Segjast allir lítið peð í risastóru kókaínskákinni Margrét Björk Jónsdóttir skrifar 3. mars 2023 07:00 Mennirnir fjórir sem ákærðir eru í málinu játa allir aðild en segja sína þætti veigalitla. Sakborningar og verjendur þeirra hafa gagnrýnt rannsókn lögreglu og þá staðreynd að ekki séu fleiri ákærðir í málinu. Vísir/Sara Mennirnir fjórir sem ákærðir eru fyrir aðild að stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar játa allir þátttöku sína í málinu en segja sína þætti veigalitla. Allir höfðu þeir afmörkuð hlutverk og rannsakendur segja alþekkt að sú aðferð sé notuð við innflutning fíkniefna. Mörgum spurningum er ósvarað. Ein sú stærsta er hver einstaklingurinn sé sem kallar sig ýmist „Nonni“ eða „Harry“? Ljóst er að fleiri aðilar eiga þátt í málinu sem ekki hafa fundist, hugsanlega mögulegur höfuðpaur. Mennirnir sem ákærðir eru eiga yfir höfði sér þunga dóma. Þeirra á meðal er tæplega sjötugur timbursali sem hefur kvartað sáran yfir gæsluvarðhaldi sem hann hefur þurft að sæta síðustu átta mánuði. Verjendur í málinu hafa gagnrýnt mjög tímasetningu á handtöku í málinu þar sem komið hafi verið í veg fyrir að mögulegur höfuðpaur eða hærra settur einstaklingur í keðjunni næðist. Ónefndur einstaklingur sem átti að taka við miklu magni kókaíns. Sakborningur í málinu var handtekinn á KFC í Mosfellsbæ áður en ónefndi aðilinn lét sjá sig. Langstærsta kókaínmál Íslandssögunnar Timbursalinn Páll Jónsson er kominn vel á sjötugsaldur. Hinir þrír sem sæta ákæru, Jóhannes Páll Durr, Daði Björnsson og Birgir Halldórsson eru allir í kringum þrítugt. Jóhannes og Birgir eru góðir vinir sem hafa þekkst í fjölda ára. Vinirnir könnuðust við Pál þar sem hann er faðir kunningja þeirra sem lést árið 2019. Daði virðist engin tengsl hafa haft við hina þrjá áður en fjórmenningarnir voru allir handteknir í ágúst í fyrra. Aðkoma fjórmenninganna að málinu, sem er stærsta kókaínmál sem upp hefur komið hér á landi, er afar ólík. Þeir tengjast með einum eða öðrum hætti fyrirhuguðum innflutningi á hundrað kílóum af kókaíni til landsins frá Brasilíu, með viðkomu í Hollandi. Efnin voru falin í trjádrumbum sem fluttir voru inn í gámi af fyrirtæki Páls, Hús og Harðviður. Kókaínið barst hins vegar aldrei til Íslands þar sem lögreglan komst á snoðir um áformin og lét hollensku lögregluna vita. Tollverðir í Rotterdam fundu efnin og skiptu þeim út fyrir gerviefni. Óhætt er að segja að margt áhugavert hafi komið fram þegar fjórmenningarnir og önnur vitni komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Hér verður snert á því helsta. Bann við fréttaflutningi Dómari í málinu fyrirskipaði við upphaf aðalmeðferðar þann 19. janúar síðastliðinn, fyrir sex vikum, bann við fréttaflutningi þar til öllum skýrslutökum um málið væri lokið. Erfiðlega hefur gengið að fá síðustu vitnin, hollenska tollverði, fyrir dóminn en eftir endurteknar frestanir stendur til að gera enn eina tilraun í næstu viku. Ritstjórn Vísis telur dómara í málinu túlka þröngt nýlega meginreglu sem segir að fjölmiðlar megi ekki greina frá því sem fram komi í skýrslutöku fyrr en að henni lokinni. Það sé oftúlkun á lögunum að ekki megi fjalla um neitt fyrr en að öllum skýrslutökum í málinu í heild sé lokið. Engin ástæða sé til að halda frá almenningi upplýsingum úr opnu þinghaldi þegar einstaka hollenskir tollverðir eigi eftir að bera vitni. Fjallað var um frumvarp dómsmálaráðherra er varð að lögum, breytingum í meðferð málsins og annað sem snýr að fréttabanni af skýrslutökum á Vísi á dögunum. Að neðan má sjá tímalínuna í málinu lesendum til glöggvunar. Timbursalinn segist hafa talið að um sex kíló væri að ræða Fyrstur til að gefa skýrslu fyrir dómi var timbursalinn Páll Jónsson. Skýrslutakan yfir Páli tók lengstan tíma og tók greinilega á hann. Hann hefur, líkt og hinir ákærðu, setið í gæsluvarðhaldi frá því þeir voru handteknir í ágúst síðastliðnum. Að sögn Páls er forsaga málsins sú að hann kynntist Birgi árið 2019. Hann sagði Birgi hafa samband við sig og bað hann um að panta fyrir sig hús, eða timbur til að byggja hús. Birgir hafi ætlað að byggja gistiheimili og annaðhvort eiga það eða leigja. Páll Jónsson sér fram á langan fangelsisdóm líkt og aðrir sakborningar, verði þeir sakfelldir í umfangsmesta fíkniefnamáli Íslandssögunnar. Vísir Þá liggur fyrir að Páll og Birgir hittust nokkrum sinnum á þessum tíma, árið 2019, á pítsastaðnum Devitos við Hlemm. Sléttir peningaseðlar og öll samskiptu í gegnum Jóhannes Páll pantaði húsið frá framleiðanda sínum, Brasmeric í Brasilíu. Hann lýsti því að Birgir hafi í kjölfarið tilkynnt sér að öll samskipti í framhaldinu þyrftu að fara í gegnum mann að nafni Jóhannes. Bæði varðandi efniskaupin á timbrinu og innflutning á gámnum. Páll sagði Birgi hafa útskýrt að Jóhannes væri vinur hans og sagðist Páll ekki hafa gert neinar athugasemdir við að samskiptin færu í gegnum hann. Ef Pál vantaði peninga, til að panta byggingaefni, borga flutningskostnað eða geymslugjöld, hafi hann látið Jóhannes vita sem kom seðlum til hans. Páll sagði þetta fyrirkomulag ekki hafa hringt neinum viðvörunarbjöllum. Húsið, sem var einingahús, kom í gámi til landsins í febrúar 2022. Það var aldrei sótt og geymslugjöld hlóðust upp. Þegar Páll var spurður hvort honum hafi ekki fundist það neitt skrítið sagðist hann hafa treyst mönnunum fram að þessu. Hann útskýrði að Jóhannes hafi áfram látið hann hafa peninga til að greiða geymslugjöld og öll þau gjöld sem tengdust gámnum. „Seðlarnir voru svo sléttir að það var skondið, eins og þeir væru að koma beint úr Seðlabankanum. Ég hugsaði ekki út í að þetta væru illa fengnir peningar,“ sagði Páll við aðalmeðferðina. Lögregla fylgdist með Á þessum tímapunkti var lögreglan þegar farin að hafa eftirlit með mönnunum, án þess að þeir hefðu minnstu hugmynd um það. Rannsakandi málsins sem bar vitni fyrir dómi upplýsti að hann hefði verið í vinnuhóp sem vann að Saltdreifaramálinu svokallaða. Í gögnum þess máls var að finna samræður milli tveggja aðila sem ræddu um að flytja kókaín til landsins í gegnum viðarplötur. Ekki var tekið fram um hvaða aðila væri að ræða. Lögregla hóf því að rannsaka málið samhliða Saltdreifaramálinu. Um miðjan maí bárust svo upplýsingar úr annarri átt um að til stæði að flytja kókaínið til landsins í viðardrumbum frá Suður-Ameriku. Í kjölfarið var farið að fylgjast með Páli Jónssyni, þar sem hann var sá eini sem flutti inn við frá Brasilíu. Þarna lá einnig fyrir að Birgir Halldórsson væri tengdur málinu. Símar mannana voru hleraðir og fylgst var með ferðum þeirra. Lögreglumaðurinn skýrði frá því að þegar fyrri gámurinn með einingahúsinu kom til landsins hefði verið leitað í honum en engin efni hafi fundist. Það vakti þó athygli rannsakenda að hvorki gámurinn né innihald hans var nokkurntímann sótt. Kominn í andlegt þrot og samþykkti að flytja inn efni Páll segir að Birgir hafi haft samband aftur skömmu eftir að fyrri gámurinn kom til landsins og hafi viljað fá hann til að flytja inn meira af harðvið fyrir sig. Hann hafi sagst vera með 500 fermetra af pallaefni sem hann vildi flytja inn til landsins auk sextíu staura. Þegar sá gámur kæmi til landsins sagði Birgir að báðir gámarnir yrðu sóttir. Páll segir að það hafi verið á þessum tímapunkti sem Birgir hafi sagt honum að hann hefði hug á að flytja inn fíkniefni og fela þau í sex af þessum sextíu staurum. Eitt kíló yrði falið í hverjum staur, samtals sex kíló. Páll segist hafa látið til leiðast og samþykkt að taka þátt í verkefninu. Aðspurður hvað hafi komið til að hann samþykkti að flytja inn fíkniefni, sagðist Páll hafa verið kominn í andlegt þrot á þessum tíma. Sonur hans hafði látist árið áður, tengdamamma hans líka auk þess sem náinn fjölskyldumeðlimur hafi verið alvarlega veikur. Hann sagðist hafa fundið fyrir uppgjöf og ekki verið fær um að veita mótspyrnu. Vildi hætta við á einum tímapunkti Þegar Páll var spurður hvað hann hafi átt að fá greitt fyrir þátttöku sína sagði hann að aldrei hafi verið talað um ákveðna greiðslu. Birgir hafi aðeins sagst ætla að „gera vel við hann.“ Á einum tímapunkti segist Páll hafa hugsað sig um og honum hafi snúist hugur. Hann segist hafa tilkynnt Jóhannesi það. „Þá kemur Birgir til mín og segir að það verði ekki aftur snúið, það yrði allt vitlaust. Ég þekki enga aðila í þessu máli, veit ekki um neina aðra menn. Ég hugsaði að það væri ekki aftur snúið og svo fór sem fór.“ Í framhaldinu segist Páll hafa haft samband við sína framleiðendur og tilkynnt þeim að sextíu staurar væru væntanlegir og þeim ætti að bæta við seinni gáminn, sem í var pallaefni. Hann sagðist hafa gefið Birgi og Jóhannesi leiðbeiningar um hvernig best væri að fela efnin í staurunum með því að saga tíu sentímetra bút úr timbrinu. „Síðar kom i ljós allt annað en mér var sagt. Ég hefði aldrei tekið þátt í svona brjálæði. Vissi aldrei annað en þetta magn, ég hafði ekki hugmynd um það.“ Samskipti í gegnum dulkóðað forrit Gámarnir tveir voru pantaðir frá Brasilíu í gegnum fyrirtæki Páls, Hús og Harðvið. Fyrirtækið var stofnað í október 2020. Hann sagði tilganginn með stofnun fyrirtækisins hafa verið til að geta áfram pantað inn timbur í gegnum kennitölu fyrirtækis en ekki hans eigin enda væri hann á leið á eftirlaun. Tollverðir í Rotterdam fundu efnin eftir ábendingu frá íslenskum yfirvöldum, og skiptu þeim út fyrir gerviefni. Saksóknari spurði Pál við aðalmeðferðina út í síma sem fannst á honum við handtöku. Páll útskýrði að þetta hefði verið sími sem Jóhannes lét hann fá og hafi séð alfarið um. Í hvert sinn sem þeir hittust hafi Jóhannes tekið símann og uppfært hann. Í eitt skipti hafi hann skipt um síma og látið hann hafa nýjan. Samskipti þeirra á milli fóru í gegnum samskiptaforritið Signal. Páll segist aldrei hafa spurt hvers vegna þeir gætu ekki haft samskipti símleiðis, sagðist „ekkert hafa pælt í því.“ Jóhannes þurfti alltaf að spyrja „strákana“ Páll margtók fram að hann hafi borið upp ýmsar spurningar í ferlinu en aldrei fengið nein svör. Samkvæmt honum virtist Jóhannes ekki hafa vitað mikið sjálfur, hann hafi alltaf þurft að spyrja „strákana.“ Þegar hann var spurður hvaða stráka hann ætti við svaraði Páll: „Hef ekki hugmynd, ég spurði aldrei. Það kom mér ekkert við. Minn þáttur var að kaupa þessar vörur frá mínum framleiðanda, taka við þessum staurum og koma gámnum til Íslands. Það er minn þáttur í þessu máli.“ Páll segist hafa orðið var við mikið „panik“ þegar gámurinn með efnunum var kominn til landsins. Hann hafi þurft að fara til að losa gáminn en staurarnir með efnunum voru neðst, undir öllu pallaefninu. „Það var ekki möguleiki á að gera þetta einn, ég þurfti hjálp. Svo vantaði mig bíl, en það var ekki möguleiki. Það mátti enginn koma nálægt nema ég. Ég var löngu búinn að fatta þetta þarna.“ Beið með efnin fyrir utan N1 Þegar þarna var komið við sögu segist Páll hafa „reddað sér“, leigt bílaleigubíl og fengið kunningja sína með sér til að losa gáminn. Þeir færðu pallaefnið úr gámnum yfir í annan gám sem hann tók á leigu en settu staurana í sendibíl. Páll sagði að Jóhannes hafi því næst sagt honum að fara með bílinn með staurunum að N1 í Hafnarfirði við Lækjargötu. Þangað hafi hann farið, fengið sér kaffi og beðið. En enginn mætti. Hann segist hafa orðið þreyttur á biðinni svo að „ ég gaf skít í þetta og fór aftur í bæinn, með staurana í bílnum,“ sagði Páll við aðalmeðferðina. Páll fór með efnin að N1 í Hafnarfirði þar sem Daði sótti þau. Daði hafði ekki verið í neinum samskiptum við hina mennina.Vísir/Vilhelm „Svo hefur Jóhannes samband við mig og sagði að hann væri tilbúinn, þessi aðili sem ætti að sækja bílinn, og ég skildi koma með hann aftur í Hafnarfjörð. Ég fór með bílinn þangað. Þar beið ég í tvo tíma þar til að þessi aðili kom. Ég sá aldrei þennan aðila, kom aldrei nálægt þessum staurum, vissi ekki um magn efnis, hafði ekki hugmynd.“ Fram kom við aðalmeðferðina að sá sem sótti efnin hafi verið Daði Björnsson, sem sömuleiðis er ákærður fyrir sinn þátt í málinu. Upplifði að verið væri að nota hann Páll ítrekaði að hans þáttur í ferlinu hafi eingöngu snúið að því að koma gámunum til landsins. Hann hafi ekki „haft hugmynd um neitt annað í ferlinu.“ Hann sagðist hafa upplifað að verið væri að nýta sér hann og hans þekkingu á timbri. Hann lýsti því einnig að hans upplifun væri ekki sú að Jóhannes stæði á bak við innflutninginn. Hann hafi aðeins verið boðberi til Páls og séð um að afhenda honum fé, en ekki tekið neinar ákvarðanir. Þegar Páll var spurður að því hvort hann hafi vitað hvaða efni þetta væru sem til stóð að flytja inn, sagðist hann hafa vitað að það væru eiturlyf, og hafi lagt saman tvo og tvo og áttað sig á að um kókaín væri að ræða, þar sem ekkert annað kæmi frá Suður Ameríku. „Bara seki kallinn í þessu öllu“ Eins og áður kom fram sagði Páll við aðalmeðferð málsins að aldrei hafi verið rætt um upphæð sem hann átti að fá fyrir verkefnið. Aðeins að það ætti að „gera vel við hann.“ Í skýrslutökum hjá lögreglu sagðist hann hins vegar hafa átt að fá þrjátíu milljónir í sinn hlut. Spurður út í þetta ósamræmi sagði hann lögreglumann hafa „matað sig á þessu.