Fótbolti

Frá Reykja­vík til Rabat: Hvernig Víkinga­klappið endaði á HM í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marokkó fagnar sæti í undanúrslitum.
Marokkó fagnar sæti í undanúrslitum. Alex Grimm/Getty Images

Þó Ísland hafi ekki verið meðal þeirra þjóða sem komust á heimsmeistaramótið í fótbolta sem fram fer í Katar þá komst einkennismerki Tólfunnar, stuðningsmannasveitar Íslands, þangað. Stuðningsfólk Marokkó, sem komið er alla leið í undanúrslit, hefur nefnilega verið duglegt að taka Víkingaklappið í Katar.

Áhorfendur Marokkó hafa heldur betur sett lit sinn á mótið og virðist vera ein fárra þjóða sem hefur náð – að mestu – að fylla leikvangana í Katar á leikdegi. Frakkland bíður í undaúrslitum á miðvikudag og eðlilega er gríðarlegur áhugi á leiknum heima fyrir. Svo mikill að fólk flýgur nú í óðaönn til Katar til að sjá hetjurnar sínar.

Ástæðan fyrir góðu gengi innan vallar má að vissu leyti rekja til stuðningsins úr stúkunni. Þaðan hafa borist hljóð sem flest allt stuðningsfólk Íslands hefur heyrt oftar en það hefur tölu á undanfarin ár. Fyrst kemur algjör þögn, svo er barið á trommu og svo klappa mörg þúsund manns saman höndum. Aðeins einu sinni þó. Svo aftur, og aftur og aftur. Víkingaklappið.

Heyra mátti hið fræga Víkingaklapp er Marokkó hélt út gegn Portúgal í 8-liða úrslitum og tryggði sér sæti í undanúrslitum.

Á vef Al Jazeera er farið yfir sögu Víkingaklappsins og hvernig það fór frá Reykjavík til Rabat, höfuðborgar Marokkó. Þar kemur fram að það hafi fyrst heyrst um alla Evrópu sumarið 2016 þegar íslenska landsliðið fór alla leið í 8-liða úrslit á EM.

„Stór hluti áhorfenda varð eftir til að taka Víkingaklappið með leikmönnum að leik loknum,“ segir í grein Al Jazeera.

Þar kemur einnig fram að erfitt sé að finna uppruna „Víkingaklappsins“ en það hafi áður sést, og heyrst, hjá stuðningsfólki franska liðsins Lens og skoska liðsins Motherwell áður en Ísland mætti vopnað Víkingaklappinu á EM.

Síðan þá hefur klappið lifað góðu lífi og ávallt kallað „Víkingaklappið.“ Nú má til að mynda heyra það á leikjum Kerala Blasters í Indlandi og Persopolis FC í Íran.

Líkja má árangri Marokkó á HM nú og árangri Íslands á EM í Frakklandi. Ísland féll úr leik eftir tap gegn Frakklandi, þjóðinni sem Marokkó mætir í undanúrslitum. Nú er bara að bíða og sjá hvort Víkingaklappið geti hjálpað Marokkó að koma á óvart í enn eitt skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×