Joana Sanz, eiginkona Alves, hefur fjarlægt nánast öll ummerki um hann af samfélagsmiðlum sínum og tjáð lögfræðingum sínum að hún vilji skilja við Brassann. Þau hafa verið gift síðan 2017.
Alves var handtekinn í Barcelona í síðasta mánuði, grunaður um að hafa beitt konu kynferðisofbeldi á skemmtistað í borginni um áramótin. Alves er enn í varðhaldi og dúsir í fangelsi fyrir utan Barcelona.
Eftir handtökuna sagði mexíkóska félagið Pumas samningi Alves upp. Hann hafði verið hjá félaginu frá því í júlí.
Alves hefur hafnað sök. Fyrst sagðist hann aldrei hafa hitt konuna sem kærði hann en svo að þau hefðu stundað kynlíf með samþykki beggja.
Hinn 39 ára Alves lék með brasilíska landsliðinu á HM í Katar. Brassar féllu þar úr leik fyrir Króötum í átta liða úrslitum.