Tilkynnt var um verkefnið við athöfn í Hammerfest rétt fyrir jól að viðstöddum Terje Aasland, olíu- og orkumálaráðherra Noregs. Í fréttatilkynningu Equinor segir að uppbyggingin muni hafa mikil keðjuverkandi áhrif í atvinnumálum Norður-Noregs og skapa 1.680 ný störf á svæðinu meðan á framkvæmdum stendur.

Endurnýjun stöðvarinnar felur meðal annars í sér að hún verður rafvædd og skipt út núverandi gastúrbínum fyrir rafmagn úr landi. Equinor segir að þannig verði dregið úr árlegri losun CO2 um 850.000 tonn.
„Þetta er ein stærsta einstaka aðgerð til að draga úr kolefnislosun olíu- og gasframleiðslu í Noregi. Verkefnið er lykilframlag til orkuskiptanna,“ er haft eftir Grete B. Haaland, aðstoðarforstjóra hjá Equinor.
Þetta muni draga úr losun sem jafngildir 13 prósentum af heildar 55 prósenta samdrætti norska olíu- og gasiðnaðarins fyrir árið 2030. Þetta samsvari tveimur prósentum af árlegri losun Noregs.

Uppbygging gasvinnslustöðvarinnar, sem hófst árið 2002, var langstærsta fjárfesting í sögu Norður-Noregs og reyndist mikilvæg til að treysta byggðina. Á sama tíma kallaði hún fram hörð mótmæli umhverfisverndarsinna. Um 500 manns starfa við stöðina og er hún hornsteinn atvinnulífs á svæðinu. Íbúar Hammerfest eru núna liðlega 11.000 talsins en þetta er nyrsti bær Noregs með yfir tíu þúsund íbúa.
Snøhvit, eða Mjallhvítarsvæðið, var það fyrsta sem tekið var til vinnslu í Barentshafi, en framleiðslan hófst árið 2007. Auk gass er þar einnig að finna olíu en í minna mæli. Síðan hafa tvö önnur gassvæði verið tengd Melkøya-stöðinni, Albatross og Askeladd.

Stöðin á Melkøya framleiðir að jafnaði um 18,4 milljónir rúmmetra af fljótandi jarðgasi, LNG, á degi hverjum eða 65 milljarða rúmmetra á ári. Það jafngildir orkuþörf um 6,5 milljóna evrópskra heimila eða 5% af öllum norskum gasútflutningi. Sérstök gasflutningaskip flytja gasið á markað. Áður fór megnið til annarra heimsálfa en eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur nær öll framleiðslan farið til Evrópuríkja.

Árið 2011 fundust gríðarmiklar olíulindir um eitthundrað kílómetra norðan við Mjallhvítarsvæðið, á svæði sem kallast Johan Castberg, og er núna stefnt að því að olíuvinnsla þar hefjist árið 2024.
Fjallað var um áhrif þess olíufundar á Norður Noreg í frétt Stöðvar 2 árið 2011. Þá var einnig rætt við oddvitann í Hammerfest um áhrif gasvinnslustöðvarinnar á bæjarfélagið: