Umfjöllun, viðtal og myndir: Afturelding - Valur 30-30 | Meistararnir björguðu stigi

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Íslands- og bikarmeistarar Vals þurftu að hafa fyrir stiginu í Mosfellsbæ í kvöld.
Íslands- og bikarmeistarar Vals þurftu að hafa fyrir stiginu í Mosfellsbæ í kvöld. Vísir/Diego

Í kvöld mættust Afturelding og Valur að Varmá í Mosfellsbæ í síðasta leik beggja liða á árinu 2022 í Olís-deild karla. Lauk leiknum með jafntefli í háspennu leik, lokatölur 30-30. Valur jók þar með forystu sína á toppi deildarinnar í fimm stig. Afturelding situr enn í þriðja sæti Olís-deildarinnar, einu stigi á eftir FH.

Valsmenn komu inn í leikinn með súrt jafntefli á bakinu frá Ungverjalandi, 33-33, og laskað lið í þokkabót eftir viðureign sína gegn Ferencváros í Evrópudeildinni síðastliðinn þriðjudag. Stórskytta Aftureldingar hann Þorsteinn Leó Gunnarsson fékk þungt höfuðhögg í sigurleik liðsins gegn Stjörnunni síðastliðinn sunnudag en var metinn leikfær fyrir leikinn í kvöld sem voru frábær tíðindi fyrir heimamenn.

Vísir/Diego

Heimamenn í Aftureldingu hófu leikinn af miklum krafti og áttu í litlum vandræðum með að setja boltann fram hjá Björgvini Páli Gústavssyni í marki Vals. Staðan eftir tíu mínútna leik 7-4 Aftureldingu í vil.

Þá virtust Valsmenn taka sig á í andlitinu og settu varnarleikinn hjá sér upp um nokkra gíra. Skilaði það sér í markvörslu og hraðaupphlaupum á færibandi en Vignir Stefánsson, hornamaður Vals, skoraði þrjú slík á þessum kafla. Valsmenn komnir í forystu, staðan 9-12. Þá tók Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, leikhlé. Við það batnaði sóknarleikur heimamanna lítillega og náðu þeir að minnka muninn í eitt mark þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 13-14. Valsmenn fóru inn í hálfleikinn með tveggja marka forystu, 14-16. Það forskot hefði getað verið þrjú mörk þar sem þeir fengu síðustu sóknina fyrir hálfleiksflautið.

Vísir/Diego

Valur hóf síðari hálfleikinn mun betur en þann fyrri og komu sér í fimm marka forystu eftir um átta mínútna leik í síðari hálfleik, staðan 17-22.

Afturelding hóf þá áhlaup og með því jókst stemningin í stúkunni en fjölmennt var á leiknum í kvöld miðað við leik á föstudagskvöldi. Þorsteinn Leó Gunnarsson jafnaði leikinn fyrir Aftureldingu í stöðuna 26-26 þegar níu mínútur voru til leiksloka. Sóknarleikur Vals var hikstandi en liðið missti Róbert Aron Hostert meiddan af velli í síðari hálfleik og Þorgils Jón Svölu Baldursson fékk rautt spjald eftir þrjár tveggja mínútna brottvísanir skömmu seinna.

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum voru heimamenn komnir með tveggja marka forystu sem Arnór Snær Óskarsson, leikmaður Vals, minnkaði niður í eitt á skömmum tíma.

Þá kom upp lykilaugnablik í leiknum. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, ætlaði að taka leikhlé en í þann mund sem hann gerir það stelur Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, boltanum af Þorsteini Leó Gunnarssyni. Valsmönnum er dæmdur boltinn og fá víti sem þeir skora úr og jafna, 30-30. Heimamönnum tókst ekki að nýta lokasóknina og því skildu liðin jöfn.

Vísir/Diego

Af hverju fór jafntefli?

Bitleysi Valsmanna sóknarlega þegar skörð höfðu verið hoggin í liðið í síðari hluta seinni hálfleiks og gott áhlaup heimamanna á sama tíma var það sem olli því að liðin skildu að lokum á jafnan hlut.