“ Daginn eftir handtökuna hafi hann fyrst fengið upplýsingar um magn efnisins og verið í „andlegu þroti“. „Þegar ég les skýrslur... ég ruglaði fram og til baka. Eða lögreglan ruglaði í mér fram og til baka. Ég var allt í einu orðinn eins og ég segi í skýrslutöku, „bara seki kallinn í þessu öllu“. Þessar ásakanir sem á mig eru bornar, ég viðurkenni hlutdeild mína, þessa tíu sentímetra í þessum sex staurum. Annað hef ég ekki hugmynd um.“ Að neðan má sjá brot úr skýrslutökunni yfir Páli við aðalmeðferðina. Saksóknari bar undir Pál nokkur samtöl sem liggja fyrir í gögnum málsins. Saksóknari: Þú segir í samtali: „Fékk hann spennufall, vinur þinn?“Páll: Bara í gríni sko. Saksóknari: En við hvern áttir þú?Páll: Eins og ég segi, ég hef bara haft samskipti við tvo menn. Saksóknari: En við hvern áttir þú?Páll: Ég var bara í samskiptum við Jóhannes og Birgi. Þetta hlýtur þá að vera Birgir sem ég spyr hvort hafi fengið spennufall. Saksóknari: Þú spyrð líka hvort það sé óróleiki á markaði?Páll: Já, ég spyr bara að því. Saksóknari: Á hvaða markaði?Páll: Nú, bara markaðnum almennt. Saksóknari: Hvaða markaði almennt?Páll: Til dæmis var ekki hægt að fá menn í vinnu. Saksóknari: Markaðnum almennt varðandi efni, fíkniefnamarkaði?Páll: Neineinei, bara vinnumarkaðnum. Það var verslunarmannahelgi, það er í þessu samhengi. Það kemur hér skýrt fram að ég er aldrei að tala um nein fíkniefni, aldrei. Saksóknari: Síðan talar þú um að þetta séu níutíu staurar en ekki níutíu og tveir?Páll: Rökin fyrir því, það koma sextíu staurar frá utanaðkomandi aðila, það voru eftir peningar á reikningum sem þeir höfðu látið mig fá, ég bætti við þrjátíu staurum, sem mér fannst bara, ég vildi bara losa þessa peninga. Annarsvegar til að fá meiri balans á gáminn, uppá vigt að gera, það eru rökin. Saksóknari: Greiddu þeir fyrir þessa þrjátíu staura?Páll: Ja, það voru þessir peningar sem ég fékk frá Jóhannesi, man ekki hvað staurarnir kostuðu, þetta var eingöngu greitt með peningum frá Jóhannesi. Saksóknari: Þú talar um Birgi, og það sem „hann gerði síðast með húsið, að hann hefði lent í bullandi vandræðum?“Páll: Það var alltaf verið að tala um að taka að taka húsið, það var alltaf verið að pressa á mig. Saksóknari: Og þú talar um hvernig eigi að skera í timbrið?Páll: Já, það kemur fram það sem ég sagði áður: eins og ég hef útskýrt, tíu sentimetrar, ummál staursins, að hann skyldi saga það frá. Hann sagðist ætla tala við strákana, að þeir væru með plön. Ég vildi fá staurana til baka, ég hafði not fyrir harðviðinn, ekki efnin. Saksóknari: Var búið að semja um það?Páll: Ha, neinei. Saksóknari: Af hverju ættir þú að fá þá, þú borgaðir ekkert fyrir þá?Páll: Hvað ætluðu þeir að gera við þá, harðviður er harðviður, ég vildi bara fá hann. Saksóknari: Varðstu fyrir einhverjum hótunum?Páll: Nei, þeir hótuðu mér aldrei. Hins vegar ítrekaði ég spurningar við Jóhannes en hann hafði aldrei svör, þurfti alltaf að tala við strákana. Ég var orðinn pirraður. Það kemur meira segja fram í skýrslunum, þeir segja að „gamli sé orðinn pirraður, hann spyr og spyr.“ Þannig var þetta, ég fékk aldrei svör. Saksóknari: Jóhannes er að tala um að „þeir geti tekið við húsinu, það þori enginn að gera neitt fyrr en sé búið að tæma staurana.“ Þú segist fá „grænar bólur af því að það sé ekki búið að skrifa niður hvern einasta punkt í ferlinu.“ Hann segir að „þeir séu harðir á því, vildu ekki plana það þannig.“ Hvaða „þá“ er hann að vísa í? Páll: Væntanlega þessa stráka. Ég veit ekkert um þetta. Eða jú, ég hafði samskipti við tvo menn, hafði ekki talað við neina aðra. Ég var búinn að spyrja en fékk aldrei svör. Fékk aldrei svör við neinu. Og í lokin fæ ég svör um hvert ég eigi að fara með staurana. Endapunktur. Hafnaði alfarið ákæru varðandi peningaþvætti Páll, líkt og aðrir sakborningar, er einnig ákærður fyrir peningaþvætti. Saksóknari rifjaði upp að honum væri gefið að sök að hafa geymt og umbreytt sextán milljónum króna. Páll sagðist „ekki hafa hugmynd um hvaðan þeir peningar kæmu. „Ég fékk umbeðið fé, ef ég sagði að mig vantaði tólf hundruð þúsund þá fékk ég það bara tveimur dögum síðar.“ Páll, líkt og aðrir ákærðu, hefur setið í gæsluvarðhaldi í tæpa átta mánuði. Það hefur reynst honum afar erfitt. Allar líkur eru á því að fangelsisvistinni muni ekki ljúka í bráð.Vísir/Vilhelm Páll hefur verið sjálfstætt starfandi undanfarin ár. Hann sagði allt hafa verið gefið upp og að innlagnir á reikning sinn hafi allt verið seðlar frá Jóhannesi. Hann sagði Jóhannes hafa byrjað að láta sig fá peninga í apríl 2021 eða um það leyti. Hann hafi þó líka átt reiðufé sjálfur. Hann vísaði að mestu í gögn lögmanns síns þegar rætt var um fjármál. Einangrunin erfiðust Páll lýsti því fyrir dómi að ferlið, handtaka og gæsluvarðhaldið í kjölfarið, hafi tekið gríðarlega á hann. Einangrun hafi reynst honum sérstaklega erfið. Hann sagði blóðsjúkdóm sem hann hafi greinst með fyrir nokkrum árum vera að taka sig upp aftur. Hann væri með háan blóðþrýsting og væri almennt illa á sig kominn. Í lokin spurði dómari Pál hvort hann vildi bæta einhverju við. Hann notaði tækifærið og kvartaði enn og aftur yfir gæsluvarðhaldinu undanfarna mánuði. Unnsteinn Örn Elvarsson, Arnar Kormákur Friðriksson og Almar Möller, verjendur sakborninga í málinu.Vísir „Ég er hýstur þar á grundvelli almannahagsmuna. Þessi fíkniefni eru ekki til. Ég veit ekki hverjum ætti að stafa ógn af mér. Kannski dómari geti útskýrt það, hvaða ógn stafi af mér?“ Dómari svaraði að það væri ekki umfjöllunarefnið og spurði hvort hann hefði einhverju við sakarefnið að bæta. Páll svaraði því neitandi. Þegar skýrslutöku Páls var lokið var tekið stutt hlé áður en Jóhannes Páll Durr settist í vitnastúkuna. Sagðist hafa verið „blankur og eftir á í reikningum“ Jóhannes Páll mótmælti vitnisburði Páls og sagði hann koma mjög á óvart. Sagðist Jóhannes ekki hafa haft nokkra aðkomu að málinu fyrr en árið 2021. Hann hafi á þeim tíma verið blankur og „eftir á í reikningum.“ Hann segist því hafa sett bílinn sinn á sölu og í kjölfarið hafi komið til hans aðili og beðið hann að taka þátt í „litlu verkefni.“ Fyrir þetta litla verkefni sagðist hann hafa átt að fá fimm milljónir, sem er svipað og hann hefði fengið fyrir sölu á bílnum. Saksóknari spurði hvaða aðila hann væri að tala um. Jóhannes sagðist ekki tilbúinn að segja það, en tók fram að það væri enginn af sakborningum. Hlutverk hans að vera í samskiptum við Pál Jóhannes sagði hlutverk sitt hafa verið að hitta og vera í samskiptum við Pál og koma til hans símum og peningum. Auk þess átti hann að taka á móti timbri. Hann sagðist fljótlega hafa gert sér grein fyrir að það væri líklega „eitthvað meira en bara timbur“ sem um ræddi. Hann hafi hins vegar ekki spurt nánar út í það þar sem hann vildi sem allra minnst vita og leið ekki vel með sína þátttöku. Jóhannes viðurkenndi að hafa ekki reynt að bakka út úr verkefninu á neinum tímapunkti. Frá upphafi hafi það legið fyrir að hann ætti að fá fimm milljónir fyrir sinn hlut. Jóhannes sagði hlutverk sitt hafa verið að hitta og vera í samskiptum við Pál og koma til hans símum og peningum.Vísir Jóhannes sagði Birgi vin sinn hafa verið aukahlekk í keðjunni. Beðinn um að útskýra þau ummæli frekar sagði hann þá sem stæðu að baki innflutningnum hafa reynt að fjarlægjast málið eins og þeir gátu. Þeir hafi því bætt við fleiri milliliðum svo erfiðara væri að rekja aðkomu þeirra. Hann sagði Birgi hafa komið að málinu á eftir sér. Jóhannes sagðist þó hvorki hafa bent á hann né hafa haft neitt með hans aðkomu að gera. Þá sagðist Jóhannes ekki vita hversu margir hefðu staðið að baki innflutningnum. Mótmælti vitnisburði Páls Páll sagði í sínum vitnisburði að Jóhannes hefði komið að fyrri innflutningi, þegar hann flutti inn gám sem innihélt einingahús árið áður. Efnið sem var ekki sótt. Jóhannes sagði það með öllu ósatt. „Ég veit ekki hvort hann sé að hylma yfir með öðrum með því að skipta okkur inn fyrir þeirra stað eða hvort hann sé að ljúga til að hylma yfir sjálfan sig. Ég hitti manninn ekki fyrr en maí 2022. Ég tók ekki þátt í neinu og skil ekki af hverju hann er að segja þetta. Það á ekki við nein rök að styðjast, ég er i sjokki að heyra þetta. Þetta meikar bara ekkert sens,“ sagði Jóhannes. Hann var augljóslega í talsverðu uppnámi þegar hann lét þau orð falla. Lán fram og til baka Jóhannes Páll er ákærður fyrir peningaþvætti líkt og aðrir í málinu. Fjárhæðin sem um ræðir, óútskýrðar tekjur upp á rúmlega sautján milljónir króna, er bæði innborganir á innlendum og erlendum gjaldmiðlum. Jóhannes sagði ekkert saknæmt við þetta. „Bæði hef ég ferðast mikið sjálfur, annars vegar hef ég gert greiða fyrir félaga minn sem hefur ekki haft tíma til að skipta peningum sjálfur,“ útskýrði hann. „Megnið af þessum peningum, flest allt er á milli vinahópsins og fjölskyldumeðlima. Það er ekki tekið inn í þetta upphæðir sem ég hef lagt til baka. Þetta er bara eðlilegt uppsafn, ég hef farið út með vinum og verið sá eini sem var með kort og tekið út fyrir vini sem leggja inn. Svo hef ég aðeins verið í fjárhættuspilum og svona. Lán fram og til baka.“ Hann sagðist hafa verið að vinna á ýmsum stöðum á tímabilinu 2020-2022. Hann nefndi Rafíþróttasamtök Íslands, Barion, Gamla bíó, Hjálpræðisherinn, golfskála og fleira. Þá sagðist hann hafa verið á atvinnuleysisbótum á tímabili árið 2020. Hann viðurkenndi að hafa unnið einhverja svarta vinnu yfir covid tímabilið og auk þess stundað fjárhættuspil. Keypti sér Lexus með reiðufé Saksóknari spurði Jóhannes hvort hann ætti bíl og hann játaði því. Hann sagðist eiga Lexus sem hann hafi borgað þrjár og hálfa milljón fyrir með reiðufé sem hann hafi safnað lengi. Rannsakandi í málinu sagði Jóhannes hinsvegar hafa sagt í skýrslutökum hjá lögreglu að hann hafi borgað bílinn með peningum sem hann hafði fengið greitt svart frá ríkum ferðamönnum. „Þarna var hápunktur Covid og mér finnst þetta, tja, ólíklegt,“ sagði hann. Þá sagði Jóhannes engin fjármálatengsl vera milli hans og Birgis, nema þá bara sem vinir. Aðspurður hvað hann ætti við sagði hann: „Ég hef lánað honum ef hann hefur verið í bobba og öfugt. Höfum farið út að borða og svona og annar borgar. Bara í báðar áttir.“ Saksóknari benti á að árin 2020-2022 hafi Birgir lagt inn á Jóhannes 1,7 milljón og Jóhannes inn á reikning hans 1,1 milljón. Þetta útskýrði Jóhannes sem „lán fram og til baka.“ Þá var rætt um innlagnir á reikning unnustu Birgis. Jóhannes útskýrði að væntanlega hafi stundum hentað betur að leggja inn á hana en skýrði það ekki frekar. Páll, Daði, Jóhannes og Birgir sitja fyrir aftan verjendur sínar við aðalmeðferð málsins.Vísir Við húsleit á heimili Jóhannesar voru ellefu hundruð evrur, jafnvirði um 170 þúsund króna, gerðar upptækar. Barnsmóðir Jóhannesar og fyrrum sambýliskona hans bar vitni fyrir dómi og sagðist hún hafa átt umræddar evrur. Hún sagðist hafa verið á leið til Spánar með vinkonu sinni og hefði safnað þessum peningum í einhvern tíma. Þegar hún var spurð hvort hún hefði safnað upphæðinni í íslenskum krónum og skipt yfir í evrur neitaði hún að svara. Man ekki eftir samskiptum sem lögregla telur að tengist fíkniefnasölu Jóhannes hafði ekki skýringar á sjö milljónum sem hann lagði inn á eigin reikninga með reiðufé. Hann sagðist þó aldrei hafa selt né dreift fíkniefnum. Spurður um síma sem lagt var hald á á heimili hans, sem lögregla telur að tengist fíkniefnasölu, sagðist hann ekki kannast við það. Hann viðurkenndi þó að líklega ætti hann símann þar sem hann hafi verið á heimili hans. Saksóknari minntist á samskipti sem fundust í símanum, „þar sem óskað er eftir láni, einhver sé handónýtur og þú beðinn um að redda.“ Jóhannes mundi ekki eftir þessu. Lögreglumaður sem fór í gegnum símann var spurður hvað hefði fundist í símanum sem lögreglu grunaði að tengdist fíkniefnum. Hann svaraði að þar hafi verið samtöl þar sem Jóhannes er beðinn um „að redda“, auk þess sem myndir fundust af bókhaldi eða einhverskonar skuldalista. Dæmi um skilaboð sem Jóhannes fékk send og lögreglumaðurinn telur að tengist sölu fíkniefna eru: „Æ plís, I really need, get borgað á föstudag, mátt tvöfalda,“ og „Láttu mig fá þrjá og svo sykur líka.“ Ókunnugur maður biður um greiða Næstur í vitnastúkuna var Daði Björnsson, sem hinir mennirnir sögðust aldrei nokkurntímann hafa séð né átt í neinum samskiptum við áður en að málið kom upp. Daði er fæddur árið 1992. Hann byrjaði á að játa aðild sína að málinu og sagðist harma þátttöku sína. „Þetta bar fljótt að, ég er maður sem kom í manns stað. Svo dregst þetta á langinn og ég já, áttaði mig ekki á alvarleika og hversu umfangsmikið málið var.“ Hann sagðist ekkert þekkja hina mennina sem ákærðir eru í málinu. Hann hefði engin tengsl við þá og aldrei hitt þá fyrr en í gæsluvarðhaldsfangelsinu á Hólmsheiði. Daði lýsti því að maður, sem hann þekkti ekkert, hafi komið upp að honum og beðið hann að vinna fyrir sig „afmarkað verk.