Borgarstjórn mun ræða tillögu um að leggja niður Borgarskjalasafn á fundi sínum í dag og greidd verða atkvæði um tillöguna. Tillagan hefur verið umdeild og kemur hún nú til kasta borgarstjórnar þar sem tillagan fékk mótatkvæði í Borgarráði, sem tók hana fyrir á föstudag.
Sagnfræðifélag Íslands hefur mótmælt fyrirhugaðri lokun safnsins harðlega, minnihlutinn í borgarstjórn sömuleiðis og Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, skrifaði í grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun að óvenjulega hafi verið staðið að tillögunni um að leggja safnið niður.
Til að mynda hafi ríkt leynd um tillöguna, hvorki hún né aðrir starfsmenn safnsins látnir vita. Þá hafi verið byrjað á öfugum enda; að ákveða fyrst að leggja safnið niður en kanna svo fýsileika þess að ganga til samninga við ríkið um að sameina það Þjóðskjalasafni.
„Svona beiðni fer til ráðuneytisins og ég hef óskað eftir fundi í ráðuneytinu sem ég mun fá í næstu viku þar sem er skoðað út á hvað beiðnin frá Reykjavíkurborg gangi og hvaða afleiðingar hún hafi fyrir okkar starfsemi,“ segir Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður.
Verði tekin ákvörðun um að leggja Borgarskjalasafn niður komi það í hlut Þjóðskjalasafns að taka við safnmunum og sinna þeim.
„Nú þegar eru átján sveitarfélög sem skila til Þjóðskjalasafns,“ segir Hrefna en á fimmta tug héraðsskjalasafna starfa í dag.
Verði Borgarskjalasafni lokað vanti Þjóðskjalasafn talsvert meira fjármagn og enn brýnna verði að fá betra og stærra húsnæði, sem þegar er orðið of lítið.
„Já, Það held ég að blasi við,“ segir Hrefna og bætir við: „Hvort sem af þessu verður eða ekki þá er verið að skoða okkar húsnæðismál og það er nauðsynlegt að það verði tekið á þeim málum.“