Handbolti

Handkastið: Næsti áfangastaður Rúnars gæti komið mjög á óvart

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Gróttu gætu séð þrumuskot Rúnars Kárasonar á næsta tímabili.
Stuðningsmenn Gróttu gætu séð þrumuskot Rúnars Kárasonar á næsta tímabili. vísir/vilhelm

Stórskyttan Rúnar Kárason flytur frá Vestmannaeyjum á fasta landið eftir þetta tímabil. Þetta herma heimildir Arnars Daða Arnarssonar.

Í Handkastinu í gær greindi Arnar Daði frá því að Rúnar myndi að öllum líkindum yfirgefa ÍBV eftir tímabilið og næsti áfangastaður hans gæti verið Seltjarnarnesið.

„Samkvæmt heimildum Handkastsins er Rúnar Kárason á leið í höfuðborgina og nokkur lið eru farin að bera víurnar í hann, þar á meðal Grótta. Þeir hafa heyrt í honum. Margir gætu rekið upp stór augu en þeir Robbi Gunn [Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu] eru fáránlega góðir vinir,“ sagði Arnar Daði.

„Valsararnir, einhverjir hafa hvíslað að mér að Snorri Steinn [Guðjónsson] vilji fá Rúnar líklega því hann býst við því að Arnór Snær [Óskarsson] fari eftir tímabilið. Ég veit að Grótta og eitt annað lið hafa haft samband. Valur hefur ekki enn gert það. En er það ekki Stjarnan?“ bætti Arnar Daði við.

Til að fylla skarð Rúnars giskaði Arnar Daði á að ÍBV myndi reyna að fá Agnar Smára Jónsson aftur til liðsins. Hann var í lykilhlutverki þegar ÍBV varð Íslandsmeistari 2014, bikarmeistari 2015 og vann þrefalt 2018.

„Ég ætla að segja ykkur það, Eyjamenn munu hringja í Agnar Smára. Þeir vilja fá hann til Eyja,“ sagði Arnar Daði.

Rúnar kom til ÍBV fyrir síðasta tímabil eftir tólf ár í atvinnumennsku í Þýskalandi og Danmörku. Þá lék Rúnar lengi með íslenska landsliðinu. 

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×