Vegurinn niður að Reynisfjöru hefur verið ófær vegna fannfergis í dag og hefur því ekki verið hægt að keyra niður að fjörunni. Ferðamenn létu snjóinn ekki stoppa sig, lögðu bílunum við þjóðveginn og ætluðu að labba niður eftir, rétt fyrir myrkur. Leiðin er um fimm kílómetra löng; tíu kílómetrar fram og til baka.
Íris Guðnadóttir landeigandi segir í samtali við Vísi að hún hafi ekki séð jafn mikinn snjó í fleiri áratugi.
„Ég lít út um gluggann og sé 25 manna strollu sem er að ganga niður í Reynisfjöru. Og það er náttúrulega klofdjúpur snjór sums staðar og það er ekkert búið að ryðja veginn.“
Hún segist hafa haft samband við lögregluna sem þá var mætt á staðinn við afleggjarann til að passa að fleira fólk færi ekki fótgangandi niður að fjörunni.
„Ég hugsa að ég rúlli bara og athugi með fólk því það er svolítið löng leið að labba til baka í myrkrinu, ef maður er orðinn kaldur, búinn að labba fimm kílómetra í miklum snjó og labba svo fimm kílómetra til baka,“ segir Íris.
Á staðinn er nú mættur veghefill til að ryðja veginn en vegurinn var algjörlega ófær. Hún segir að stórar dráttarvélar hafi ekki einu sinni dugað til.
„Þetta blessaðist allt saman sem betur fer. Ef veghefillinn hefði ekki komið þá hefði bara þurft að senda snjóbíl eða eitthvað slíkt til að sækja þetta fólk.“