Viðskipti erlent

Smá­ríki græða á tá og fingri á þjóðarlénum í lénaleikjum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Angvilla, breskt yfirráðasvæði í Karíbahafi, fékk úthlutað þjóðarlénið .ai.
Angvilla, breskt yfirráðasvæði í Karíbahafi, fékk úthlutað þjóðarlénið .ai. Vísir/Getty

Smáríki græða á tá og fingri á þjóðarlénum sínum vegna svokallaðra lénaleikja. Dæmi eru um að einstaklingar greiði tæpar hundrað milljónir króna fyrir ákveðin lén.

Þjóðarlén er tveggja stafa kóði sem ríki, sjálfstjórnarsvæði og önnur smáríki, fá úthlutað fyrir vefsíður á sínum hluta internetsins. Íslenski kóðinn er .is og hefur verið síðan 1987. Elstu síðurnar eru hi.is, hafro.is og os.is.

Í tengslum við þjóðarlén hefur fyrirbæri orðið til sem kallast domain hacks, eða lénaleikur.

„Það er þegar fólk kaupir lén sem býr til orð með þjóðarléninu. Eins og ef ég myndi kaupa vefsíðuna bjar í Kiribati. Lénið yrði þá Bjar.ki. Bjarki. Þessir lénaleikir hafa skilað miklum tekjum í þjóðarbú nokkurra ríkja, þar á meðal Túvalú og Angvíla,“ segir Bjarki.

Túvalú, eyjaklasi í Kyrrahafi með rúmlega tíu þúsund íbúa, á .tv og hafa fyrirtæki í sjónvarpsgeiranum greitt háar upphæðir fyrir notkun á þjóðarléninu, til að mynda Twitch.TV, Plex.TV og Eurovision.TV. Stór hluti tekna ríkissjóðs er tilkominn vegna lénsins.

Angvilla, breskt yfirráðasvæði í Karíbahafi, fékk úthlutað þjóðarlénið .ai. Gervigreindarfyrirtæki keppast nú við að kaupa lén þar enda er AI enska skammstöfunin fyrir gervigreind. Artificial intelligance, AI. Stjórnvöld hafa grætt hundruð milljóna á þessu, til að mynda greiddi bandarískur tæknifrömuður um 90 milljónir króna fyrir lénið you.ai. Tekjur af notkun á léninu nálgast toppsætið yfir stærstu greinar landsframleiðslu ríkisins.

Íslenska þjóðarlénið hefur vakið athygli áður, þá sérstaklega vegna áhuga hryðjuverkasamtakanna ISIS á því. Árið 2014 var lokað fyrir fréttasíðu samtakanna sem var skráð með íslenska þjóðarléninu, en á ensku eru samtökin kölluð Islamic State, sem er skammstafað IS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×