Félagsskiptaglugginn lokar í dag og þetta var því síðasta tækifærið fyrir Pavel að eiga möguleikann á því að skipta sjálfum sér inn á völlinn í leikjum Tindastóls.
Samkvæmt lista KKÍ yfir staðfest félagsskipti þá er Pavel kominn með leikheimild með Tindastól í Subway deild karla.
Pavel tók við á dögunum sem þjálfari Tindastóls eftir félagið lét Vladimir Anzulovic fara í byrjun janúar.
Pavel mætti í fyrsta leik í stuttbuxum og vakti örugglega um leið vonir einhverja stuðningsmanna Tindastóls að hann gæti líka aðstoðað liðið inn á vellinum en ekki bara af hliðarlínunni.
Pavel lagði körfuboltaskóna á hilluna eftir síðasta tímabil þegar hann hjálpaði Val að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 39 ár og varð um leið sjálfur Íslandsmeistari í áttunda skiptið.
Tindastóll hefur aldrei orðið Íslandsmeistari en tapaði í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor. Liðið hefur þrisvar tapað í úrslitaeinvígi á móti liði með Pavel innan borðs en það gerðist 2015, 2018 og 2022.
