Tindastóll vann Grindavík með 13 stiga mun á Sauðárkróki í síðustu umferð Subway deildar karla í körfubolta. Pétur Rúnar átti flottan leik þar sem hann skoraði 14 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Stólarnir eru nú komnir í 5. sæti deildarinnar og virðast vera að finna taktinn.
„Pétur Rúnar er leikmaður sem ég hef stundum ekki skilið ákvarðanir í kringum. Hefði viljað láta hann fá kyndilinn og vera aðalmanninn. Þetta er frábær leikmaður og þegar hann er góður þá vinnur Tindastóll flest lið, ef hann er á sínum leik,“ sagði Örvar Þór Kristjánsson.
„Hann er lykill fyrir þetta lið. Hann er að koma upp núna á hárréttum tíma og ef Tindastóll ætlar að gera eitthvað í úrslitakeppninni þá þarf hann að spila vel, og hann getur það. Held að Pavel hafi góð áhrif á þennan strák. Getur kennt honum helling. Ef Pétur Rúnar kemst í sinn gír á Tindastóll góða möguleika á að gera eitthvað en ég er ekki enn sannfærður með þá,“ bætti Örvar Þór við.

Kjartan Atli sýndi svo svart á hvítu hvaða áhrif Pavel hefur haft á Pétur Rúnar hingað til.
„Þetta er allt saman upp á við,“
sagði Kjartan Atli einfaldlega um tölfræði Péturs Rúnars síðan Pavel mætti á Krókinn. Umræðu Körfuboltakvölds í heild sinni má sjá hér að neðan.