“ „Ég hafði hitt hann hjá sameiginlegum vini, hann hafði séð í mér að ég væri áreiðanlegur, og já, hvernig ég bar mig. Hann bað mig að hitta sig,“ útskýrði Daði. Þetta var í byrjun júlí. Saksóknari spurði hvað það hafi verið sem maðurinn bað hann að gera. „Hann biður mig að geyma fyrir sig drumba. Og í upphafi er það það bara það sem hann biður mig um, hvort ég geti geymt þá tímabundið.“ Saksóknari spurði Daða hvort hann hefði átt að fá eitthvað fyrir þetta, að geyma drumba fyrir mann sem hann þekkti ekkert. Daði sagði það ekki hafa verið rætt. Hann sagði það hafi heldur ekki verið minnst á hversu margir drumbarnir væru né hversu lengi hann hafi átt að geyma þá. Þetta hafi einungis átt að vera greiði. Daði sagði að það hafi svo verið nokkrum dögum síðar sem maðurinn hafi tjáð sér að það væru fíkniefni í drumbunum og að hann ætti að bíða frekari fyrirmæla. Daði viðurkenndi að hann hafi þarna verið búinn að gera sér í hugarlund að um eitthvað ólöglegt væri að ræða. Tók húsnæði á leigu og keypti verkfæri Fyrirmælin bárust Daða stuttu síðar. Hann átti að taka húsnæði á leigu þar sem það gengi ekki að vera með drumbana heima hjá honum. Húsnæðið þyrfti að vera þannig að bíll kæmist inn. Daði tók því á leigu geymsluhúsnæði að Gjáhellu. Maðurinn lét hann hafa reiðufé sem hann lagði inn á reikninginn sinn til að borga leiguverðið. Daði Björnsson tók iðnaðarhúsnæði í Gjáhellu á leigu. Þangað fór hann með efnin, vigtaði og pakkaði þeim. Lögreglan kom fyrir hlerunarbúnaði þegar hann skrapp frá. Vísir/Vilhelm Eigandi iðnaðarhúsnæðisins bar vitni og greindi frá því að eftir að hann auglýsti rýmið til leigu á netinu hafi Daði haft samband. Eigandinn sagði Daða hafa tjáð sér að hann væri að koma úr námi frá Danmörku og vantaði húsnæði til að geyma búslóð. Leigan var 170 þúsund krónur á mánuði auk virðisaukaskatts og var gerður fjögurra mánaða leigusamningur. Eltu Daða og settu upp hlerunarbúnað í Gjáhellu Daði var í samskiptum við manninn sem fékk Daða til verksins í gegnum samskiptaforritið Signal. Sá maður kallaði sig ýmist Nonna, Harry eða Trucker og var líklega með fleiri notendanöfn. Daði lýsti því að hann hafi fengið fyrirmæli frá „Nonna“ um að sækja drumbana á N1 í Hafnarfirði, þangað sem Páll hafi verið mættur með drumbana í sendiferðabíl. Þeir hafi þó ekki vitað af hvor öðrum. Daði sótti drumbana í tveimur ferðum og fór með þá í Gjáhellu. Lögreglan hafði fylgst með Jóhannesi, Páli og Birgi í talsverðan tíma en hafði fram að þessum tímapunkti ekki vitneskju um aðkomu Daða eða hlutverk hans. Þegar Daði sótti sendiferðabílinn hjá Páli á N1 elti lögreglan hann að geymsluhúsnæðinu í Gjáhellu. Á meðan hann fór seinni ferðina til að sækja efnin var hlerunarbúnaði komið fyrir þar. Daði Björnsson, til vinstri. Jóhannes Páll Durr er hægra megin.Vísir Síðar um daginn, í Gjáhellu, opnaði Daði drumbana með verkfærum sem hann hafði keypt að áeggjan „Nonna“; kúbein, meitil og hamar. Hann sagðist hafa fengið fyrirmæli um að pakka efnunum betur, sem hann gerði, setti auka límband þar sem honum hafi sýnst efnunum vera illa pakkað. Daði sagði að sér hafi verið sagt að vigta hluta efnanna, þrjátíu og fimm kíló, og fara með þau heim til sín í Mosfellsbæ. Hann sagðist ekki hafa verið búinn að fá fyrirmæli um hvað ætti að gera við restina af efnunum. Á leiðinni heim til sín stoppaði Daði á KFC í Mosfellsbæ og fékk sér að borða. Þar hitti hann aðila sem fékk að hringja hjá honum. Lögregluna, sem fylgdist með, grunaði að þetta væri sá sem ætti að taka við efnunum. Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í handtökur. Í ljós kom að þessi aðili, sem fékk að hringja hjá Daða, tengdist ekki málinu á neinn hátt og heldur hafði Daði hitt hann fyrir tilviljun. Daði átti að hitta aðila morguninn eftir og afhenda efnin. Aðilinn sem átti að taka við efnunum hefur ekki fundist. Ræddu um að grafa holur í Laugardal og í Heiðmörk Í síma sem fannst á Daða við handtöku fundust skjáskot af samskiptum hans við „Nonna“. Þar er talað um að grafa holur, meðal annars í Heiðmörk. Daði skýrði það þannig að þessi aðili hafi í fyrstu beðið hann að athuga hvort möguleiki væri að grafa holur í Laugardal. Hann sagðist því hafa farið og kannað aðstæður en metið það sem svo að það væri ómögulegt. Daði fór og kannaði aðstæður í Laugardal en mat það sem svo að ekki væri heppilegt að grafa fíkniefni þar.Vísir/Vilhelm Í kjölfarið hafi komið upp umræða um að grafa holur í Heiðmörk. Aðspurður um tilganginn sagði hann að væntanlega hafi staðið til að koma efnum í þessar holur. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Daði sagðist hafa upplifað mikinn þrýsting frá þessum aðila. Hann hafi upplifað ógn og að hann hafi verið fastur í aðstæðunum. Samskiptin hafi verið mikil og alltaf að frumkvæði aðilans, „Nonna.“ Skammaðist sín fyrir að hafa átt að gera „mikið fyrir lítið“ Daði sagðist fyrir dómi hafa átt að fá fimm milljónir fyrir verkið en í skýrslutökum hjá lögreglu nefndi hann tíu. Aðspurður um þetta misræmi sagðist hann hafa dauðskammast sín fyrir að hafa verið narraður út í þetta, að hafa verið gerður að burðardýri, þegar hann opnaði drumbana í Gjáhellu og sá hversu umfangsmikið og alvarlegt málið væri. Verjandi hans spurði þá hvort hann hefði upplifað að „hafa ætlað að gera mikið fyrir lítið?“ Daði játaði því. Hann sagðist hafa nýtt tímann í gæsluvarðaldinu, sem nú hefur staðið í hálft ár, sem betrunartækifæri. „Ég legg stund á nám aftur og hef reynt að byggja upp heilbrigðara líferni. Stunda meðferðarúrræði og hef náð að halda mér nokkuð heilum í kollinum.“ Kannabisræktun og peningaþvætti Daði er einnig ákærður fyrir kannabisræktun og vörslu á maríjúana, ásamt peningaþvætti. Á heimili hans í Mosfellsbæ fannst kannabisræktun. Hann sagðist hafa stundað slíka ræktun „on and off“, í einhvern tíma. Þá sagðist hann hafa verið atvinnulaus síðustu ár. Aðspurður um hvernig hann hafi borgað leigu og framfleytti sér, sagðist hann hafa fengið aðstoð frá fjölskyldu og nánum kunningjum og hefði jú, selt kannabis. Í tilfelli Daða er líkt og í tilviki Páls, um að ræða óútskýrða fjármuni að allt að sextán milljónum. Það eru að mestu leyti innborganir á reikning hans með reiðufé og greiðslur frá ýmsum aðilum. Daði svaraði öllum spurningum varðandi þetta fálega. Greiðslur frá hinum og þessum aðilum sagði hann vera „aðstoð með leiguna“ frá vinum og kunningjum auk einhvers ágóða af kanabissræktun. Vitni keyptu kókaín af Daða Á degi þrjú í skýrslutökum báru vinir og kunningjar mannanna vitni, auk nokkurra aðila sem höfðu fjármálatengsl við þá. Þessir aðilar höfðu lagt inn talsvert háar upphæðir inn á reikninga einhverra þeirra. Meðal þeirra sem báru vitni voru þrír aðilar sem viðurkenndu að hafa keypt kókaín af Daða á árunum 2020-2022. Millifærslur þeirra inn á reikning hans voru því útskýrðar með fíkniefnakaupum. Einn aðili sem lagði inn á hann rúmlega fimm hundruð þúsund í þrjátíu millifærslum gat þó ekki útskýrt það neitt frekar og bar við minnisleysi. Hann mundi þó eftir að hafa keypt af honum bassa og vínilplötur. Miður sín yfir að missa af tíma með börnunum Birgir Halldórsson, vinur Jóhannesar, hóf vitnisburð sinn fyrir dómi á því að lesa yfirlýsingu. Þar kom fram að hann hafi undanfarin ár verið á „góðum stað“, hafi eignast son árið 2021 og verið í sambandi frá árinu 2019. Sambýliskona hans ætti fyrir dóttur sem hann hafi gengið í föðurstað. Sagðist hann miður sín yfir að missa af tíma með börnunum en væri þakklátur fyrir stuðning fjölskyldu sinnar á þessum erfiðu tímum. Að hans sögn var haft samband við hann seint í maí í fyrra, af „aðila“. Ekki liggur fyrir hvort umræddur aðili sé fyrrnefndur „Nonni". Birgir segist upphaflega hafa neitað þegar hann var beðinn um að koma að málinu. Hans hlutverk hafi verið að koma boðum milli manna eftir að gámurinn var kominn til landsins. „Ég var ekki tilbúinn fyrst en lét því miður til leiðast þegar mér voru boðnar fimm milljónir,“ sagði hann. Birgir sagði verkefnið hafa átt að taka nokkra daga. Honum hafi verið sagt að útvega sér síma, sem hann gerði 23. maí. „Aðilinn“ setti upp nokkra tengiliði í símann. Segir augljóst að hann hafi verið hlekkur í langri keðju Birgir sagði það svo ekki hafa verið fyrr en í júlí sem hann hafi fengið fyrstu skilaboðin. Þau hafi verið verðandi gáminn, hvernig ætti að tæma hann og koma innihaldinu í skjól. Þá sagðist hann í eitt skipti hafa séð um að koma peningum til Páls í gegnum Jóhannes. „Mér var aldrei ætlað að gera annað en að bera upplýsingar á milli eftir gámurinn kom til landsins. Ég kom aldrei að kaupum á fíkniefnum eða panta timbur frá Brasilíu. Ég kom ekki nálægt því að koma eiturlyfjum fyrir í drumbunum,“ sagði Birgir. Hann sagði augljóst að hann hafi verið notaður til að „lengja keðjuna,“ og það væri gott fyrir hann ef öll hans samskipti við„Nonna“ yrðu birt. Páll væri að bjarga rassgatinu á sjálfum sér Birgir tók fram að hann hafi fengið upplýsingar um magn fíkniefnanna tveimur dögum fyrir handtöku, en hann hefði aldrei tekið þátt ef hann hefði vitað um hvaða magn væri að ræða. Hann endaði yfirlýsinguna á því að segjast sjá óendanlega eftir þessu, en hans hlutur í málinu væri óverulegur og hefði ekki verið nauðsynlegur. Innflutningurinn hefði þegar átt sér stað þegar hann kom að málinu. Ákærunni um peningaþvætti mótmælti hann alfarið. Líkt og Jóhannes mótmælti Birgir vitnisburði Páls. Hann sagðist hafa kynnst honum árið 2019 þegar sonur Páls var að reyna koma húsi, gistiheimili í leigu. Það hafi ekki verið að hans frumkvæði. Hann sagðist hafa rekist á Pál í jarðaför sonar hans en hefði ekki séð hann síðan. Birgir sagðist hafa á tilfinningunni að Páll væri að rugla honum og Jóhannesi við aðra aðila. Síðar í vitnisburðinum sagði hann: „Ég legg sérstaka áherslu á að ég fór aldrei í neinn hitting á neinar tröppur hjá Páli til að segja að hann gæti ekki bakkað út úr þessu. Þegar hann sat hér hlýtur hann að hafa sagt þetta til að reyna bjarga rassgatinu á sjálfum sér og reyndi að mála mig og Jóhannes upp sem aðra aðila sem hann hefur átt í samskiptum við. Eða þá að þetta er hundrað prósent skáldskapur." „Mér finnst enginn mikilvægur maður sitja í þessum réttarsal“ Saksóknari spurði Birgi nánar út í samskipti sín við Pál árið 2019. Páll sagði þá hafa hist nokkrum sinnum á pítsastað til að ræða saman þar sem þeir vildu ekki tala saman í síma. Þetta staðfestir Birgir, að þeir hafi hist á Devitos. Hann kvaðst þó lítið muna um hvað var rætt. „Ég man bara ekki nákvæmlega hvernig þetta var. Ekki frekar en einhver annar man hvern hann hitti 2019.“ Birgir Halldórsson segist aðeins lítill hlekkur í langri keðju. Rannsakendur málsins virðast ekki vera á sömu skoðun.Vísir Verjandi Birgis spurði hann hvort hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti tekið sjálfstæða ákvörðun í samskiptum en því neitaði hann. Hann sagðist aðeins vera liður í að lengja samskiptin. Birgir sagðist hafa átt samtal við lögreglumenn og spurt hvort þeir ætluðu ekkert að rannsaka þetta mál frekar. „Það er enginn annar í haldi, mér finnst enginn mikilvægur maður sitja í þessum réttarsal. Þetta hefur verið illa rannsakað,“ sagði hann. Skipulagt frá toppi til táar og „keðjur“ alþekktar Lögreglumaður sem kom að rannsókninni var spurður hvert hann teldi hlutverk Birgis vera. Hann útskýrði að þeir vissu að Birgir hefði verið í samskiptum við aðila erlendis. Það lægi fyrir í gögnum málsins. Talið væri að Birgir væri sá sem „sér um það sem vantar hér á landi, að það sé skaffað,“ eins og lögreglumaðurinn orðaði það. Þegar hann var spurður nánar út í þetta sagði hann að rannsóknin snéri einnig að erlendum aðilum. Hann sagði augljóst að Birgir hafi verið sá sem kom skilaboðum og peningum til Jóhannesar, og Jóhannes hafi komið því áfram til Páls. Máli sínu til stuðnings nefndi lögreglumaðurinn dæmi um að daginn fyrir handtöku hafi Páll og Jóhannes hist á Hilton hótelinu í Reykjavík. Páli vantaði peninga, 150 þúsund krónur, til að borga vinnumönnum fyrir að bera timbur. Jóhannes fór beint eftir fund hans við Pál að hitta Birgi sem lét hann hafa peningana, sem Jóhannes var með á sér við handtökuna. „Það er augljóst að verið er að búa til ákveðið net. Þetta eru þessi tvö verkefni, koma efnunum heim og svo annars vegar að taka á móti og græja þau," sagði rannsakandi málsins.Vísir/Sara Varðandi „keðjuna“ sem ákærðu í málinu vísa ítrekað í, sagði lögreglumaðurinn að slíkar keðjur væru alþekktar þegar kæmi að innflutningi fíkniefna. Hann útskýrði að menn hefðu oft ákveðin hlutverk og vissu ekki með hverjum þeir væru að vinna. „Jóhannes er milliliður Birgis og Palla [Páls.] Svo er Nonni með Daða. Hin hliðin veit ekkert af hvor öðrum,“ sagði hann. Það er augljóst að verið er að búa til ákveðið net, einhverjir sjá um samskipti hér og aðrir hér. Það er verið að fjarlægja menn og búa til net. Þetta eru þessi tvö verkefni, koma efnunum heim og svo annarsvegar að taka á móti og græja þau. Aðspurður um hvort hann teldi að hlutverk mannanna væru jafn veigalítil og þeir vildu meina svaraði hann því ekki beint en sagði: „Þetta er skipulag frá toppi til táar. Menn geta svo svo sem gert lítið úr sínum hlutverkum eins og þeir vilja en sendingin er níutíu og átta kíló. Þeir virðast allir vera meðvitaður um að þetta sé stór sending.