Fótbolti

Di Maria náði meti sem Messi nær aldrei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Di Maria fagnar marki sínu í úrslitaleiknum.
Angel Di Maria fagnar marki sínu í úrslitaleiknum. AP/Natacha Pisarenko

Angel Di Maria afrekaði það í gær sem enginn annar leikmaður hefur náð í sögu fótboltans.

Lionel Messi bætir met í hverjum leik en hann er ekki sá eini í liði argentínsku heimsmeistaranna sem voru í metaham í úrslitaleiknum í gær.

Liðsfélagi Messi, Angel Di Maria, náði nefnilega að tryggja sér einstaka markaþrennu.

Angel Di Maria skoraði annað mark Argentínu í leiknum og yfirgaf völlinn í stöðunni 2-0. Hann þurfti síðan að horfa á æsispennandi endakafla úrslitaleiksins af bekknum sem var allt annað en auðvelt.

Markið hans þýddi hins vegar nýtt met. Di Maria er sá fyrsti og eini sem nær að skora í úrslitaleik Ólympíuleikanna, úrslitaleik álfukeppni (Suður-Ameríkukeppnin) og úrslitaleik heimsmeistaramótsins.

Di Maria skoraði eina markið þegar Argentína vann 1-0 sigur á Nígeríu í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 og hann skoraði einnig eina markið þegar Argentína vann 1-0 sigur á Brasilíu í úrslitaleik Suður-Ameríkubikarsins 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×