Enski boltinn

Man United vildi Gak­po síðasta sumar en hefur ekki efni á honum nú

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cody Gakpo var frábær á HM og er nú á leiðinni í ensku úrvalsdeildina. Þó ekki til Manchester United.
Cody Gakpo var frábær á HM og er nú á leiðinni í ensku úrvalsdeildina. Þó ekki til Manchester United. Mike Hewitt/Getty Images

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, vildi festa kaup á Coady Gakpo, nýjasta leikmanni Liverpool, síðasta sumar en félagið náði ekki að ganga frá kaupunum þar sem brasilíski vængmaðurinn Antony kostaði meira en áætlað var.

Ten Hag tók við Man United í sumar á þessu ári og hóf strax að styrkja leikmannahópinn. The Athletic greinir frá því að Man Utd hafi viljað kaupa Gakpo þá en Ten Hag var handviss um að leikmaðurinn gæti spilað sem fremsti maður.

Á endanum gengu kaupin ekki í gegn þar sem Ajax neitaði að lækka verðmiðann á Antony og því var Gakpo áfram hjá PSV. Hann spilaði svo frábærlega með Hollandi á HM og nú hafa erkifjendur Man Utd í Liverpool keypt kappann.

Man United virtist ætla að reyna aftur við Gakpo nú í desember en ákvað á endanum að það væri ekki þess virði þar sem það myndi þýða að Ten Hag hefði minna milli handanna næsta sumar.

Ten Hag segir Man United vera á höttunum á eftir framherja sem passar bæði í leikstíl liðsins sem og fjárhagsáætlun þess. The Athletic nefnir Memphis Depay, leikmann Barcelona, og Eric Maxim Choupo-Moting, leikmann Bayern München, sem ódýra valkosti en Börsungar vilja losna við Memphis á meðan samningur Choupo-Moting rennur út í sumar.

Líklegast er þó að Man United reyni að sækja framherja á láni. Það yrði ekki í fyrsta sinn sem liðið gerir það á undanförnum árum. Radamel Falcao kom tímabilið 2014-15 og Odion Ighalo tímabilið 2020-21.

Manchester United er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig að loknum 15 leikjum. Liðið hefur farið vel af stað eftir HM pásuna og unnið 2-0 sigur á Burnley, toppliði B-deildarinnar, í deildarbikarnum og 3-0 sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×