Handbolti

Óðinn um markið ótrúlega úr hornkastinu: „Reyni þetta aldrei aftur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson storkaði handboltalögmálunum með því að skora beint úr hornkasti.
Óðinn Þór Ríkharðsson storkaði handboltalögmálunum með því að skora beint úr hornkasti. vísir/vilhelm

Óðinn Þór Ríkharðsson segir að það hafi lengi blundað í sér að reyna að skora úr hornkasti eins og hann gerði í Evrópudeildinni í handbolta á dögunum.

Óðinn skoraði markið ótrúlega í eins marks sigri Kadetten Schaffhausen, 27-28, á Benfica í síðustu viku. Hann jafnaði þá í 25-25 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Markið má sjá hér fyrir neðan.

„Ég veit ekki hvernig viðbrögðin hefðu verið ef ég hefði klikkað á þessu. En svo sem hugsað þetta áður, að þetta gæti verið möguleiki. Ég var búinn að fá eitt hornkast fyrir, þeir klúðruðu þá þannig ég hugsaði að ég mætti alveg láta vaða,“ sagði Óðinn í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar.

„Ég hef ekki gert þetta áður og auðvitað kom það mér á óvart því líkurnar á að þetta fari inn eru engar. Ég reyni þetta aldrei aftur.“

Aðeins einu marki munaði að Óðinn og félagar hans í Kadetten Schaffhausen myndu mæta Val í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Í staðinn mæta svissnesku meistararnir Ystad.

Langaði að fá Val

„Það hefði verið geggjað að fá Val, upp á að spila Evrópuleik í þessari mögnuðu umgjörð og stemmningunni sem hefur verið í Origo-höllinni. Það hefði verið mjög gaman. Ég ætla ekkert að ljúga að mér hafi verið alveg sama,“ sagði Óðinn. 

„Mig langaði að fá Val. Ekki því þeir eru eitthvað verri. Þetta eru alveg jafn góð lið en bara að fá Evrópuleik á Íslandi hefði verið geggjað.“

Óðinn segir að framganga Valsmanna í Evrópudeildinni hafi ekki komið sér í opna skjöldu.

„Nei, þetta hefur ekki komið mér á óvart. Mér finnst þetta vera á pari við það sem ég bjóst við. Þeir fengu ellefu stig og er flott. En ég vissi alveg hversu góðir þeir eru,“ sagði Óðinn.

Hlusta má á hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×