“ Lögregla hafði ekki vitneskju um aðkomu Daða að málinu fyrr en hann tók við efnunum af Páli. Það var 4. ágúst. Daði var handtekinn um kvöldið, en lögreglan vissi ekki að til stæði að hann myndi hitta mann daginn eftir sem átti að taka við efnunum. Sá maður er ófundinn.Vísir/Sara Annar lögreglumaður taldi ekki líklegt að mennirnir hefðu í raun talið að um sex til sjö kíló væri að ræða eins og þeir hafa sjálfir haldið fram. Það hefði verið „gríðarlegur kostnaður og fyrirhöfn fyrir smáræði“, sagði hann. Til dæmis hafi kostað um 900 þúsund að losa einn gám út úr tollinum. Segir svört laun vel þekkt í byggingargeiranum Birgir var líkt og hinir, beðinn um að skýra frá óútskýrðum tekjum, sem í hans tilfelli voru um þrettán milljónir. Hann útskýrði að hann hefði verið á háum launum í iðnaðarvinnu. Hann sagði ef skattframtöl hans væru skoðuð kæmi fram að hann hefði staðið skil á sínum sköttum. Það stæðist enga skoðun að um peningaþvætti væri að ræða og vísaði til sölu á bifreið. „Það fer einstaklega mikið í taugarnar á mér. Ég kaupi bifreið og þegar ég legg inn kaupverð neitar lögregla að taka það gilt því ég legg það ekki inn á sama félag. Það er augljóst að ég er að leggja inn fyrir bílnum.“ Saksóknari spurði hverskonar verkefnum hann hefði unnið að. „Verkstjóri í minniháttar byggingarverkefnum,“ svaraði Birgir. Hann sagðist „ekki vilja lesa upp fyrir blaðamennina,“ hjá hvaða fyrirtækjum hann vann, en það sé í gögnum málsins. Hann viðurkenndi að hafa þegið svört laun, „enda sé það vel þekkt í byggingargeiranum.“ Konan sjái um að fara í Bónus og borga leikskólagjöld Varðandi óútskýrðar greiðslur frá ýmsum einstaklingum fullyrti Birgir að ekki væri um neitt ólöglegt að ræða. „Ef þetta fólk yrði kallað í vitnaleiðslur gæti það staðfest að þetta er ekki eitthvað tengt fíkniefnum.“ Um sjö til níu milljónir er að ræða, en líkt og Jóhannes útskýrði Birgir það sem „lán fram og til baka.“ Þegar Birgi var bent á að framfærsla hans væri langt undir framfærsluviðmiðum sagði hann að tekjur konunnar sinnar hefðu ekki verið reiknaðar með. Hefði það verið gert „hefðu birst nokkur auka hundruð þúsund í heimilisbókhaldið.“ Hann sagði að konan hans „hefði séð um að fara í Bónus, borga leikskólagjöld og allt það.“ Hver er „Nonni“? Ein af lykilspurningum málsins sem nú situr eftir, er hver aðilinn er sem var í samskiptum við Daða og gaf honum fyrirmæli? Hann kallaði sig ýmist Nonna, Harry eða Trucker á dulkóðuðum samskiptaforritum sem mennirnir notuðust við. Í skýrslutökum sagði lögreglumaður að ljóst væri að „Nonni“ væri sá aðili sem kom upplýsingum til Daða og „passaði að hann gerði það sem þurfti að gera,“ líkt og hann orðaði það. Daði hefur aldrei gefið upp hver „Nonni“ sé, en staðfest er að þeir hittust í að minnsta kosti eitt skipti þar sem lögregla fylgdist með. Það var þann 8. júlí við Melabúðina þar sem „Nonni“ lét Daða hafa síma. Daði neitaði því þó fyrir dómi að vita hver „Nonni“ væri. Þá er ein af stóru spurningum málsins hvort að það hafi átt að vera umræddur „Nonni“ eða einhver annar sem átti að taka við efnunum af Daða. Verjendur ákærðu hafa gagnrýnt lögreglu fyrir að hafa ráðist of snemma í handtökur en Daði átti að hitta einhvern daginn eftir að hann var handtekinn og afhenda efnin. Þá liggja fyrir samskipti á milli „Nonna" og Birgis. Þau samskipti fóru fram á ensku en lögregla telur þó að „Nonni“ sé íslendingur. Ljóst er að Birgir er einnig meðvitaður um hver „Nonni“ er í raun og veru, en þegar hann var spurður að því fyrir dómi sagði hann einfaldlega: Ég er ekki til í að segja hver það er. Þá sitja einnig eftir spurningar um hvernig kaupin á efnunum voru fjármögnuð, hvaða aðilar í Brasilíu komu þeim fyrir í drumbunum og hverjir, ef ekki þeir ákærðu, eru höfuðpaurar málsins og skipuleggjendur þess? Ætla má að götuvirði hundrað kílóa af kókaíni sé í kringum tveir milljarðar íslenskra króna. Fordæmi fyrir þungum dómum Verði mennirnir fundnir sekir má búast við að þeirra bíði löng fangelsisvist. Hámarksrefsing fyrir fíkniefnainnflutning er tólf ára fangelsi, en ofan á það gætu bæst dómar fyrir peningaþvætti. Fordæmi eru fyrir þungum dómum í umfangsmiklum fíkniefnamálum og ber þar helst að nefna 12 ára dóm sem tveir karlmenn hlutu í október á síðasta ári, í áðurnefndu Saltdreifaramáli. Það eru þyngstu dómar sem fallið hafa í fíkniefnamálum hér á landi. Áætlað er að aðalmeðferð málsins ljúki í næstu viku þegar hollensku tollverðirnir ljúka við skýrslutöku. Í framhaldinu fer fram málflutningur í málinu þar sem saksóknari og verjendur færa rök fyrir máli sínu. Búast má við dómsuppkvaðningu um fjórum vikum síðar. Stóra kókaínmálið 2022 Fíkniefnabrot Dómsmál Smygl Fréttaskýringar Tengdar fréttir Hafa allir svarað fyrir sig í stóra kókaínmálinu Fjórir karlmenn sem sæta ákæru í stóra kókaínmálinu svokallaða gáfu skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Óhætt er að segja að framburður ákærðu hafi verið um margt athyglisverður. Héraðsdómari tók skýrt fram við upphaf aðalmeðferðar í morgun að fjölmiðlar mættu ekki grein frá því sem fram kæmi fyrr en að lokinni aðalmeðferð. 19. janúar 2023 16:38 Aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar fer fram í dag Aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu svokallaða fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Um er að ræða langstærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi. Fjórum sakborningum í málinu er gefið að sök að hafa flutt inn um hundrað kíló af kókaíni, sem falin voru í sjö trjádrumbum. Reikna má með þungum dómum verði mennirnir fundnir sekir. 19. janúar 2023 08:01 Sagðist í fyrstu skýrslutöku hafa átt að fá greiddar 30 milljónir Karlmaður á sjötugsaldri sem sætir ákæru í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar viðurkenndi í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði átt að fá þrjátíu milljónir króna fyrir sinn hlut í innflutningnum. Í næstu yfirheyrslum dró hann úr framburði sínum og sagði óljóst hve há greiðslan hefði átt að vera. 21. nóvember 2022 16:52 Sakborningar í stóra kókaínmálinu spjölluðu allir við dómara á Skype Sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu tóku allir afstöðu til ákærunnar í gegnum fjarfundabúnaðinn Skype þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þeir sæta ákæru fyrir innflutning á tæplega hundrað kílóum af kókaíni hingað til lands. Þeir voru handteknir í ágúst síðastliðnum. 16. nóvember 2022 10:26 Stóra kókaínmálið: Liðsstjóri landsliðs og timbursali meðal sakborninga Enginn fjögurra sakborninga í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar á að baki sakaferil að ráði og í hópi þeirra eru timbursali og fyrrverandi liðsstjóri hjá íslensku landsliði í rafíþróttum. Málið verður þingfest á miðvikudag. 14. nóvember 2022 12:23 Mest lesið Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Innlent Kallar eftir sams konar úrræði og Breivik og árásarmaður hennar sæta Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Mansalsmál Gríska hússins: Vann sjö daga í viku hverri og svaf í kjallaranum Innlent Sakar Snorra um að tendra bál fordóma Innlent Fundu morðingja puttaferðalangs fimmtíu árum síðar Erlent Öryrkjar fá 1,7 skattfrjálsa milljarða Innlent „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast“ Erlent Þúsund lítrar af sýru láku á Bíldudal Innlent Ríkisstjórnin bjó sjálf til flóttamannavandamál Innlent Fleiri fréttir Lögreglan bannaði bjór á B5 Leikskólastarfsmenn í Hafnarfirði greiða atkvæði um verkfall Um 60 kennarar hjá Fræðsluneti Suðurlands Bein útsending: Sigmundur kynnir innihaldið Öryrkjar fá 1,7 skattfrjálsa milljarða Ætla ekki að slíta viðræðum Engin ákvörðun um hvalveiðar og maurasýrumengun á Bíldudal Kallar eftir sams konar úrræði og Breivik og árásarmaður hennar sæta Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Helmingi þætti óeðlilegt ef Bjarni gæfi út hvalveiðileyfi Þúsund lítrar af sýru láku á Bíldudal Ríkisstjórnin bjó sjálf til flóttamannavandamál Tveir handteknir eftir hópslagsmál Mansalsmál Gríska hússins: Vann sjö daga í viku hverri og svaf í kjallaranum Sakar Snorra um að tendra bál fordóma Nýju húsnæði Myndlistaskólans lokað Ísland meðal Evrópulanda þar sem lyfjatengd andlát eru hlutfallslega flest Nánast engin læknisþjónusta ef til verkfalls kemur Mikill eldur í iðnaðarhúsnæði á Akureyri Lyfjatengd andlát, rauð Bandaríki og glimmerveisla í Eldborg Tóku fyrstu skóflustunguna að nýjum skóla Óvíst hvort umsókn um hvalveiðileyfi verði afgreidd fyrir kosningar Fóru í óboðað eftirlit vegna ábendinga um slæman aðbúnað leikskólabarna Reikna með fimmtán milljarða kostnaði vegna tjóns Herði kröfur um reynslu leiðsögumanna eftir banaslysið Mengun meiri en búist var við frá bálstofu Lítil skjálftavirkni eftir hrinuna í byrjun viku „Dagurinn sem átti að vera fullur af gleði hlaðinn nístandi sorg“ Tvær íslenskar konur reyndust með alnæmi eftir mikil veikindi Bein útsending: Parkinson - meðferð, framfarir og framtíðarsýn Sjá meira
Ljóst er að fleiri aðilar eiga þátt í málinu sem ekki hafa fundist, hugsanlega mögulegur höfuðpaur. Mennirnir sem ákærðir eru eiga yfir höfði sér þunga dóma. Þeirra á meðal er tæplega sjötugur timbursali sem hefur kvartað sáran yfir gæsluvarðhaldi sem hann hefur þurft að sæta síðustu átta mánuði. Verjendur í málinu hafa gagnrýnt mjög tímasetningu á handtöku í málinu þar sem komið hafi verið í veg fyrir að mögulegur höfuðpaur eða hærra settur einstaklingur í keðjunni næðist. Ónefndur einstaklingur sem átti að taka við miklu magni kókaíns. Sakborningur í málinu var handtekinn á KFC í Mosfellsbæ áður en ónefndi aðilinn lét sjá sig. Langstærsta kókaínmál Íslandssögunnar Timbursalinn Páll Jónsson er kominn vel á sjötugsaldur. Hinir þrír sem sæta ákæru, Jóhannes Páll Durr, Daði Björnsson og Birgir Halldórsson eru allir í kringum þrítugt. Jóhannes og Birgir eru góðir vinir sem hafa þekkst í fjölda ára. Vinirnir könnuðust við Pál þar sem hann er faðir kunningja þeirra sem lést árið 2019. Daði virðist engin tengsl hafa haft við hina þrjá áður en fjórmenningarnir voru allir handteknir í ágúst í fyrra. Aðkoma fjórmenninganna að málinu, sem er stærsta kókaínmál sem upp hefur komið hér á landi, er afar ólík. Þeir tengjast með einum eða öðrum hætti fyrirhuguðum innflutningi á hundrað kílóum af kókaíni til landsins frá Brasilíu, með viðkomu í Hollandi. Efnin voru falin í trjádrumbum sem fluttir voru inn í gámi af fyrirtæki Páls, Hús og Harðviður. Kókaínið barst hins vegar aldrei til Íslands þar sem lögreglan komst á snoðir um áformin og lét hollensku lögregluna vita. Tollverðir í Rotterdam fundu efnin og skiptu þeim út fyrir gerviefni. Óhætt er að segja að margt áhugavert hafi komið fram þegar fjórmenningarnir og önnur vitni komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Hér verður snert á því helsta. Bann við fréttaflutningi Dómari í málinu fyrirskipaði við upphaf aðalmeðferðar þann 19. janúar síðastliðinn, fyrir sex vikum, bann við fréttaflutningi þar til öllum skýrslutökum um málið væri lokið. Erfiðlega hefur gengið að fá síðustu vitnin, hollenska tollverði, fyrir dóminn en eftir endurteknar frestanir stendur til að gera enn eina tilraun í næstu viku. Ritstjórn Vísis telur dómara í málinu túlka þröngt nýlega meginreglu sem segir að fjölmiðlar megi ekki greina frá því sem fram komi í skýrslutöku fyrr en að henni lokinni. Það sé oftúlkun á lögunum að ekki megi fjalla um neitt fyrr en að öllum skýrslutökum í málinu í heild sé lokið. Engin ástæða sé til að halda frá almenningi upplýsingum úr opnu þinghaldi þegar einstaka hollenskir tollverðir eigi eftir að bera vitni. Fjallað var um frumvarp dómsmálaráðherra er varð að lögum, breytingum í meðferð málsins og annað sem snýr að fréttabanni af skýrslutökum á Vísi á dögunum. Að neðan má sjá tímalínuna í málinu lesendum til glöggvunar. Timbursalinn segist hafa talið að um sex kíló væri að ræða Fyrstur til að gefa skýrslu fyrir dómi var timbursalinn Páll Jónsson. Skýrslutakan yfir Páli tók lengstan tíma og tók greinilega á hann. Hann hefur, líkt og hinir ákærðu, setið í gæsluvarðhaldi frá því þeir voru handteknir í ágúst síðastliðnum. Að sögn Páls er forsaga málsins sú að hann kynntist Birgi árið 2019. Hann sagði Birgi hafa samband við sig og bað hann um að panta fyrir sig hús, eða timbur til að byggja hús. Birgir hafi ætlað að byggja gistiheimili og annaðhvort eiga það eða leigja. Páll Jónsson sér fram á langan fangelsisdóm líkt og aðrir sakborningar, verði þeir sakfelldir í umfangsmesta fíkniefnamáli Íslandssögunnar. Vísir Þá liggur fyrir að Páll og Birgir hittust nokkrum sinnum á þessum tíma, árið 2019, á pítsastaðnum Devitos við Hlemm. Sléttir peningaseðlar og öll samskiptu í gegnum Jóhannes Páll pantaði húsið frá framleiðanda sínum, Brasmeric í Brasilíu. Hann lýsti því að Birgir hafi í kjölfarið tilkynnt sér að öll samskipti í framhaldinu þyrftu að fara í gegnum mann að nafni Jóhannes. Bæði varðandi efniskaupin á timbrinu og innflutning