Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá flutningaskip í Bolungarvíkurhöfn en verið var að hífa úr því vinnslubúnað fyrir nýja laxasláturhúsið. Daníel Jakobsson hjá Arctic Fish segir að fjárfestingin í húsinu sé um fjórir milljarðar króna.

„Það er risastór framkvæmd. Það er um fimm þúsund fermetrar að gólfflatarmáli,“ segir Daníel.
Tækin sem skipað var á land í gær eru annarsvegar blæðingartankur og hins vegar kælitankur og var þeim komið fyrir í húsinu. Mikil umsvif fylgja framkvæmdunum í Bolungarvík og hafa milli þrjátíu og fjörutíu manns unnið að uppbyggingunni þar frá því í fyrravor.

„Það skapast um fjörutíu ársverk þar og er bara eitt tæknivæddasta sláturhús í heimi, mikið af íslenskum búnaði þarna. Mjög tæknivætt og mikil sjálfvirkni þannig að þarna skapast mörg skemmtileg störf,“ segir Daníel.
Í fréttum í gær sáum við uppskipun úr norsku vinnsluskipi á Ísafirði á slægðum laxi sem slátrað var í Dýrafirði en um 3.500 tonn renna þar í gegn á þremur vikum, sem þykir mikið.

Húsið í Bolungarvík mun hins vegar afkasta 120 þúsund tonnum á ári, miðað við að starfsfólk vinni á einni vakt, en 240 þúsund tonnum, miðað við tvöfalda vakt, og verður þetta langafkastamesta hús sinnar tegundar í landinu.
„Frá því að við förum af stað þar núna um miðjan júní og út árið erum við að gera ráð fyrir að slátra þar um fimmtán þúsund tonnum.“
Útflutningsverðmæti slíks magns er yfir fimmtán milljarðar króna.

Fyrst um sinn verður laxinum bæði slátrað í húsinu og hann slægður. Jafnframt er gert ráð fyrir flökunarvélum og þeim möguleika að þróa frekari úrvinnslu með stækkun hússins, en fyrirtækið hefur óskað eftir meira landrými með útvíkkun hafnargarðsins, að sögn Daníels.
„Og ég held að það verði gríðarleg upplyfting fyrir norðanverða Vestfirði að fá þessa atvinnugrein hér inn, á norðanverða Vestfirði,“ segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: