Þetta er í sjöunda sinn sem Norðmenn sinna loftrýmisgæslu á Íslandi fyrir NATO, en í þriðja sinn sem þeir eru hér á landi með F-35 orustuvélarnar. Fjórar vélar eru með í för og þar af eru tvær ávallt viðbúnar undir svokallað hnökralaust viðbragð ef til þess kæmi.
Almenningur haldi í sig í að minnsta kosti sjö metra fjarlægð
Strangar öryggiskröfur gilda í kringum vélarnar. Til að mynda var fréttamanni og ljósmyndara gert að halda sig í að minnsta kosti sjö metra fjarlægð og ekki var leyfilegt að taka myndir af vélunum á farsíma. Þungvopnaðir hermenn gæta vélanna allan sólarhringinn. Það er einnig hluti af þjálfun hermannanna.
„Við erum með okkar eigin verði sem vernda tæknibúnað og starfsmenn, en þetta er líka æfingaferð fyrir þá,“ segir Trond Haugen, undirofursti. „Ísand er auðvitað vinaland svo við þurfum ekki svo marga verði en þjálfun þeirra er líka hluti af verkefninu."

Nútímalegasta orrustuflugvél heims
Vélarnar búa yfir gríðarlegum hátæknibúnaði og uppfylla þarf margra ára stranga þjálfun til að geta flogið þeim.
„Þetta er nútímalegasta orrustuflugvélin í heiminum núna," segir Rolf Folland, ofursti og yfirmaður norska flughersins. Hann segir vélina hafa mikla getu hvað varðar skynjara og við samhæfingu með öðrum aðilum, bæði landher, sjóher, sérsveitum og öðrum flugherjum. „Svo þetta er mjög öflugur vettvangur hvað varðar skynjara og vopn", segir Rolf.

Aðspurðir um hvort stríðið í Úkraínu hafi áhrif á gæsluna eða verkefni flughersins hér á landi segja yfirmenn svo ekki vera en það hafi áhrif á samheldni NATO.
„Ég held að við séum jafnvel enn sterkari saman nú um stundir. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að koma hingað til Íslands og hafa eftirlit með öllu langflugi í kringum eyjuna," segir Rolf Folland, ofursti og yfirmaður norska flughersins.
Áætlað er að norski herinn verði á landinu fram í miðjan febrúar og sinni loftrýmisgæslu.