Borgarskjalasafnið er héraðsskjalasafn Reykvíkinga og geymir gríðarlegt magn upplýsinga, allt frá húsauppdráttum og einkaskjalasöfnum til gamalla einkunnaspjalda og nemendalista úr grunnskólum. Á fundi borgarráðs í gær lagði borgarstjóri til að leggja niður safnið í sparnaðarskyni, en tillögunni var frestað.
Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, hefur starfað á safninu í yfir 35 ár og líst illa á þessar hugmyndir.
„Þetta er Ráðhúsið, Þetta eru verklegu framkvæmdirnar og skólarnir og svo framvegis. Við tökum síðan við þessu. þetta kemur allt til okkar á Borgarskjalasafni þar sem við sjáum til þess að þetta sé sómasamlega skráð svo það sé hægt að finna þetta og við erum sömuleiðis að hafa eftirlit með skjalastjórninni. Mér finnst þetta þvílíkt metnaðarleysi þessar hugmyndir, eða það sem ég hef heyrt af þessum hugmyndum.“

Í samtali við fréttastofu í dag sagði Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði að tillagan gæti fært starfið áratugi aftur í tímann, ómetanleg sérfræðiþekking myndi glatast.
Svanhildur segir safnið einnig geyma viðkvæm gögn um einstaklinga.
„Það eru greiningargögn og það eru barnarverndarskjöl og skjöl og slíkt og það skiptir gríðarlegu máli fyrir fólk að sé varðveitt og það sé hægt að fá aðgang að því.“