Fótbolti

Heimsmeistararnir verða ekki efstir á styrkleikalista FIFA

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Argentínumenn hafa líklega litlar áhyggjur af því hvað styrkleikalisti FIFA segir.
Argentínumenn hafa líklega litlar áhyggjur af því hvað styrkleikalisti FIFA segir. Richard Sellers/Getty Images

Argentínumenn, nýkrýndir heimsmeistarar í knattspyrnu, verða ekki efstir á nýjum styrkleikalista FIFA sem kemur út síðar í vikunni.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, mun birta nýjan styrkleikalista næstkomandi fimmtudag. Þrátt fyrir að vera nýbúnir að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu munu Argentínumenn þó aðeins sitja í öðru sæti listans, á eftir Brasilíumönnum sem munu tróna á toppnum.

Dale Johnson hjá ESPN er einn þeirra sem hefur reiknað út komandi lista, en hann bendir á að þar sem Argentína þurfti vítaspyrnukeppni til að sigra Frakkland í úrslitaleik HM fái liðið ekki nægilega mörg stig til að velta Brasilíumönnum úr sessi í efsta sæti listans.

Argentínska liðið sat í þriðja sæti listans fyrir heimsmeistaramótið sem kom út þann 6. október síðastliðinn. Liðið fer því upp fyrir Belga sem falla niður í fjórða sæti, en Frakkar lyfta sér einnig upp fyrir Belgíu á listanum.

Englendngar munu svo sitja í fimmta sæti listans, Hollendingar í því sjötta og bronslið Króata í sjöunda áður en Ítalir, Portúgalar og Spánverjar fylla upp í efstu tíu sæti listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×