Páll fjallar um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir að málið hafi kallað á skýra og afdráttarlausa afsökunarbeiðni frá ÍBV. Bæði opinberlega og til Eddu Falak persónulega.
„En að kalla þetta ''hatursorðræðu'', ''rasisma'' eða ''ofbeldishótun'' er einfaldlega yfirgengilegur hugtakaruglingur - og óðaverðbólga í orðanotkun. Hvaða hugtök ætla menn að nota um þessi fyrirbrigði þegar þau skjóta raunverulega upp kollinum ef búið er að gengisfella þau svona rækilega? Þegar þessi hugtök eru notuð svona gáleysislega er beinlínis verið að gera lítið úr þolendum raunverulegrar hatursorðræðu, ofbeldis og rasisma.“
Normalísering á hatursorðræðu
Sema Erla Serdar baráttukona skrifar athugasemd við færslu Páls og segir ekki vel séð að fólk í „yfirburða- og valdastöðu“ skilgreini hugtökin fyrir þolendur. Hún segir Páli að gera betur og hætta að taka þátt í „normalíseringu á hatursorðræðu.“ Skilgreiningarvald á hugtökunum ætti ekki að vera í höndum Páls.
„Að því sögðu hvet ég þig og stuðningsfólk þitt hér til þess að kynna sér skilgreiningar og birtingarmyndir hatursorðræðu. Þið munuð þá mögulega sjá að það að uppnefna konu af erlendum uppruna (út frá erlendu ættarnafni hennar), setja nafn hennar á svarta brúðu og láta hana ganga innan um brennandi kyndla er auðvitað ekkert annað en kvenfyrirlitning og hatursorðræða,“ segir Sema Erla.
Páll svarar um hæl og segir að ákveðinn vandi felist í tali um „skilgreiningarvald.“ Aðdróttanir Semu Erlu um kvenfyrirlitningu og kvenhatur fái ekki staðist.
„Það er nefnilega ekki hægt að taka hugtök sem eiga við um einhver þokkalega skilgreind fyrirbrigði og heimfæra undir þau hvaða fyrirbrigði önnur sem er. Þá verður úr því hugtakaruglingurinn sem færslan mín er um; algjörlega laus við ''kvenfyrirlitningu og hatur''. En þú tókst þér sem sagt ''skilgreiningarvaldið'' yfir færslunni minni.“