálum
Foreldrafélagið fagnar því að fréttir af gærkvöldinu hafi knúið Gróttu til aðgerða og ábyrgðar en segir að foreldrafélagið krefjist þess að nú verði teknir upp breyttir og betri starfshættir.
Foreldrafélagið hefur lengi barist fyrir því að æskulýðsmál í sveitarfélaginu verði tekin í gegn, allt frá því að staða æskulýðsfulltrúa var lögð niður árið 2020 í niðurskurði í æskulýðsmálum.
Það telur atvik gærkvöldsins undirstrika þörf fyrir miklar úrbætur í æskulýðsmálunum, að minnsta kosti að sveitarfélagið endurveki stöðu æskulýðsfulltrúa.