Dómarinn kvað upp úrskurð í málinu klukkan 14:30 í dag. Báðum köflum ákærunnar er lúta að hryðjuverkum, tilraun til hryðjuverka og hlutdeild í tilraun til hryðjuverka, var vísað frá dómi. Það er því óhætt að segja að málið sé í uppnámi.
Tveir eru ákærðir í málinu, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs, segir í samtali við fréttastofu að hann sé ánægður með niðurstöðuna og að um sigur sé að ræða.
„Þetta er í samræmi við okkar væntingar,“ segir hann.
„Ákæruvaldið getur auðvitað kært þetta til Landsréttar, þeir gætu líka ákveðið að gefa út nýja ákæru sem lýtur að þessu. Svo gætu þeir bara ákveðið að láta kyrrt liggja og klára þá bara vopnalagabrotin duga, sem eru auðvitað minniháttarbrot í samanburði við hryðjuverkabrotin.“
„Þeir voru of bráðlátir“
Sveinn Andri segir að málið sé lexía.
„Ég held að það megi líta á þetta jákvætt, að þetta sé lærdómur. Þetta er lærdómur fyrir lögreglu og ákæruvaldið. Þeir geta horft aðeins inn á við og metið það hvernig þeir geta bætt sín vinnubrögð ef og þegar svipuð aðstaða kæmi upp. Fara þá rólega af stað, fylgjast með hugsanlegum brotamönnum í einhvern tíma og rannsaka þá áfram.
Hann segir að lögreglan þurfi að vera viss í sinni sök: „Þeir voru of bráðlátir.“

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari segir í samtali við fréttastofu að næstu skref hjá embætti héraðssaksóknara verði að lesa úrskurðinn. Svo verði skoðað hvort málið verði kært til Landsréttar.