Viðskipti innlent

„Þetta eru auð­vitað von­brigði“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Jónína Brynjólfsdóttir er formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar.
Jónína Brynjólfsdóttir er formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar. Samsett

Formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar segir lokun Bræðslunar, fiskmjölverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, vonbrigði. Hún bindur miklar vonir við vinnu ráðgjafa sem ætlað er að finna nýja starfsemi í húsnæði fyrirtækisins.

„Fyrstu viðbrögð eru auðvitað sú að þetta eru auðvitað vonbrigði,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar, í samtali við fréttastofu.

Greint var frá því að Síldarvinnslan hf. hefur ákveðið að loka fiskmjölverksmiðju fyrirtækisins á Seyðisfirði þar sem að rekstrarumhverfi slíkra verksmiðja hafi versnað hratt undanfarin misseri. Tólf misstu vinnuna ásamt ónefndum fjölda verktaka.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að Síldarvinnslan sammæltist forsvarsmönnum Múlaþings um ráðningu ráðgjafa sem myndi fara yfir viðskiptahugmyndir um framtíðarstarfsemi í húsum félagsins. Fyrirtækið mun greiða ráðgjafanum fyrir störf sín.

Að sögn Jónínu verður verkefni ráðgjafans að finna út hvaða atvinnustarfsemi geti farið vel í þessum húsum. Meðal þess sem hefur áður komið upp er hótelrekstur eða sameiginlegt vinnurými en Jónína telur nauðsynlegt að atvinnustarfsemin sé í gangi allt árið um kring.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði en við fögnum þessu starfi sem Síldarvinnslan ætlar að leggja fram og bindum miklar vonir við það. Þar eru alveg hellings tækifæri og það þarf að finna leiðir til að festa betur í sessi í heilsársstörf. Það er mjög gott að fá starfsmann til að veita því athygli og greina.“

Hún telur lokunina hafa áhrif á samfélagið, þar sé fjöldi starfa sem hverfa. Til að mynda starfi þónokkrir við löndun sem verktakar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×