á gámnum. Páll sagði Birgi hafa útskýrt að Jóhannes væri vinur hans og sagðist Páll ekki hafa gert neinar athugasemdir við að samskiptin færu í gegnum hann. Ef Pál vantaði peninga, til að panta byggingaefni, borga flutningskostnað eða geymslugjöld, hafi hann látið Jóhannes vita sem kom seðlum til hans. Páll sagði þetta fyrirkomulag ekki hafa hringt neinum viðvörunarbjöllum. Húsið, sem var einingahús, kom í gámi til landsins í febrúar 2022. Það var aldrei sótt og geymslugjöld hlóðust upp. Þegar Páll var spurður hvort honum hafi ekki fundist það neitt skrítið sagðist hann hafa treyst mönnunum fram að þessu. Hann útskýrði að Jóhannes hafi áfram látið hann hafa peninga til að greiða geymslugjöld og öll þau gjöld sem tengdust gámnum. „Seðlarnir voru svo sléttir að það var skondið, eins og þeir væru að koma beint úr Seðlabankanum. Ég hugsaði ekki út í að þetta væru illa fengnir peningar,“ sagði Páll við aðalmeðferðina. Lögregla fylgdist með Á þessum tímapunkti var lögreglan þegar farin að hafa eftirlit með mönnunum, án þess að þeir hefðu minnstu hugmynd um það. Rannsakandi málsins sem bar vitni fyrir dómi upplýsti að hann hefði verið í vinnuhóp sem vann að Saltdreifaramálinu svokallaða. Í gögnum þess máls var að finna samræður milli tveggja aðila sem ræddu um að flytja kókaín til landsins í gegnum viðarplötur. Ekki var tekið fram um hvaða aðila væri að ræða. Lögregla hóf því að rannsaka málið samhliða Saltdreifaramálinu. Um miðjan maí bárust svo upplýsingar úr annarri átt um að til stæði að flytja kókaínið til landsins í viðardrumbum frá Suður-Ameriku. Í kjölfarið var farið að fylgjast með Páli Jónssyni, þar sem hann var sá eini sem flutti inn við frá Brasilíu. Þarna lá einnig fyrir að Birgir Halldórsson væri tengdur málinu. Símar mannana voru hleraðir og fylgst var með ferðum þeirra. Lögreglumaðurinn skýrði frá því að þegar fyrri gámurinn með einingahúsinu kom til landsins hefði verið leitað í honum en engin efni hafi fundist. Það vakti þó athygli rannsakenda að hvorki gámurinn né innihald hans var nokkurntímann sótt. Kominn í andlegt þrot og samþykkti að flytja inn efni Páll segir að Birgir hafi haft samband aftur skömmu eftir að fyrri gámurinn kom til landsins og hafi viljað fá hann til að flytja inn meira af harðvið fyrir sig. Hann hafi sagst vera með 500 fermetra af pallaefni sem hann vildi flytja inn til landsins auk sextíu staura. Þegar sá gámur kæmi til landsins sagði Birgir að báðir gámarnir yrðu sóttir. Páll segir að það hafi verið á þessum tímapunkti sem Birgir hafi sagt honum að hann hefði hug á að flytja inn fíkniefni og fela þau í sex af þessum sextíu staurum. Eitt kíló yrði falið í hverjum staur, samtals sex kíló. Páll segist hafa látið til leiðast og samþykkt að taka þátt í verkefninu. Aðspurður hvað hafi komið til að hann samþykkti að flytja inn fíkniefni, sagðist Páll hafa verið kominn í andlegt þrot á þessum tíma. Sonur hans hafði látist árið áður, tengdamamma hans líka auk þess sem náinn fjölskyldumeðlimur hafi verið alvarlega veikur. Hann sagðist hafa fundið fyrir uppgjöf og ekki verið fær um að veita mótspyrnu. Vildi hætta við á einum tímapunkti Þegar Páll var spurður hvað hann hafi átt að fá greitt fyrir þátttöku sína sagði hann að aldrei hafi verið talað um ákveðna greiðslu. Birgir hafi aðeins sagst ætla að „gera vel við hann.“ Á einum tímapunkti segist Páll hafa hugsað sig um og honum hafi snúist hugur. Hann segist hafa tilkynnt Jóhannesi það. „Þá kemur Birgir til mín og segir að það verði ekki aftur snúið, það yrði allt vitlaust. Ég þekki enga aðila í þessu máli, veit ekki um neina aðra menn. Ég hugsaði að það væri ekki aftur snúið og svo fór sem fór.“ Í framhaldinu segist Páll hafa haft samband við sína framleiðendur og tilkynnt þeim að sextíu staurar væru væntanlegir og þeim ætti að bæta við seinni gáminn, sem í var pallaefni. Hann sagðist hafa gefið Birgi og Jóhannesi leiðbeiningar um hvernig best væri að fela efnin í staurunum með því að saga tíu sentímetra bút úr timbrinu. „Síðar kom i ljós allt annað en mér var sagt. Ég hefði aldrei tekið þátt í svona brjálæði. Vissi aldrei annað en þetta magn, ég hafði ekki hugmynd um það.“ Samskipti í gegnum dulkóðað forrit Gámarnir tveir voru pantaðir frá Brasilíu í gegnum fyrirtæki Páls, Hús og Harðvið. Fyrirtækið var stofnað í október 2020. Hann sagði tilganginn með stofnun fyrirtækisins hafa verið til að geta áfram pantað inn timbur í gegnum kennitölu fyrirtækis en ekki hans eigin enda væri hann á leið á eftirlaun. Tollverðir í Rotterdam fundu efnin eftir ábendingu frá íslenskum yfirvöldum, og skiptu þeim út fyrir gerviefni. Saksóknari spurði Pál við aðalmeðferðina út í síma sem fannst á honum við handtöku. Páll útskýrði að þetta hefði verið sími sem Jóhannes lét hann fá og hafi séð alfarið um. Í hvert sinn sem þeir hittust hafi Jóhannes tekið símann og uppfært hann. Í eitt skipti hafi hann skipt um síma og látið hann hafa nýjan. Samskipti þeirra á milli fóru í gegnum samskiptaforritið Signal. Páll segist aldrei hafa spurt hvers vegna þeir gætu ekki haft samskipti símleiðis, sagðist „ekkert hafa pælt í því.“ Jóhannes þurfti alltaf að spyrja „strákana“ Páll margtók fram að hann hafi borið upp ýmsar spurningar í ferlinu en aldrei fengið nein svör. Samkvæmt honum virtist Jóhannes ekki hafa vitað mikið sjálfur, hann hafi alltaf þurft að spyrja „strákana.“ Þegar hann var spurður hvaða stráka hann ætti við svaraði Páll: „Hef ekki hugmynd, ég spurði aldrei. Það kom mér ekkert við. Minn þáttur var að kaupa þessar vörur frá mínum framleiðanda, taka við þessum staurum og koma gámnum til Íslands. Það er minn þáttur í þessu máli.“ Páll segist hafa orðið var við mikið „panik“ þegar gámurinn með efnunum var kominn til landsins. Hann hafi þurft að fara til að losa gáminn en staurarnir með efnunum voru neðst, undir öllu pallaefninu. „Það var ekki möguleiki á að gera þetta einn, ég þurfti hjálp. Svo vantaði mig bíl, en það var ekki möguleiki. Það mátti enginn koma nálægt nema ég. Ég var löngu búinn að fatta þetta þarna.“ Beið með efnin fyrir utan N1 Þegar þarna var komið við sögu segist Páll hafa „reddað sér“, leigt bílaleigubíl og fengið kunningja sína með sér til að losa gáminn. Þeir færðu pallaefnið úr gámnum yfir í annan gám sem hann tók á leigu en settu staurana í sendibíl. Páll sagði að Jóhannes hafi því næst sagt honum að fara með bílinn með staurunum að N1 í Hafnarfirði við Lækjargötu. Þangað hafi hann farið, fengið sér kaffi og beðið. En enginn mætti. Hann segist hafa orðið þreyttur á biðinni svo að „ ég gaf skít í þetta og fór aftur í bæinn, með staurana í bílnum,“ sagði Páll við aðalmeðferðina. Páll fór með efnin að N1 í Hafnarfirði þar sem Daði sótti þau. Daði hafði ekki verið í neinum samskiptum við hina mennina.Vísir/Vilhelm „Svo hefur Jóhannes samband við mig og sagði að hann væri tilbúinn, þessi aðili sem ætti að sækja bílinn, og ég skildi koma með hann aftur í Hafnarfjörð. Ég fór með bílinn þangað. Þar beið ég í tvo tíma þar til að þessi aðili kom. Ég sá aldrei þennan aðila, kom aldrei nálægt þessum staurum, vissi ekki um magn efnis, hafði ekki hugmynd.“ Fram kom við aðalmeðferðina að sá sem sótti efnin hafi verið Daði Björnsson, sem sömuleiðis er ákærður fyrir sinn þátt í málinu. Upplifði að verið væri að nota hann Páll ítrekaði að hans þáttur í ferlinu hafi eingöngu snúið að því að koma gámunum til landsins. Hann hafi ekki „haft hugmynd um neitt annað í ferlinu.“ Hann sagðist hafa upplifað að verið væri að nýta sér hann og hans þekkingu á timbri. Hann lýsti því einnig að hans upplifun væri ekki sú að Jóhannes stæði á bak við innflutninginn. Hann hafi aðeins verið boðberi til Páls og séð um að afhenda honum fé, en ekki tekið neinar ákvarðanir. Þegar Páll var spurður að því hvort hann hafi vitað hvaða efni þetta væru sem til stóð að flytja inn, sagðist hann hafa vitað að það væru eiturlyf, og hafi lagt saman tvo og tvo og áttað sig á að um kókaín væri að ræða, þar sem ekkert annað kæmi frá Suður Ameríku. „Bara seki kallinn í þessu öllu“ Eins og áður kom fram sagði Páll við aðalmeðferð málsins að aldrei hafi verið rætt um upphæð sem hann átti að fá fyrir verkefnið. Aðeins að það ætti að „gera vel við hann.“ Í skýrslutökum hjá lögreglu sagðist hann hins vegar hafa átt að fá þrjátíu milljónir í sinn hlut. Spurður út í þetta ósamræmi sagði hann lögreglumann hafa „matað sig á þessu.“ Daginn eftir handtökuna hafi hann fyrst fengið upplýsingar um magn efnisins og verið í „andlegu þroti“. „Þegar ég les skýrslur... ég ruglaði fram og til baka. Eða lögreglan ruglaði í mér fram og til baka. Ég var allt í einu orðinn eins og ég segi í skýrslutöku, „bara seki kallinn í þessu öllu“. Þessar ásakanir sem á mig eru bornar, ég viðurkenni hlutdeild mína, þessa tíu sentímetra í þessum sex staurum. Annað hef ég ekki hugmynd um.“ Að neðan má sjá brot úr skýrslutökunni yfir Páli við aðalmeðferðina. Saksóknari bar undir Pál nokkur samtöl sem liggja fyrir í gögnum málsins. Saksóknari: Þú segir í samtali: „Fékk hann spennufall, vinur þinn?“Páll: Bara í gríni sko. Saksóknari: En við hvern áttir þú?Páll: Eins og ég segi, ég hef bara haft samskipti við tvo menn. Saksóknari: En við hvern áttir þú?Páll: Ég var bara í samskiptum við Jóhannes og Birgi. Þetta hlýtur þá að vera Birgir sem ég spyr hvort hafi fengið spennufall. Saksóknari: Þú spyrð líka hvort það sé óróleiki á markaði?Páll: Já, ég spyr bara að því. Saksóknari: Á hvaða markaði?Páll: Nú, bara markaðnum almennt. Saksóknari: Hvaða markaði almennt?Páll: Til dæmis var ekki hægt að fá menn í vinnu. Saksóknari: Markaðnum almennt varðandi efni, fíkniefnamarkaði?Páll: Neineinei, bara vinnumarkaðnum. Það var verslunarmannahelgi, það er í þessu samhengi. Það kemur hér skýrt fram að ég er aldrei að tala um nein fíkniefni, aldrei. Saksóknari: Síðan talar þú um að þetta séu níutíu staurar en ekki níutíu og tveir?Páll: Rökin fyrir því, það koma sextíu staurar frá utanaðkomandi aðila, það voru eftir peningar á reikningum sem þeir höfðu látið mig fá, ég bætti við þrjátíu staurum, sem mér fannst bara, ég vildi bara losa þessa peninga. Annarsvegar til að fá meiri balans á gáminn, uppá vigt að gera, það eru rökin. Saksóknari: Greiddu þeir fyrir þessa þrjátíu staura?Páll: Ja, það voru þessir peningar sem ég fékk frá Jóhannesi, man ekki hvað staurarnir kostuðu, þetta var eingöngu greitt með peningum frá Jóhannesi. Saksóknari: Þú talar um Birgi, og það sem „hann gerði síðast með húsið, að hann hefði lent í bullandi vandræðum?“Páll: Það var alltaf verið að tala um að taka að taka húsið, það var alltaf verið að pressa á mig. Saksóknari: Og þú talar um hvernig eigi að skera í timbrið?Páll: Já, það kemur fram það sem ég sagði áður: eins og ég hef útskýrt, tíu sentimetrar, ummál staursins, að hann skyldi saga það frá. Hann sagðist ætla tala við strákana, að þeir væru með plön. Ég vildi fá staurana til baka, ég hafði not fyrir harðviðinn, ekki efnin. Saksóknari: Var búið að semja um það?Páll: Ha, neinei. Saksóknari: Af hverju ættir þú að fá þá, þú borgaðir ekkert fyrir þá?Páll: Hvað ætluðu þeir að gera við þá, harðviður er harðviður, ég vildi bara fá hann. Saksóknari: Varðstu fyrir einhverjum hótunum?Páll: Nei, þeir hótuðu mér aldrei. Hins vegar ítrekaði ég spurningar við Jóhannes en hann hafði aldrei svör, þurfti alltaf að tala við strákana. Ég var orðinn pirraður. Það kemur meira segja fram í skýrslunum, þeir segja að „gamli sé orðinn pirraður, hann spyr og spyr.“ Þannig var þetta, ég fékk aldrei svör. Saksóknari: Jóhannes er að tala um að „þeir geti tekið við húsinu, það þori enginn að gera neitt fyrr en sé búið að tæma staurana.“ Þú segist fá „grænar bólur af því að það sé ekki búið að skrifa niður hvern einasta punkt í ferlinu.“ Hann segir að „þeir séu harðir á því, vildu ekki plana það þannig.“ Hvaða „þá“ er hann að vísa í? Páll: Væntanlega þessa stráka. Ég veit ekkert um þetta. Eða jú, ég hafði samskipti við tvo menn, hafði ekki talað við neina aðra. Ég var búinn að spyrja en fékk aldrei svör. Fékk aldrei svör við neinu. Og í lokin fæ ég svör um hvert ég eigi að fara með staurana. Endapunktur. Hafnaði alfarið ákæru varðandi peningaþvætti Páll, líkt og aðrir sakborningar, er einnig ákærður fyrir peningaþvætti. Saksóknari rifjaði upp að honum væri gefið að sök að hafa geymt og umbreytt sextán milljónum króna. Páll sagðist „ekki hafa hugmynd um hvaðan þeir peningar kæmu. „Ég fékk umbeðið fé, ef ég sagði að mig vantaði tólf hundruð þúsund þá fékk ég það bara tveimur dögum síðar.