Margir hafa tekið eftir aukningu í því að fá straum síðustu daga, til dæmis þegar gripið er í hurðarhún bílhurðar eða þegar verið er að opna fartölvuna.
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu, að rakastigið hafi verið ansi lágt síðustu daga. Til að mynda hafi það farið í undir þrjátíu prósent í dag en eðlilegt rakastig er á milli fimmtíu til sjötíu prósent.
„Þetta kemur oftar þegar það er svona þurrt eins og búið er að vera undanfarið. Það er eiginlega það algengasta. Það fer líka eftir í hvaða klæðnaði maður er í, ef fólk er meira í gerviefnum, situr eða dregur á sér fæturna þegar það gengur. Þá er eins og þú sért að hlaða á þér skrokkinn og svo þegar þú tekur í handfangið á bílnum þá færðu stuð,“ segir Óli.
Einnig er það algengara í svo þurru veðri að fá varaþurrk. Þó ætti rakastiginu að fara hækkandi næstu daga.
„Þegar fer að líða á daginn fer að þykkna upp smám saman og þá verður ekki jafn þurrt. Laugardagurinn verður líka með mun hærra rakastig, þá verður það í kringum fimmtíu til sjötíu prósent. Það er eðlilegra. Svo þegar það kemur úrkoma yfir verður loftið mettað og þá nær það upp undir hundrað prósent,“ segir Óli.