Enski boltinn

Yfir­maður mynd­bands­dómgæslunnar á Eng­landi hættir að tíma­bilinu loknu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neil Swabrick virkar ánægður í vinnunni.
Neil Swabrick virkar ánægður í vinnunni. Chris Radburn/Getty Images

Neil Swarbrick, yfirmaður myndbandsdómgæslu [VAR] ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, mun ekki sinna sama starfi á næstu leiktíð. Fjölmiðlar í Bretlandi greindu frá þessu í dag.

Hinn 57 ára gamli Swabrick dæmdi lengi vel í deild þeirra bestu á Englandi en eftir að hann lagði flautuna á hilluna árið 2018 þá tók að sér stöðu yfirmanns myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni.

Þegar Swabrick tók við starfinu var myndbandsdómgæsla ekki enn orðin hluti af ensku úrvalsdeildinni og hjálpaði hann við að móta kerfið sem notað er í dag. Kerfið hefur verið vægast sagt umdeild enda fjölmörg mistök verið gerð.

Ákvað dómarinn Lee Mason að segja af sér sem myndbandsdómari eftir mistök í leik Arsenal og Brentford nýverið. Ákvörðun Swabrick má ekki rekja til mistaka líkt og hjá Mason. Hins vegar hefur Howard Webb tekið við sem yfirmaður dómaramála og virðist hann ætla að hrista upp i hlutunum.

Það er því ljóst að við munum fá nýjan yfirmann myndbandsdómgæslu á næstu leiktíð. Hvort sú ákvörðun mun fækka eða fjölga mistökum kemur svo einfaldlega í ljós þegar fram líða stundir.


Tengdar fréttir

„Ég verð sáttur ef þeir gefa okkur þessi tvö stig til baka“

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að hann verði ekki sáttur nema enska úrvalsdeildin gefi liðinu tvö stig til baka eftir að mistök í VAR-herberginu urðu til þess að Arsenal þurfti að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Brentford um liðna helgi.

Vill að „sí­brota­maðurinn“ Lee Mason verði rekinn

Yfirmaður dómaramála í ensku úrvalsdeildinni, Howard Webb, ætti að reka Lee Mason vegna mistaka hans í VAR-herberginu í leik Arsenal og Brentford í fyrradag. Þetta segir fyrrverandi dómarinn og dómarastjórinn Keith Hackett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×