“ Páll, líkt og aðrir ákærðu, hefur setið í gæsluvarðhaldi í tæpa átta mánuði. Það hefur reynst honum afar erfitt. Allar líkur eru á því að fangelsisvistinni muni ekki ljúka í bráð.Vísir/Vilhelm Páll hefur verið sjálfstætt starfandi undanfarin ár. Hann sagði allt hafa verið gefið upp og að innlagnir á reikning sinn hafi allt verið seðlar frá Jóhannesi. Hann sagði Jóhannes hafa byrjað að láta sig fá peninga í apríl 2021 eða um það leyti. Hann hafi þó líka átt reiðufé sjálfur. Hann vísaði að mestu í gögn lögmanns síns þegar rætt var um fjármál. Einangrunin erfiðust Páll lýsti því fyrir dómi að ferlið, handtaka og gæsluvarðhaldið í kjölfarið, hafi tekið gríðarlega á hann. Einangrun hafi reynst honum sérstaklega erfið. Hann sagði blóðsjúkdóm sem hann hafi greinst með fyrir nokkrum árum vera að taka sig upp aftur. Hann væri með háan blóðþrýsting og væri almennt illa á sig kominn. Í lokin spurði dómari Pál hvort hann vildi bæta einhverju við. Hann notaði tækifærið og kvartaði enn og aftur yfir gæsluvarðhaldinu undanfarna mánuði. Unnsteinn Örn Elvarsson, Arnar Kormákur Friðriksson og Almar Möller, verjendur sakborninga í málinu.Vísir „Ég er hýstur þar á grundvelli almannahagsmuna. Þessi fíkniefni eru ekki til. Ég veit ekki hverjum ætti að stafa ógn af mér. Kannski dómari geti útskýrt það, hvaða ógn stafi af mér?“ Dómari svaraði að það væri ekki umfjöllunarefnið og spurði hvort hann hefði einhverju við sakarefnið að bæta. Páll svaraði því neitandi. Þegar skýrslutöku Páls var lokið var tekið stutt hlé áður en Jóhannes Páll Durr settist í vitnastúkuna. Sagðist hafa verið „blankur og eftir á í reikningum“ Jóhannes Páll mótmælti vitnisburði Páls og sagði hann koma mjög á óvart. Sagðist Jóhannes ekki hafa haft nokkra aðkomu að málinu fyrr en árið 2021. Hann hafi á þeim tíma verið blankur og „eftir á í reikningum.“ Hann segist því hafa sett bílinn sinn á sölu og í kjölfarið hafi komið til hans aðili og beðið hann að taka þátt í „litlu verkefni.“ Fyrir þetta litla verkefni sagðist hann hafa átt að fá fimm milljónir, sem er svipað og hann hefði fengið fyrir sölu á bílnum. Saksóknari spurði hvaða aðila hann væri að tala um. Jóhannes sagðist ekki tilbúinn að segja það, en tók fram að það væri enginn af sakborningum. Hlutverk hans að vera í samskiptum við Pál Jóhannes sagði hlutverk sitt hafa verið að hitta og vera í samskiptum við Pál og koma til hans símum og peningum. Auk þess átti hann að taka á móti timbri. Hann sagðist fljótlega hafa gert sér grein fyrir að það væri líklega „eitthvað meira en bara timbur“ sem um ræddi. Hann hafi hins vegar ekki spurt nánar út í það þar sem hann vildi sem allra minnst vita og leið ekki vel með sína þátttöku. Jóhannes viðurkenndi að hafa ekki reynt að bakka út úr verkefninu á neinum tímapunkti. Frá upphafi hafi það legið fyrir að hann ætti að fá fimm milljónir fyrir sinn hlut. Jóhannes sagði hlutverk sitt hafa verið að hitta og vera í samskiptum við Pál og koma til hans símum og peningum.Vísir Jóhannes sagði Birgi vin sinn hafa verið aukahlekk í keðjunni. Beðinn um að útskýra þau ummæli frekar sagði hann þá sem stæðu að baki innflutningnum hafa reynt að fjarlægjast málið eins og þeir gátu. Þeir hafi því bætt við fleiri milliliðum svo erfiðara væri að rekja aðkomu þeirra. Hann sagði Birgi hafa komið að málinu á eftir sér. Jóhannes sagðist þó hvorki hafa bent á hann né hafa haft neitt með hans aðkomu að gera. Þá sagðist Jóhannes ekki vita hversu margir hefðu staðið að baki innflutningnum. Mótmælti vitnisburði Páls Páll sagði í sínum vitnisburði að Jóhannes hefði komið að fyrri innflutningi, þegar hann flutti inn gám sem innihélt einingahús árið áður. Efnið sem var ekki sótt. Jóhannes sagði það með öllu ósatt. „Ég veit ekki hvort hann sé að hylma yfir með öðrum með því að skipta okkur inn fyrir þeirra stað eða hvort hann sé að ljúga til að hylma yfir sjálfan sig. Ég hitti manninn ekki fyrr en maí 2022. Ég tók ekki þátt í neinu og skil ekki af hverju hann er að segja þetta. Það á ekki við nein rök að styðjast, ég er i sjokki að heyra þetta. Þetta meikar bara ekkert sens,“ sagði Jóhannes. Hann var augljóslega í talsverðu uppnámi þegar hann lét þau orð falla. Lán fram og til baka Jóhannes Páll er ákærður fyrir peningaþvætti líkt og aðrir í málinu. Fjárhæðin sem um ræðir, óútskýrðar tekjur upp á rúmlega sautján milljónir króna, er bæði innborganir á innlendum og erlendum gjaldmiðlum. Jóhannes sagði ekkert saknæmt við þetta. „Bæði hef ég ferðast mikið sjálfur, annars vegar hef ég gert greiða fyrir félaga minn sem hefur ekki haft tíma til að skipta peningum sjálfur,“ útskýrði hann. „Megnið af þessum peningum, flest allt er á milli vinahópsins og fjölskyldumeðlima. Það er ekki tekið inn í þetta upphæðir sem ég hef lagt til baka. Þetta er bara eðlilegt uppsafn, ég hef farið út með vinum og verið sá eini sem var með kort og tekið út fyrir vini sem leggja inn. Svo hef ég aðeins verið í fjárhættuspilum og svona. Lán fram og til baka.“ Hann sagðist hafa verið að vinna á ýmsum stöðum á tímabilinu 2020-2022. Hann nefndi Rafíþróttasamtök Íslands, Barion, Gamla bíó, Hjálpræðisherinn, golfskála og fleira. Þá sagðist hann hafa verið á atvinnuleysisbótum á tímabili árið 2020. Hann viðurkenndi að hafa unnið einhverja svarta vinnu yfir covid tímabilið og auk þess stundað fjárhættuspil. Keypti sér Lexus með reiðufé Saksóknari spurði Jóhannes hvort hann ætti bíl og hann játaði því. Hann sagðist eiga Lexus sem hann hafi borgað þrjár og hálfa milljón fyrir með reiðufé sem hann hafi safnað lengi. Rannsakandi í málinu sagði Jóhannes hinsvegar hafa sagt í skýrslutökum hjá lögreglu að hann hafi borgað bílinn með peningum sem hann hafði fengið greitt svart frá ríkum ferðamönnum. „Þarna var hápunktur Covid og mér finnst þetta, tja, ólíklegt,“ sagði hann. Þá sagði Jóhannes engin fjármálatengsl vera milli hans og Birgis, nema þá bara sem vinir. Aðspurður hvað hann ætti við sagði hann: „Ég hef lánað honum ef hann hefur verið í bobba og öfugt. Höfum farið út að borða og svona og annar borgar. Bara í báðar áttir.“ Saksóknari benti á að árin 2020-2022 hafi Birgir lagt inn á Jóhannes 1,7 milljón og Jóhannes inn á reikning hans 1,1 milljón. Þetta útskýrði Jóhannes sem „lán fram og til baka.“ Þá var rætt um innlagnir á reikning unnustu Birgis. Jóhannes útskýrði að væntanlega hafi stundum hentað betur að leggja inn á hana en skýrði það ekki frekar. Páll, Daði, Jóhannes og Birgir sitja fyrir aftan verjendur sínar við aðalmeðferð málsins.Vísir Við húsleit á heimili Jóhannesar voru ellefu hundruð evrur, jafnvirði um 170 þúsund króna, gerðar upptækar. Barnsmóðir Jóhannesar og fyrrum sambýliskona hans bar vitni fyrir dómi og sagðist hún hafa átt umræddar evrur. Hún sagðist hafa verið á leið til Spánar með vinkonu sinni og hefði safnað þessum peningum í einhvern tíma. Þegar hún var spurð hvort hún hefði safnað upphæðinni í íslenskum krónum og skipt yfir í evrur neitaði hún að svara. Man ekki eftir samskiptum sem lögregla telur að tengist fíkniefnasölu Jóhannes hafði ekki skýringar á sjö milljónum sem hann lagði inn á eigin reikninga með reiðufé. Hann sagðist þó aldrei hafa selt né dreift fíkniefnum. Spurður um síma sem lagt var hald á á heimili hans, sem lögregla telur að tengist fíkniefnasölu, sagðist hann ekki kannast við það. Hann viðurkenndi þó að líklega ætti hann símann þar sem hann hafi verið á heimili hans. Saksóknari minntist á samskipti sem fundust í símanum, „þar sem óskað er eftir láni, einhver sé handónýtur og þú beðinn um að redda.“ Jóhannes mundi ekki eftir þessu. Lögreglumaður sem fór í gegnum símann var spurður hvað hefði fundist í símanum sem lögreglu grunaði að tengdist fíkniefnum. Hann svaraði að þar hafi verið samtöl þar sem Jóhannes er beðinn um „að redda“, auk þess sem myndir fundust af bókhaldi eða einhverskonar skuldalista. Dæmi um skilaboð sem Jóhannes fékk send og lögreglumaðurinn telur að tengist sölu fíkniefna eru: „Æ plís, I really need, get borgað á föstudag, mátt tvöfalda,“ og „Láttu mig fá þrjá og svo sykur líka.“ Ókunnugur maður biður um greiða Næstur í vitnastúkuna var Daði Björnsson, sem hinir mennirnir sögðust aldrei nokkurntímann hafa séð né átt í neinum samskiptum við áður en að málið kom upp. Daði er fæddur árið 1992. Hann byrjaði á að játa aðild sína að málinu og sagðist harma þátttöku sína. „Þetta bar fljótt að, ég er maður sem kom í manns stað. Svo dregst þetta á langinn og ég já, áttaði mig ekki á alvarleika og hversu umfangsmikið málið var.“ Hann sagðist ekkert þekkja hina mennina sem ákærðir eru í málinu. Hann hefði engin tengsl við þá og aldrei hitt þá fyrr en í gæsluvarðhaldsfangelsinu á Hólmsheiði. Daði lýsti því að maður, sem hann þekkti ekkert, hafi komið upp að honum og beðið hann að vinna fyrir sig „afmarkað verk.“ „Ég hafði hitt hann hjá sameiginlegum vini, hann hafði séð í mér að ég væri áreiðanlegur, og já, hvernig ég bar mig. Hann bað mig að hitta sig,“ útskýrði Daði. Þetta var í byrjun júlí. Saksóknari spurði hvað það hafi verið sem maðurinn bað hann að gera. „Hann biður mig að geyma fyrir sig drumba. Og í upphafi er það það bara það sem hann biður mig um, hvort ég geti geymt þá tímabundið.“ Saksóknari spurði Daða hvort hann hefði átt að fá eitthvað fyrir þetta, að geyma drumba fyrir mann sem hann þekkti ekkert. Daði sagði það ekki hafa verið rætt. Hann sagði það hafi heldur ekki verið minnst á hversu margir drumbarnir væru né hversu lengi hann hafi átt að geyma þá. Þetta hafi einungis átt að vera greiði. Daði sagði að það hafi svo verið nokkrum dögum síðar sem maðurinn hafi tjáð sér að það væru fíkniefni í drumbunum og að hann ætti að bíða frekari fyrirmæla. Daði viðurkenndi að hann hafi þarna verið búinn að gera sér í hugarlund að um eitthvað ólöglegt væri að ræða. Tók húsnæði á leigu og keypti verkfæri Fyrirmælin bárust Daða stuttu síðar. Hann átti að taka húsnæði á leigu þar sem það gengi ekki að vera með drumbana heima hjá honum. Húsnæðið þyrfti að vera þannig að bíll kæmist inn. Daði tók því á leigu geymsluhúsnæði að Gjáhellu. Maðurinn lét hann hafa reiðufé sem hann lagði inn á reikninginn sinn til að borga leiguverðið. Daði Björnsson tók iðnaðarhúsnæði í Gjáhellu á leigu. Þangað fór hann með efnin, vigtaði og pakkaði þeim. Lögreglan kom fyrir hlerunarbúnaði þegar hann skrapp frá. Vísir/Vilhelm Eigandi iðnaðarhúsnæðisins bar vitni og greindi frá því að eftir að hann auglýsti rýmið til leigu á netinu hafi Daði haft samband. Eigandinn sagði Daða hafa tjáð sér að hann væri að koma úr námi frá Danmörku og vantaði húsnæði til að geyma búslóð. Leigan var 170 þúsund krónur á mánuði auk virðisaukaskatts og var gerður fjögurra mánaða leigusamningur. Eltu Daða og settu upp hlerunarbúnað í Gjáhellu Daði var í samskiptum við manninn sem fékk Daða til verksins í gegnum samskiptaforritið Signal. Sá maður kallaði sig ýmist Nonna, Harry eða Trucker og var líklega með fleiri notendanöfn. Daði lýsti því að hann hafi fengið fyrirmæli frá „Nonna“ um að sækja drumbana á N1 í Hafnarfirði, þangað sem Páll hafi verið mættur með drumbana í sendiferðabíl. Þeir hafi þó ekki vitað af hvor öðrum. Daði sótti drumbana í tveimur ferðum og fór með þá í Gjáhellu. Lögreglan hafði fylgst með Jóhannesi, Páli og Birgi í talsverðan tíma en hafði fram að þessum tímapunkti ekki vitneskju um aðkomu Daða eða hlutverk hans. Þegar Daði sótti sendiferðabílinn hjá Páli á N1 elti lögreglan hann að geymsluhúsnæðinu í Gjáhellu. Á meðan hann fór seinni ferðina til að sækja efnin var hlerunarbúnaði komið fyrir þar. Daði Björnsson, til vinstri. Jóhannes Páll Durr er hægra megin.Vísir Síðar um daginn, í Gjáhellu, opnaði Daði drumbana með verkfærum sem hann hafði keypt að áeggjan „Nonna“; kúbein, meitil og hamar. Hann sagðist hafa fengið fyrirmæli um að pakka efnunum betur, sem hann gerði, setti auka límband þar sem honum hafi sýnst efnunum vera illa pakkað. Daði sagði að sér hafi verið sagt að vigta hluta efnanna, þrjátíu og fimm kíló, og fara með þau heim til sín í Mosfellsbæ. Hann sagðist ekki hafa verið búinn að fá fyrirmæli um hvað ætti að gera við restina af efnunum. Á leiðinni heim til sín stoppaði Daði á KFC í Mosfellsbæ og fékk sér að borða. Þar hitti hann aðila sem fékk að hringja hjá honum. Lögregluna, sem fylgdist með, grunaði að þetta væri sá sem ætti að taka við efnunum. Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í handtökur. Í ljós kom að þessi aðili, sem fékk að hringja hjá Daða, tengdist ekki málinu á neinn hátt og heldur hafði Daði hitt hann fyrir tilviljun. Daði átti að hitta aðila morguninn eftir og afhenda efnin. Aðilinn sem átti að taka við efnunum hefur ekki fundist. Ræddu um að grafa holur í Laugardal og í Heiðmörk Í síma sem fannst á Daða við handtöku fundust skjáskot af samskiptum hans við „Nonna“. Þar er talað um að grafa holur, meðal annars í Heiðmörk. Daði skýrði það þannig að þessi aðili hafi í fyrstu beðið hann að athuga hvort möguleiki væri að grafa holur í Laugardal. Hann sagðist því hafa farið og kannað aðstæður en metið það sem svo að það væri ómögulegt. Daði fór og kannaði aðstæður í Laugardal en mat það sem svo að ekki væri heppilegt að grafa fíkniefni þar.Vísir/Vilhelm Í kjölfarið hafi komið upp umræða um að grafa holur í Heiðmörk. Aðspurður um tilganginn sagði hann að væntanlega hafi staðið til að koma efnum í þessar holur. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Daði sagðist hafa upplifað mikinn þrýsting frá þessum aðila. Hann hafi upplifað ógn og að hann hafi verið fastur í aðstæðunum. Samskiptin hafi verið mikil og alltaf að frumkvæði aðilans, „Nonna.