Atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna hófst á fimmtudag og lýkur næstkomandi miðvikudag. Verði miðlunartillagan samþykkt fá félagar í Eflingu sömu launahækkanir og í kjarasamningum annarra félaga Starfsgreinasambandsins sem náðust við SA í byrjun desembermánaðar. Launahækkanirnar verða afturvirkar frá 1. nóvember 2022.
Sólveig Anna, formaður Eflingar, greindi frá því í viðtali á Samstöðinni í gær að hún ætlaði sér að greiða með miðlunartillögunni.
Meðvituð um að „fullt af fólki verði alveg brjálað“
Hún sagðist meðvituð um að „fullt af fólki verði alveg brjálað.“ Það sé þó ekkert annað í stöðunni en þetta. „Ég vil að bílstjórarnir fái það sem að þeir munu fá og að það fari nú í gegn,“ sagði Sólveig.
„Ég verð eflaust grilluð á teini mjög hratt og rösklega,“ sagði Sólveig. Aðspurð um hver ætti að gera það sagði hún að það væri fólkið sem vildi ekki að hún segði þetta.
„En kannski slepp ég við grillunina. Kannski finnst fólki að það sé búið að grilla mig nógu lengi.“