Fylgdarakstur hefur verið reyndur á Reykjanesbraut í morgun en hann hefur gengið brösulega.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að veðurútlit sé ekki hagstætt og því sé ekkert ferðaveður í dag.

Tekið er fram að best sé að fylgjast með færðinni á umferdin.is. Tekið er fram að aðstæður breytist hratt og þá frekar í átt meiri lokana ef tekið sé mið af veðurspá.
„Það var í nótt sem byrjað var að loka vegunum enda aðstæður þannig. Fylgdarakstur hefur verið í gangi á Reykjanesbrautinni síðan snemma í morgun en á tíma þurfti að hætta við þar sem veðurhæð jókst og aðstæður versnuðu, en upp úr kl. 9:00 hófst hann aftur. 50 bílar eru teknir í einu í fylgdarakstur og ekki hægt að taka fleiri í einu öryggis vegna.

Á Snæfellsnesi norðanverðu eru vegir ófærir, sem og fyrir Jökul og Fróðaárheiðin er lika lokuð. Sömu sögu er að segja af Vestfjörðum þar sem Steingrímsfjarðarheiði er lokuð, Klettsháls, Þröskuldar, Dynjandisheiði, Miklidalur og Hálfdán einnig.

Þá er lokað frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni.
Annarsstaðar er hált.
Búast má við því að þessar lokanir standi nokkuð lengi og einnig má búast við frekari lokunum,“ segir í tilkynningunni.