“ Skammaðist sín fyrir að hafa átt að gera „mikið fyrir lítið“ Daði sagðist fyrir dómi hafa átt að fá fimm milljónir fyrir verkið en í skýrslutökum hjá lögreglu nefndi hann tíu. Aðspurður um þetta misræmi sagðist hann hafa dauðskammast sín fyrir að hafa verið narraður út í þetta, að hafa verið gerður að burðardýri, þegar hann opnaði drumbana í Gjáhellu og sá hversu umfangsmikið og alvarlegt málið væri. Verjandi hans spurði þá hvort hann hefði upplifað að „hafa ætlað að gera mikið fyrir lítið?“ Daði játaði því. Hann sagðist hafa nýtt tímann í gæsluvarðaldinu, sem nú hefur staðið í hálft ár, sem betrunartækifæri. „Ég legg stund á nám aftur og hef reynt að byggja upp heilbrigðara líferni. Stunda meðferðarúrræði og hef náð að halda mér nokkuð heilum í kollinum.“ Kannabisræktun og peningaþvætti Daði er einnig ákærður fyrir kannabisræktun og vörslu á maríjúana, ásamt peningaþvætti. Á heimili hans í Mosfellsbæ fannst kannabisræktun. Hann sagðist hafa stundað slíka ræktun „on and off“, í einhvern tíma. Þá sagðist hann hafa verið atvinnulaus síðustu ár. Aðspurður um hvernig hann hafi borgað leigu og framfleytti sér, sagðist hann hafa fengið aðstoð frá fjölskyldu og nánum kunningjum og hefði jú, selt kannabis. Í tilfelli Daða er líkt og í tilviki Páls, um að ræða óútskýrða fjármuni að allt að sextán milljónum. Það eru að mestu leyti innborganir á reikning hans með reiðufé og greiðslur frá ýmsum aðilum. Daði svaraði öllum spurningum varðandi þetta fálega. Greiðslur frá hinum og þessum aðilum sagði hann vera „aðstoð með leiguna“ frá vinum og kunningjum auk einhvers ágóða af kanabissræktun. Vitni keyptu kókaín af Daða Á degi þrjú í skýrslutökum báru vinir og kunningjar mannanna vitni, auk nokkurra aðila sem höfðu fjármálatengsl við þá. Þessir aðilar höfðu lagt inn talsvert háar upphæðir inn á reikninga einhverra þeirra. Meðal þeirra sem báru vitni voru þrír aðilar sem viðurkenndu að hafa keypt kókaín af Daða á árunum 2020-2022. Millifærslur þeirra inn á reikning hans voru því útskýrðar með fíkniefnakaupum. Einn aðili sem lagði inn á hann rúmlega fimm hundruð þúsund í þrjátíu millifærslum gat þó ekki útskýrt það neitt frekar og bar við minnisleysi. Hann mundi þó eftir að hafa keypt af honum bassa og vínilplötur. Miður sín yfir að missa af tíma með börnunum Birgir Halldórsson, vinur Jóhannesar, hóf vitnisburð sinn fyrir dómi á því að lesa yfirlýsingu. Þar kom fram að hann hafi undanfarin ár verið á „góðum stað“, hafi eignast son árið 2021 og verið í sambandi frá árinu 2019. Sambýliskona hans ætti fyrir dóttur sem hann hafi gengið í föðurstað. Sagðist hann miður sín yfir að missa af tíma með börnunum en væri þakklátur fyrir stuðning fjölskyldu sinnar á þessum erfiðu tímum. Að hans sögn var haft samband við hann seint í maí í fyrra, af „aðila“. Ekki liggur fyrir hvort umræddur aðili sé fyrrnefndur „Nonni". Birgir segist upphaflega hafa neitað þegar hann var beðinn um að koma að málinu. Hans hlutverk hafi verið að koma boðum milli manna eftir að gámurinn var kominn til landsins. „Ég var ekki tilbúinn fyrst en lét því miður til leiðast þegar mér voru boðnar fimm milljónir,“ sagði hann. Birgir sagði verkefnið hafa átt að taka nokkra daga. Honum hafi verið sagt að útvega sér síma, sem hann gerði 23. maí. „Aðilinn“ setti upp nokkra tengiliði í símann. Segir augljóst að hann hafi verið hlekkur í langri keðju Birgir sagði það svo ekki hafa verið fyrr en í júlí sem hann hafi fengið fyrstu skilaboðin. Þau hafi verið verðandi gáminn, hvernig ætti að tæma hann og koma innihaldinu í skjól. Þá sagðist hann í eitt skipti hafa séð um að koma peningum til Páls í gegnum Jóhannes. „Mér var aldrei ætlað að gera annað en að bera upplýsingar á milli eftir gámurinn kom til landsins. Ég kom aldrei að kaupum á fíkniefnum eða panta timbur frá Brasilíu. Ég kom ekki nálægt því að koma eiturlyfjum fyrir í drumbunum,“ sagði Birgir. Hann sagði augljóst að hann hafi verið notaður til að „lengja keðjuna,“ og það væri gott fyrir hann ef öll hans samskipti við„Nonna“ yrðu birt. Páll væri að bjarga rassgatinu á sjálfum sér Birgir tók fram að hann hafi fengið upplýsingar um magn fíkniefnanna tveimur dögum fyrir handtöku, en hann hefði aldrei tekið þátt ef hann hefði vitað um hvaða magn væri að ræða. Hann endaði yfirlýsinguna á því að segjast sjá óendanlega eftir þessu, en hans hlutur í málinu væri óverulegur og hefði ekki verið nauðsynlegur. Innflutningurinn hefði þegar átt sér stað þegar hann kom að málinu. Ákærunni um peningaþvætti mótmælti hann alfarið. Líkt og Jóhannes mótmælti Birgir vitnisburði Páls. Hann sagðist hafa kynnst honum árið 2019 þegar sonur Páls var að reyna koma húsi, gistiheimili í leigu. Það hafi ekki verið að hans frumkvæði. Hann sagðist hafa rekist á Pál í jarðaför sonar hans en hefði ekki séð hann síðan. Birgir sagðist hafa á tilfinningunni að Páll væri að rugla honum og Jóhannesi við aðra aðila. Síðar í vitnisburðinum sagði hann: „Ég legg sérstaka áherslu á að ég fór aldrei í neinn hitting á neinar tröppur hjá Páli til að segja að hann gæti ekki bakkað út úr þessu. Þegar hann sat hér hlýtur hann að hafa sagt þetta til að reyna bjarga rassgatinu á sjálfum sér og reyndi að mála mig og Jóhannes upp sem aðra aðila sem hann hefur átt í samskiptum við. Eða þá að þetta er hundrað prósent skáldskapur." „Mér finnst enginn mikilvægur maður sitja í þessum réttarsal“ Saksóknari spurði Birgi nánar út í samskipti sín við Pál árið 2019. Páll sagði þá hafa hist nokkrum sinnum á pítsastað til að ræða saman þar sem þeir vildu ekki tala saman í síma. Þetta staðfestir Birgir, að þeir hafi hist á Devitos. Hann kvaðst þó lítið muna um hvað var rætt. „Ég man bara ekki nákvæmlega hvernig þetta var. Ekki frekar en einhver annar man hvern hann hitti 2019.“ Birgir Halldórsson segist aðeins lítill hlekkur í langri keðju. Rannsakendur málsins virðast ekki vera á sömu skoðun.Vísir Verjandi Birgis spurði hann hvort hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti tekið sjálfstæða ákvörðun í samskiptum en því neitaði hann. Hann sagðist aðeins vera liður í að lengja samskiptin. Birgir sagðist hafa átt samtal við lögreglumenn og spurt hvort þeir ætluðu ekkert að rannsaka þetta mál frekar. „Það er enginn annar í haldi, mér finnst enginn mikilvægur maður sitja í þessum réttarsal. Þetta hefur verið illa rannsakað,“ sagði hann. Skipulagt frá toppi til táar og „keðjur“ alþekktar Lögreglumaður sem kom að rannsókninni var spurður hvert hann teldi hlutverk Birgis vera. Hann útskýrði að þeir vissu að Birgir hefði verið í samskiptum við aðila erlendis. Það lægi fyrir í gögnum málsins. Talið væri að Birgir væri sá sem „sér um það sem vantar hér á landi, að það sé skaffað,“ eins og lögreglumaðurinn orðaði það. Þegar hann var spurður nánar út í þetta sagði hann að rannsóknin snéri einnig að erlendum aðilum. Hann sagði augljóst að Birgir hafi verið sá sem kom skilaboðum og peningum til Jóhannesar, og Jóhannes hafi komið því áfram til Páls. Máli sínu til stuðnings nefndi lögreglumaðurinn dæmi um að daginn fyrir handtöku hafi Páll og Jóhannes hist á Hilton hótelinu í Reykjavík. Páli vantaði peninga, 150 þúsund krónur, til að borga vinnumönnum fyrir að bera timbur. Jóhannes fór beint eftir fund hans við Pál að hitta Birgi sem lét hann hafa peningana, sem Jóhannes var með á sér við handtökuna. „Það er augljóst að verið er að búa til ákveðið net. Þetta eru þessi tvö verkefni, koma efnunum heim og svo annars vegar að taka á móti og græja þau," sagði rannsakandi málsins.Vísir/Sara Varðandi „keðjuna“ sem ákærðu í málinu vísa ítrekað í, sagði lögreglumaðurinn að slíkar keðjur væru alþekktar þegar kæmi að innflutningi fíkniefna. Hann útskýrði að menn hefðu oft ákveðin hlutverk og vissu ekki með hverjum þeir væru að vinna. „Jóhannes er milliliður Birgis og Palla [Páls.] Svo er Nonni með Daða. Hin hliðin veit ekkert af hvor öðrum,“ sagði hann. Það er augljóst að verið er að búa til ákveðið net, einhverjir sjá um samskipti hér og aðrir hér. Það er verið að fjarlægja menn og búa til net. Þetta eru þessi tvö verkefni, koma efnunum heim og svo annarsvegar að taka á móti og græja þau. Aðspurður um hvort hann teldi að hlutverk mannanna væru jafn veigalítil og þeir vildu meina svaraði hann því ekki beint en sagði: „Þetta er skipulag frá toppi til táar. Menn geta svo svo sem gert lítið úr sínum hlutverkum eins og þeir vilja en sendingin er níutíu og átta kíló. Þeir virðast allir vera meðvitaður um að þetta sé stór sending.“ Lögregla hafði ekki vitneskju um aðkomu Daða að málinu fyrr en hann tók við efnunum af Páli. Það var 4. ágúst. Daði var handtekinn um kvöldið, en lögreglan vissi ekki að til stæði að hann myndi hitta mann daginn eftir sem átti að taka við efnunum. Sá maður er ófundinn.Vísir/Sara Annar lögreglumaður taldi ekki líklegt að mennirnir hefðu í raun talið að um sex til sjö kíló væri að ræða eins og þeir hafa sjálfir haldið fram. Það hefði verið „gríðarlegur kostnaður og fyrirhöfn fyrir smáræði“, sagði hann. Til dæmis hafi kostað um 900 þúsund að losa einn gám út úr tollinum. Segir svört laun vel þekkt í byggingargeiranum Birgir var líkt og hinir, beðinn um að skýra frá óútskýrðum tekjum, sem í hans tilfelli voru um þrettán milljónir. Hann útskýrði að hann hefði verið á háum launum í iðnaðarvinnu. Hann sagði ef skattframtöl hans væru skoðuð kæmi fram að hann hefði staðið skil á sínum sköttum. Það stæðist enga skoðun að um peningaþvætti væri að ræða og vísaði til sölu á bifreið. „Það fer einstaklega mikið í taugarnar á mér. Ég kaupi bifreið og þegar ég legg inn kaupverð neitar lögregla að taka það gilt því ég legg það ekki inn á sama félag. Það er augljóst að ég er að leggja inn fyrir bílnum.“ Saksóknari spurði hverskonar verkefnum hann hefði unnið að. „Verkstjóri í minniháttar byggingarverkefnum,“ svaraði Birgir. Hann sagðist „ekki vilja lesa upp fyrir blaðamennina,“ hjá hvaða fyrirtækjum hann vann, en það sé í gögnum málsins. Hann viðurkenndi að hafa þegið svört laun, „enda sé það vel þekkt í byggingargeiranum.“ Konan sjái um að fara í Bónus og borga leikskólagjöld Varðandi óútskýrðar greiðslur frá ýmsum einstaklingum fullyrti Birgir að ekki væri um neitt ólöglegt að ræða. „Ef þetta fólk yrði kallað í vitnaleiðslur gæti það staðfest að þetta er ekki eitthvað tengt fíkniefnum.“ Um sjö til níu milljónir er að ræða, en líkt og Jóhannes útskýrði Birgir það sem „lán fram og til baka.“ Þegar Birgi var bent á að framfærsla hans væri langt undir framfærsluviðmiðum sagði hann að tekjur konunnar sinnar hefðu ekki verið reiknaðar með. Hefði það verið gert „hefðu birst nokkur auka hundruð þúsund í heimilisbókhaldið.“ Hann sagði að konan hans „hefði séð um að fara í Bónus, borga leikskólagjöld og allt það.“ Hver er „Nonni“? Ein af lykilspurningum málsins sem nú situr eftir, er hver aðilinn er sem var í samskiptum við Daða og gaf honum fyrirmæli? Hann kallaði sig ýmist Nonna, Harry eða Trucker á dulkóðuðum samskiptaforritum sem mennirnir notuðust við. Í skýrslutökum sagði lögreglumaður að ljóst væri að „Nonni“ væri sá aðili sem kom upplýsingum til Daða og „passaði að hann gerði það sem þurfti að gera,“ líkt og hann orðaði það. Daði hefur aldrei gefið upp hver „Nonni“ sé, en staðfest er að þeir hittust í að minnsta kosti eitt skipti þar sem lögregla fylgdist með. Það var þann 8. júlí við Melabúðina þar sem „Nonni“ lét Daða hafa síma. Daði neitaði því þó fyrir dómi að vita hver „Nonni“ væri. Þá er ein af stóru spurningum málsins hvort að það hafi átt að vera umræddur „Nonni“ eða einhver annar sem átti að taka við efnunum af Daða. Verjendur ákærðu hafa gagnrýnt lögreglu fyrir að hafa ráðist of snemma í handtökur en Daði átti að hitta einhvern daginn eftir að hann var handtekinn og afhenda efnin. Þá liggja fyrir samskipti á milli „Nonna" og Birgis. Þau samskipti fóru fram á ensku en lögregla telur þó að „Nonni“ sé íslendingur. Ljóst er að Birgir er einnig meðvitaður um hver „Nonni“ er í raun og veru, en þegar hann var spurður að því fyrir dómi sagði hann einfaldlega: Ég er ekki til í að segja hver það er. Þá sitja einnig eftir spurningar um hvernig kaupin á efnunum voru fjármögnuð, hvaða aðilar í Brasilíu komu þeim fyrir í drumbunum og hverjir, ef ekki þeir ákærðu, eru höfuðpaurar málsins og skipuleggjendur þess? Ætla má að götuvirði hundrað kílóa af kókaíni sé í kringum tveir milljarðar íslenskra króna. Fordæmi fyrir þungum dómum Verði mennirnir fundnir sekir má búast við að þeirra bíði löng fangelsisvist. Hámarksrefsing fyrir fíkniefnainnflutning er tólf ára fangelsi, en ofan á það gætu bæst dómar fyrir peningaþvætti. Fordæmi eru fyrir þungum dómum í umfangsmiklum fíkniefnamálum og ber þar helst að nefna 12 ára dóm sem tveir karlmenn hlutu í október á síðasta ári, í áðurnefndu Saltdreifaramáli. Það eru þyngstu dómar sem fallið hafa í fíkniefnamálum hér á landi. Áætlað er að aðalmeðferð málsins ljúki í næstu viku þegar hollensku tollverðirnir ljúka við skýrslutöku. Í framhaldinu fer fram málflutningur í málinu þar sem saksóknari og verjendur færa rök fyrir máli sínu. Búast má við dómsuppkvaðningu um fjórum vikum síðar.