Hverjir stóðu upp úr?

Þorsteinn Leó Gunnarsson, leikmaður Aftureldingar, var maður leiksins. Hann endaði með 11 mörk úr 16 skotum og tók mikið af skarið fyrir sína menn þegar mest var undir. Hann skoraði til að mynda síðustu þrjú mörk sinna manna í leiknum.

Hjá Val var Björgvin Páll Gústavsson, markmaður liðsins, sennilega þeirra besti maður í frekar flötu liði Vals. Björgvin með 13 varin sem skilaði 30 prósent markvörslu.

Hvað gekk illa?

Slakur sóknarleikur Vals í síðari hluta leiksins var það sem hleypti heimamönnum inn í leikinn og skar að miklu leyti úr um hver úrslit leiksins urðu að lokum.

Hvað gerist næst?

Var leikurinn í kvöld síðasti leikur beggja liða í Olís-deildinni á árinu. Afturelding á þó einn leik eftir árið 2022. Sá leikur er í Bikarkeppni HSÍ gegn HK 15. desember klukkan 19:30 í Kórnum.

Valur leikur næstkomandi þriðjudag á heimavelli í Evrópudeildinni gegn ríkjandi Svíþjóðarmeisturum Ystad. Sá leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport með umfjöllun bæði fyrir og eftir leik.

Snorri Steinn: Við gáfum bara í síðustu þrjár og náðum í þetta stig

Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn í leik kvöldsins.Vísir/Diego

„Kannski smá hægir í gang en vorum með undirtökin lungað af leiknum. Ég er fáránlega ánægður og stoltur af mínum mönnum að komast í gegnum þetta og ná í þetta stig, úr því sem komið var,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir leik sinna manna í kvöld.

Valsmenntöpuðu niður fimm marka forystu í síðari hálfleik og nefndi Snorri Steinn nokkrar ástæður fyrir því.

„Númer eitt, við vorum ekki nægilega klókir og kannski sóknarleikurinn aðeins of bitlaus svo riðlast þetta líka aðeins. Við missum Robba [Róbert Aron Hostert] og Oggi [Þorgils Jón Svölu Baldursson] fær þrisvar tvær. Þá þurfum við aðeins að fara að prófa hluti sem við kannski erum ekki búnir að spila á eða æfa. Svo er Afturelding bara gott lið, tökum það ekki af þeim,“ segir Snorri Steinn.

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, benti á í viðtali eftir leik að Valsmenn væru að gefa eftir síðasta korterið í leikjum upp á síðkastið. Snorri Steinn gaf lítið fyrir það.

„Við gáfum bara í síðustu þrjár og náðum í þetta stig. Gunni [Gunnar Magnússon] hefur sína skoðun á því og það er gott mál,“ sagði Snorri.

Snorri fékk rautt spjald eftir að leiknum hafði verið lokið. Aðspurður fyrir hvað sagði Snorri Steinn þetta.

„Ég sagði bara eitthvað smá, það var nú ekki gróft. Svo sem viðbúið, átti ekki von á öðru. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig frekar um það. Það virðist vera stór hættulegt að segja eitthvað.“

Róbert Aron Hostert fór meiddur af velli í kvöld sem er ekki góðs viti fyrir Val sem eiga tvo mikilvæga leiki eftir á árinu.

„Það er aldrei gott þegar menn haltra út af, það er alveg á hreinu. Hann hefur verið að glíma við þetta. Ég er góður í sjúkraþjálfun en ég er ekki sérfræðingur, þannig að ég ætla ekki að leggja mat á þetta eins og er. Það verður bara að koma í ljós,“ sagði Snorri.

Valur á fyrir höndum risa verkefni á þriðjudaginn í Evrópudeildinni þegar sænsku meistararnir í Ystad koma til landsins.

„Þetta er svekkjandi, við erum að fara í tvo mikilvæga leiki og við verðum bara að sjá hvað verður á þriðjudaginn. Ég finn einhvern veginn út úr því, möndla eitthvað lið saman og þetta snýst um það að gera sig gildandi og vinna leikinn á þriðjudaginn,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira