Enski boltinn

Eig­andi Liver­pool segir fé­lagið ekki til sölu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liverpool er ekki til sölu þrátt fyrir fréttir og orðróma um annað.
Liverpool er ekki til sölu þrátt fyrir fréttir og orðróma um annað. MB Media/Getty Images

John W. Henry, eigandi enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir það ekki til sölu. Henry segir þó að hann sé tilbúinn að fá inn nýja fjárfesta til að aðstoða við rekstur félagsins.

Henry er eigandi FSG, Fenway Sports Group, sem keypti Liverpool árið 2010 á 300 milljónir punda (52,4 milljarða íslenskra króna]. Í nóvember á síðasta ári sagði Henry að FSG væri tilbúið að fá inn nýja fjárfesta til að aðstoða við reksturinn en í kjölfarið fóru orðrómar á kreik að FSG vildi selja félagið.

Henry hefur endanlega tekið fyrir það að Liverpool sé til sölu en hann ræddi við Boston Sports Journal í dag.

Sagði hann að hvorki hann né FSG yrðu í Englandi að eilífu en að sama skapi væri Liverpool ekki til sölu. Hann sagði að FSG væri í viðræðum við nýja fjárfesta og hann væri viss að það kæmi eitthvað úr því, það yrði hins vegar aldrei sala á félaginu í heild.

Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem FSG myndi selja hlut í félaginu en árið 2021 seldi það fjárfestingafyrirtækinu RedBird Capital hlut fyrir 533 milljónir punda [93 milljarða íslenskra króna].

Síðan FSG keypti Liverpool hefur félagið unnið ensku úrvalsdeildina, Meistaradeild Evrópu, FA bikarinn, enska deildarbikarinn tvívegis, HM félagsliða, Ofurbikar Evrópu og samfélagsskjöldinn.

„Höfum við selt eitthvað undanfarin 20 ár,“ spurði Henry að endingu um mögulega sölu á Liverpool en FSG á einnig hafnaboltaliðið Boston Red Sox og íshokkí liðið Pittsburgh Penguins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×