Saksóknari bar undir Pál nokkur samtöl sem liggja fyrir í gögnum málsins. Saksóknari: Þú segir í samtali: „Fékk hann spennufall, vinur þinn?“Páll: Bara í gríni sko. Saksóknari: En við hvern áttir þú?Páll: Eins og ég segi, ég hef bara haft samskipti við tvo menn. Saksóknari: En við hvern áttir þú?Páll: Ég var bara í samskiptum við Jóhannes og Birgi. Þetta hlýtur þá að vera Birgir sem ég spyr hvort hafi fengið spennufall. Saksóknari: Þú spyrð líka hvort það sé óróleiki á markaði?Páll: Já, ég spyr bara að því. Saksóknari: Á hvaða markaði?Páll: Nú, bara markaðnum almennt. Saksóknari: Hvaða markaði almennt?Páll: Til dæmis var ekki hægt að fá menn í vinnu. Saksóknari: Markaðnum almennt varðandi efni, fíkniefnamarkaði?Páll: Neineinei, bara vinnumarkaðnum. Það var verslunarmannahelgi, það er í þessu samhengi. Það kemur hér skýrt fram að ég er aldrei að tala um nein fíkniefni, aldrei. Saksóknari: Síðan talar þú um að þetta séu níutíu staurar en ekki níutíu og tveir?Páll: Rökin fyrir því, það koma sextíu staurar frá utanaðkomandi aðila, það voru eftir peningar á reikningum sem þeir höfðu látið mig fá, ég bætti við þrjátíu staurum, sem mér fannst bara, ég vildi bara losa þessa peninga. Annarsvegar til að fá meiri balans á gáminn, uppá vigt að gera, það eru rökin. Saksóknari: Greiddu þeir fyrir þessa þrjátíu staura?Páll: Ja, það voru þessir peningar sem ég fékk frá Jóhannesi, man ekki hvað staurarnir kostuðu, þetta var eingöngu greitt með peningum frá Jóhannesi. Saksóknari: Þú talar um Birgi, og það sem „hann gerði síðast með húsið, að hann hefði lent í bullandi vandræðum?“Páll: Það var alltaf verið að tala um að taka að taka húsið, það var alltaf verið að pressa á mig. Saksóknari: Og þú talar um hvernig eigi að skera í timbrið?Páll: Já, það kemur fram það sem ég sagði áður: eins og ég hef útskýrt, tíu sentimetrar, ummál staursins, að hann skyldi saga það frá. Hann sagðist ætla tala við strákana, að þeir væru með plön. Ég vildi fá staurana til baka, ég hafði not fyrir harðviðinn, ekki efnin. Saksóknari: Var búið að semja um það?Páll: Ha, neinei. Saksóknari: Af hverju ættir þú að fá þá, þú borgaðir ekkert fyrir þá?Páll: Hvað ætluðu þeir að gera við þá, harðviður er harðviður, ég vildi bara fá hann. Saksóknari: Varðstu fyrir einhverjum hótunum?Páll: Nei, þeir hótuðu mér aldrei. Hins vegar ítrekaði ég spurningar við Jóhannes en hann hafði aldrei svör, þurfti alltaf að tala við strákana. Ég var orðinn pirraður. Það kemur meira segja fram í skýrslunum, þeir segja að „gamli sé orðinn pirraður, hann spyr og spyr.“ Þannig var þetta, ég fékk aldrei svör. Saksóknari: Jóhannes er að tala um að „þeir geti tekið við húsinu, það þori enginn að gera neitt fyrr en sé búið að tæma staurana.“ Þú segist fá „grænar bólur af því að það sé ekki búið að skrifa niður hvern einasta punkt í ferlinu.“ Hann segir að „þeir séu harðir á því, vildu ekki plana það þannig.“ Hvaða „þá“ er hann að vísa í? Páll: Væntanlega þessa stráka. Ég veit ekkert um þetta. Eða jú, ég hafði samskipti við tvo menn, hafði ekki talað við neina aðra. Ég var búinn að spyrja en fékk aldrei svör. Fékk aldrei svör við neinu. Og í lokin fæ ég svör um hvert ég eigi að fara með staurana. Endapunktur.
Stóra kókaínmálið 2022 Fíkniefnabrot Dómsmál Smygl Fréttaskýringar Tengdar fréttir Hafa allir svarað fyrir sig í stóra kókaínmálinu Fjórir karlmenn sem sæta ákæru í stóra kókaínmálinu svokallaða gáfu skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Óhætt er að segja að framburður ákærðu hafi verið um margt athyglisverður. Héraðsdómari tók skýrt fram við upphaf aðalmeðferðar í morgun að fjölmiðlar mættu ekki grein frá því sem fram kæmi fyrr en að lokinni aðalmeðferð. 19. janúar 2023 16:38 Aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar fer fram í dag Aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu svokallaða fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Um er að ræða langstærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi. Fjórum sakborningum í málinu er gefið að sök að hafa flutt inn um hundrað kíló af kókaíni, sem falin voru í sjö trjádrumbum. Reikna má með þungum dómum verði mennirnir fundnir sekir. 19. janúar 2023 08:01 Sagðist í fyrstu skýrslutöku hafa átt að fá greiddar 30 milljónir Karlmaður á sjötugsaldri sem sætir ákæru í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar viðurkenndi í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði átt að fá þrjátíu milljónir króna fyrir sinn hlut í innflutningnum. Í næstu yfirheyrslum dró hann úr framburði sínum og sagði óljóst hve há greiðslan hefði átt að vera. 21. nóvember 2022 16:52 Sakborningar í stóra kókaínmálinu spjölluðu allir við dómara á Skype Sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu tóku allir afstöðu til ákærunnar í gegnum fjarfundabúnaðinn Skype þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þeir sæta ákæru fyrir innflutning á tæplega hundrað kílóum af kókaíni hingað til lands. Þeir voru handteknir í ágúst síðastliðnum. 16. nóvember 2022 10:26 Stóra kókaínmálið: Liðsstjóri landsliðs og timbursali meðal sakborninga Enginn fjögurra sakborninga í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar á að baki sakaferil að ráði og í hópi þeirra eru timbursali og fyrrverandi liðsstjóri hjá íslensku landsliði í rafíþróttum. Málið verður þingfest á miðvikudag. 14. nóvember 2022 12:23 Mest lesið Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Innlent Kallar eftir sams konar úrræði og Breivik og árásarmaður hennar sæta Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Mansalsmál Gríska hússins: Vann sjö daga í viku hverri og svaf í kjallaranum Innlent Sakar Snorra um að tendra bál fordóma Innlent Fundu morðingja puttaferðalangs fimmtíu árum síðar Erlent Öryrkjar fá 1,7 skattfrjálsa milljarða Innlent „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast“ Erlent Þúsund lítrar af sýru láku á Bíldudal Innlent Ríkisstjórnin bjó sjálf til flóttamannavandamál Innlent Fleiri fréttir Lögreglan bannaði bjór á B5 Leikskólastarfsmenn í Hafnarfirði greiða atkvæði um verkfall Um 60 kennarar hjá Fræðsluneti Suðurlands Bein útsending: Sigmundur kynnir innihaldið Öryrkjar fá 1,7 skattfrjálsa milljarða Ætla ekki að slíta viðræðum Engin ákvörðun um hvalveiðar og maurasýrumengun á Bíldudal Kallar eftir sams konar úrræði og Breivik og árásarmaður hennar sæta Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Helmingi þætti óeðlilegt ef Bjarni gæfi út hvalveiðileyfi Þúsund lítrar af sýru láku á Bíldudal Ríkisstjórnin bjó sjálf til flóttamannavandamál Tveir handteknir eftir hópslagsmál Mansalsmál Gríska hússins: Vann sjö daga í viku hverri og svaf í kjallaranum Sakar Snorra um að tendra bál fordóma Nýju húsnæði Myndlistaskólans lokað Ísland meðal Evrópulanda þar sem lyfjatengd andlát eru hlutfallslega flest Nánast engin læknisþjónusta ef til verkfalls kemur Mikill eldur í iðnaðarhúsnæði á Akureyri Lyfjatengd andlát, rauð Bandaríki og glimmerveisla í Eldborg Tóku fyrstu skóflustunguna að nýjum skóla Óvíst hvort umsókn um hvalveiðileyfi verði afgreidd fyrir kosningar Fóru í óboðað eftirlit vegna ábendinga um slæman aðbúnað leikskólabarna Reikna með fimmtán milljarða kostnaði vegna tjóns Herði kröfur um reynslu leiðsögumanna eftir banaslysið Mengun meiri en búist var við frá bálstofu Lítil skjálftavirkni eftir hrinuna í byrjun viku „Dagurinn sem átti að vera fullur af gleði hlaðinn nístandi sorg“ Tvær íslenskar konur reyndust með alnæmi eftir mikil veikindi Bein útsending: Parkinson - meðferð, framfarir og framtíðarsýn Sjá meira
Hafa allir svarað fyrir sig í stóra kókaínmálinu Fjórir karlmenn sem sæta ákæru í stóra kókaínmálinu svokallaða gáfu skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Óhætt er að segja að framburður ákærðu hafi verið um margt athyglisverður. Héraðsdómari tók skýrt fram við upphaf aðalmeðferðar í morgun að fjölmiðlar mættu ekki grein frá því sem fram kæmi fyrr en að lokinni aðalmeðferð. 19. janúar 2023 16:38
Aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar fer fram í dag Aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu svokallaða fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Um er að ræða langstærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi. Fjórum sakborningum í málinu er gefið að sök að hafa flutt inn um hundrað kíló af kókaíni, sem falin voru í sjö trjádrumbum. Reikna má með þungum dómum verði mennirnir fundnir sekir. 19. janúar 2023 08:01
Sagðist í fyrstu skýrslutöku hafa átt að fá greiddar 30 milljónir Karlmaður á sjötugsaldri sem sætir ákæru í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar viðurkenndi í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði átt að fá þrjátíu milljónir króna fyrir sinn hlut í innflutningnum. Í næstu yfirheyrslum dró hann úr framburði sínum og sagði óljóst hve há greiðslan hefði átt að vera. 21. nóvember 2022 16:52
Sakborningar í stóra kókaínmálinu spjölluðu allir við dómara á Skype Sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu tóku allir afstöðu til ákærunnar í gegnum fjarfundabúnaðinn Skype þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þeir sæta ákæru fyrir innflutning á tæplega hundrað kílóum af kókaíni hingað til lands. Þeir voru handteknir í ágúst síðastliðnum. 16. nóvember 2022 10:26
Stóra kókaínmálið: Liðsstjóri landsliðs og timbursali meðal sakborninga Enginn fjögurra sakborninga í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar á að baki sakaferil að ráði og í hópi þeirra eru timbursali og fyrrverandi liðsstjóri hjá íslensku landsliði í rafíþróttum. Málið verður þingfest á miðvikudag. 14. nóvember 2022 12:23